Birt þann 8. ágúst, 2019 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson
Youngblood er ófrumlegt hliðarspor en góð skemmtun
Samantekt: Fínn leikur þegar þú ert að spila með vini en tekur ekki miklar áhættur og færir seríuna ekki fram á við.
3
Ágætur
Wolfenstein: Youngblood er forvitnilegt hliðarspor á þeirri endurreisn sem sænska fyrirtækið MachineGames hóf á Wolfenstein leikjunum árið 2014.
Leikurinn er ekki framhald af Wolfenstein II: The New Colossus, og heldur ekki algerlega nýtt dæmi. Fyrir þá sem hafa spilað tölvuleikina í þó nokkurn tíma þá er þetta meira aukapakki sem er seldur stakur.
1980, tuttugu árum eftir endalok Wolfenstein 2: The New Colossus, þá eru Bandaríkin og stór hluti heimsins komin undir hæl nasistanna sem hafa sest að í Evrópu og hert tökin þar. B.J. Blazkowicz og kona hans Anya hafa alið upp Sophiu og Jessicu, tvíburadætur þeirra, og kennt þeim að berjast og komast af. Saga leiksins byrjar á því að Blazkowicz hverfur og stelpurnar ásamt vinkonu þeirra Abby fara til Parísar til að leita af honum.
Það verður seint hægt að segja að sagan í Youngblood sé sterkasti hlutur leiksins, hún er innihaldslítil og tekur litlar áhættur. Soph og Jess eru á köflum gangandi klisjur og það er erfitt að tengjast þeim og þeirra leit af föður þeirra. Til samanburðar við það sem MachineGames hefur náð að gera við persónu B.J. í að gera „steratröllið“ mannlegt og einhvern sem þú gast tengst við og var ekki sama hvað yrði um. Eitthvað sem ég hélt að væri ómögulegt fyrir söguhetju Wolfenstein leiks.
Það sem aðskilur Youngblood frá fyrri leikjum er áherslan á co-op spilun. Hvort að það er gert með tölvustýrðri persónu, vini eða ókunnugum í gegnum internetið. Leikurinn heldur fram að hann sé „betri með vinum“ en það er ekki alveg rétt, leikurinn er nær algerlega hannaður með co-op í huga og að spila leikinn með gervigreind leiksins er oft pirrandi og dregur úr skemmtun leiksins.
En þegar þú ert að spila með öðrum og hefur samskipti við þá breytist spilun leiksins talsvert. Það er nefnilega oft gert ráð fyrir því að þú sért að koma að óvinum úr sitthvorri átt til að valda sem mestum skaða (flanking). Þetta er eitthvað sem virkar fínt með öðrum leikmanni en ekki eins vel með þegar tölvan spilar með þér. Oft átti tölvustjórnaða persónan það til að ráðast beint á óvinina þegar ég var að fara í gegnum opnu borð leiksins og stóð þar á miðri götu, skjótandi á nasista og vélmenni í stað þess að nýta sér skjólið sem var í boði. Ekki einu sinni reyna að eiga samtal við tölvuna um hvað það er að laumast um borðið og útrýma óvinunum laumulega, það myndi hjálpa talsvert ef það væri hægt að skipa henni aðeins fyrir. Aftur á móti er þetta allt annað mál með öðrum leikmanni, þú átt þá ekki við sömu vandamál að glíma.
Eitt sem er frumlegt í leiknum og það er hvort sem þú ert að spila með gervigreindinni eða öðrum leikmanni þá eru þið með sameiginleg líf. Mest er hægt að vera með þrjú líf og er hægt að finna aukalíf í lokuðum kistum sem þarft tvo til að opna. Þú getur fallið og hinn leikmaðurinn getur endurlífgað þig innan viss tíma og þá missið þið ekki líf en annars fækkar lífum um eitt. Þegar öll lífin eru búin þá þarftu að byrja alveg frá byrjun sem er frekar pirrandi. Leikurinn vistar bara þegar þú byrjar borðið, það eru engin „checkpoint“ inn á milli. Þetta getur verið pirrandi ef sá sem er að spila með þér er ekki að standa sig eða tölvan hefur ákveðið að spila kapal í stað þess að berjast við óvinina og þið þurfið að endurtaka seinustu 10-20 mínútur aftur.
Systurnar hafa síðan tímabundna hæfileika sem er hægt að beita til að fá aukalíf eða betri vörn. Þetta getur bjargað þér úr erfiðum bardaga oft, sérstaklega ef að báðir leikmenn velja hæfileika sem nýtast vel saman.
Ég veit að þetta virkar sem pínu hörð gagnrýni, en það er því miður nauðsynlegt að benda á þetta og hvernig leikurinn er ekki nógu vel gerður fyrir þá sem vilja spila hann einir með tölvunni. Ekki hjálpar heldur að í opnu borðunum í París er erfitt að forðast mun sterkari óvini fyrir til að halda áfram með söguþráð leiksins eða leysa aukaverkefni.
Eitt af því sem virkar vel í leiknum er sögusviðið Nýja París, eins og borgin kallast í leiknum og hefur hún endurbyggð eftir seinni heimstyrjöldina af nasistunum og ber merki þess. Hérna eru áhrif franska fyrirtækisins Arkane Studios fyrst sjáanleg í umhverfi og hönnum borðanna. Þetta minnir talsvert á Dishonored leikina. Það er visst flæði í hvernig þú getur ferðast, frá því að fara eftir þröngum hliðargötum sem opna nýjar leiðir, yfir að fara á milli húsa og hæða til að forðast óvini og finna leynda hluti í leiknum.
Takmarkið í París er að komast inn á þrjá stöðvar sem kallast „Bræðurnir þrír“. Með að finna lykla í tölvum þeirra geta systurnar komist í Lab X rannsóknarstöðina og vonandi fundið föður sinn. Það eru ýmsar leiðir til að opna fyrir aðgang af bræðrunum og með að leysa hliðarverkefni í leiknum, sem Franska andspyrnuhreyfingin úthlutar, opnast fyrir nýjar leiðir, ný vopn og nýja möguleika. Það er reyndar nauðsynlegt að gera vissan hluta af þeim vegna þess að hin nýjungin í Youngblood, er að öll verkefni og óvinir hafa tölfræðilegt stig (level) á bakvið sig og þú þarft að vinna þig upp og opna fyrir nýja hæfileika til að eiga séns að komast áfram í leiknum.
Þú færð reynslustig (exp) fyrir að leysa verkefni, drepa óvini og finna hluti svo að þú ert á þann hátt hvattur til að kanna heiminn og berjast við óvini. Þú þarft að byggja þig upp hreinlega vegna þess að allir grunnóvinir birtast aftur eftir að þú hefur drepið á endurspiluðum svæðum. Þetta getur stundum verið pirrandi þegar þú ert að reyna að hlaupa í gegnum visst verkefni og nennir ekki að stöðva í nokkrar mínútur til að berjast við óvini. Eins og í hlutverkaleikjum þá eru sumir óvinir með hauskúpu við hliðina á nafninu sem gefur til kynna að þú eigir ekki góðan möguleika í þá. Það er þó hægt að sigra flesta óvini með smá útsjónarsemi.
Ef fólk hefur spilað eitthvað af síðustu Wolfenstein leikjum síðan 2014 þá ættu vopn leiksins og að nota þau vera mjög kunnulegt þar sem þau eru flest uppfærðar útgáfur af vopnum sem þú hefur séð. Þú getur nýtt peninga sem þú finnur í leiknum til að uppfæra vopnin og láta þau passa betur við þinn leiksstíl.
Eitt sem leikurinn gerði ekki alveg nógu vel að mínu mati var að benda manni á að vissir óvinir eru veikir fyrir vissum vopnum og má sjá það á hvítu brynju merkingunni við hliðina á lífinu þeirra. Hún er annað hvort með svera kassa eða mjóa og ef þú skoðar vopnin þín þá eru eins merkingar þar og gefur það til kynna hvað er best. Vandinn er að þegar ég spilaði leikinn þá annað hvort sagði leikurinn mér þetta aldrei eða þetta fór framhjá mér á methraða. Svo ég var oft að berjast við óvini og mér leið eins og hvasst orðbragð eða steinar virkuðu betur á en þeir tugir haglaskota sem ég var búinn að skjóta óvininn með og hann virtist ekki einu sinni finna fyrir því.
Að vera ekki með kort sem er hægt að kalla upp þegar spilað er leikinn, er sérstök ákvörðun hjá MachineGames. Einnig að geta ekki stöðvað leikinn til að fara í valmynd eða slíkt, leikurinn er ávallt í gangi. Maður skilur þetta meira þegar er spilað í gegnum netið, en ekki alveg þegar þú og gervigreindin eru að spila saman.
Eitthvað sem mun ekki gleðja marga er að leikurinn inniheldur „micro-transactions“ eða það er hægt að kaupa gjaldmiðil innan leiksins til að kaupa nýtt útlit á vopnin þín og persónur. Það virðist eins og það sé möguleiki á fleiri hlutum síðar en hvort að Bethesda hafi ákveðið að virkja ekki þann hluta leiksins strax er erfitt að segja til um. Svo lengi sem þetta er bara fyrir útlitslega hluti ætti þetta að sleppa, en þetta er oft varasöm leið til að fara og stutt í verri viðskiptamódel sem á meira heima í fríum leikjum.
Eitt sem hjálpar mikið til með leikinn að mínu mati er verðmiðinn. Erlendis kostar leikurinn $29.99-$39.99/£29.99-£34.99, sem er hátt í fimm þúsund krónur fyrir stafrænt eintak eða 7.999.kr fyrir áþreifanlegt. Það sem þú græðir á að kaupa Deluxe útgáfu leiksins er flott leið til að bjóða vini, sem á ekki leikinn, að spila með þér
Þegar þú ert hlaupandi um leikinn með vini, skjótandi nasista og blóð og byssukúlur fljúga um þá er Wolfenstein: Youngblood stórgóð skemmtun sem er með nægt efni til að halda fólki við efnið í smá tíma. Vandinn er að hann hefur ekki mikið að segja og á til að endurtaka sig. Það hefði verið gaman að sjá MachineGames og Arkane Studios leika sér meira að þessari breyttu framtíð (skrýtnu fortíð okkar) í leiknum og sýna fólki meira af honum.
Þrátt fyrir allt þá hef ég sökkt um 17 tímum í leikinn og er komin í styrkleigastig 47 og er enn að spila hann. Það segir eitthvað um leikinn eða bara um mig. Það er ljóst þegar leikurinn endar að hann er að stilla upp fyrir næsta alvöru leik og þar fyrst er ég spenntur að sjá hvað MachineGames gera eftir að Wolfenstein II: The New Colossus hitti ekki alveg 100% í mark hjá öllum, þótt fínn væri en New Blood var talsvert betri á flestum sviðum.