Fréttir

Birt þann 18. apríl, 2019 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Náðu þér í ókeypis eintak af Assassin’s Creed Unity og skoðaðu Notre Dame dómkirkjuna

Eins og flestir vita kviknaði í Notre Dame dómkirkjunni í hjarta Parísar síðastliðinn mánudag. Fjölmargir hafa heimsótt kirkjuna í gegnum tíðina, þar á meðal fjöldi Íslendinga, enda er kirkjan mjög merkileg fyrir margar sakir. Kirkjan er um 850 ára gömul og á sér langa og merkilega sögu, auk þess sem hún þykir vera ein fallegasta dómkirkja heims.

Til að gefa tölvuleikjaspilurum um heim allan tækifæri til að upplifa þessa mögnuðu dómkirkju hefur Ubisoft leikjafyrirtækið ákveðið að gefa eintök af Assassin’s Creed Unity, spilurum að kostnaðarlausu. Leikurinn sjálfur er frá árinu 2014 og gerist á tímum frönsku byltingarinnar í París og þar er meðal annars hægt að skoða Notre Dame bygginguna að utan sem innan. Ubisoft hefur auk þess styrkt endurbyggingu dómkirkjunnar um 500.000 Evrur (BBC News).

Aðeins er um tímabundið tilboð að ræða. Til að nálgast ókeypis eintak af Assassin’s Creed Unity þarf að sækja leikinn í gegnum Uplay leikjaveituna milli 17. og 25. apríl. Eftir að leikurinn hefur verið sóttur einu sinni verður hann aðgengilegur í gegnum leikjasafn notandans á Uplay það sem eftir er.

Smelltu hér til að sækja Assassin’s Creed Unity



Forsíðumynd: Ubisoft

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑