Birt þann 27. september, 2020 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson
Tölvuleikir hækka í verði – líka á Íslandi
Undanfarna daga hafa myndast heitar umræður á netinu um tölvuleikjaverð á væntanlegum tölvuleikjum fyrir næstu kynslóð leikjatölva. Undanfarin 15 ár hefur tölvuleikjaverðið haldist í kringum 60 dollara í Bandaríkjunum en hækkar upp í 70 dollara með næstu kynslóð leikjatölva (Business Insider). Samkvæmt okkar heimildum má búast við að verð á leikjum hérlendis muni fylgja verðþróun erlendis.
Á Íslandi erum við háð gengi íslensku krónunnar sem getur sveiflast mikið á milli ára sem þýðir að verðið á tölvuleikjum getur hækkað eða lækkað á milli mánaða. Fyrir um 15 árum var algengt að nýlegir tölvuleikir kostuðu í kringum fjögur til sjö þúsund krónur á Íslandi líkt og fram kemur í þessari verðkönnun sem GameOver.is gerði árið 2007.
Undanfarin ár hefur algengt verð fyrir tölvuleiki verið á bilinu níu til tólf þúsund krónur. Árið 2011 framkvæmdi Nörd Norðursins verðkönnun og var algengt verð þá sjö til tíu þúsund krónur á nýjum leikjatitlum.
Við fórum á nokkrar íslenskar vefsíður sem bjóða upp á forpöntun á PS5 leikjum og virðist algengt verð vera á bilinu tíu og upp í þrettán, jafnvel fjórtán þúsund krónur, sem gerir í kringum 10% hækkun. Áhugavert er að skoða verðmuninn þar sem Coolshop.is býður upp á besta verðið á PS5 leikjatitlum þar sem hækkunin milli leikjatölvukynslóða er lítil sem engin.
Frá árinu 2007 hafa tölvuleikir þar af leiðandi hækkað um 80-150% í verði á íslenskum markaði í íslenskum krónum talið. Samkvæmt Verðlagreiknivél Hagstofu Íslands hefur verðlag hækkað um 82% á sama tímabili.