Fréttir

Birt þann 8. maí, 2019 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Íslensk íþróttafélög innleiða rafíþróttir

FH mun bjóða upp á æfingar í rafíþróttum. Fleiri íslensk íþróttafélög stefna á að bjóða upp á rafíþróttadeildir.

Í dag kynnti FH að íþróttafélagið hafi ákveðið að bjóða upp á þjálfun í rafíþróttum. Þar með er FH fyrsta íslenska íþróttafélagið til að kynna starfsemi sína og markmið á sviði rafíþrótta opinberlega. KR og Fylkir eru einnig komin með rafíþróttadeildir og eiga væntanlega eftir að kynna starf sitt á komandi vikum.

Á vel mættum kynningarfundi FH sem fram fór í Kaplakrika fyrr í dag kom fram að íþróttafélagið hafði í dágóðan tíma verið að horfa til rafíþrótta og ákváðu að nú væri rétti tíminn til taka skrefið og bjóða formlega upp á rafíþróttadeild innan FH. Áhersla verður lögð á FIFA fótboltaleikinn en auk þess verður boðið upp á æfingar í Fortnite, CS:GO og mögulega League of Legends. Leikjaval getur þó breyst og byggir að miklu leyti á vali þeirra leikmanna sem ákveða að æfa íþróttagreinina hjá félaginu.

Strax í sumar mun FH bjóða upp á sumarnámskeið fyrir börn og unglinga á aldrinum 11-16 ára en aðrir aldurshópar verða einnig skoðaðir. Næsta haust mun rafíþróttardeild FH hefja reglubundna starfsemi samhliða öðru íþróttastarfi.

Áhersla rafíþróttadeildar FH verður ábyrg spilun, heilsusamleg spilun, markviss spilun og skipulögð spilun.

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑