Leikjanördabloggið

Birt þann 28. október, 2011 | Höfundur: Kristinn Ólafur Smárason

2

Made in China: Kostir og gallar þess að kaupa tölvudót frá Hong Kong

LNBanner

Suma lesendur rámar eflaust í það að ég hef áður talað um gæði pirated leikjatölvna og tölvuleikja. Mekka pirate framleiðenda er og hefur ávallt verið í Kína, og þrátt fyrir að Famicom og NES tölvurnar séu orðnar yfir kvart aldar gamlar þá eru enn í dag framleiddar ódýrar eftirlíkingar af tölvunum og leikjunum í Kína. Ég hef heyrt að ástæðan fyrir þessu sé einfaldlega hin mikla fátækt meðal almennings í Kína. Fæstir geta leyft sér að kaupa glænýja Playstation 3 eða X-box 360, og þar af leiðandi er enn stór markaður fyrir famiklóna og aðrar 8-Bita tölvur í Kína. Kínversku klónvörurnar eru samt yfirleitt langverstar þegar kemur að gæðum, og það á af einhverjum ástæðum sérstaklega við þá hluti sem voru framleiddir á síðastliðnum árum. Hvort að Kínverjinn sé farinn að missa metnaðinn fyrir gæða pirate framleiðslu eða hvort markaðurinn sé smátt að deyja út er erfitt að segja til um.

Alla vegana, fyrir nokkru síðan rambaði ég á kínverska heildsölusíðu sem var að selja famiklóna og pirated Famicom leiki. Nokkrir meðlimir á spjallborði sem ég stunda reglulega höfðu þegar keypt nokkra leiki þaðan, og þrátt  fyrir að flestir þeirra væru sammála um að leikirnir væru sennilega í lægsta gæðaflokki pirated tölvuleikja hingað til, þá virkuðu þeir. Þar fyrir utan voru þeir hræódýrir og flutningskostnaður var innifalinn í verðinu. Ég hugsaði mig um í nokkrar vikur, skoðaði síðuna reglulega og að lokum ákvað ég að versla mér nokkra leiki og tvo famiklóna. Þessi ákvörðun var aðallega tekin þar sem draslið var svo ódýrt að þótt að pakkinn myndi aldrei koma yrði þetta aldrei neitt gífurlegt fjárhagslegt tap.

Ég beið í nokkrar vikur og ekkert fréttist af pakkanum. Ég beið í fleiri vikur og ennþá ekkert. Þá ákvað ég að hafa samband við kínverska fyrirtækið í gegnum spjall á netinu og fékk þar samband við þjónustufulltrúa að nafni Rose. Rose sagði mér að einn famiklóninn og tveir af leikjunum sem ég pantaði hefðu ekki verið til á lager og því hefðu þeir sent mér allt sem þeir áttu í pöntuninni minni á undan og hitt myndi koma seinna. Mér leist ekkert á það þar sem ég vissi að bara tollugjaldið myndi nánast jafngilda því sem ég var að borga fyrir þetta drasl. Ég tjáði Rose að þetta hentaði mér gífurlega illa þar sem nú myndi ég þurfa að borga tvöföld tollagjöld, og þar fyrir utan væru liðnar fimm vikur síðan ég setti inn pöntunina til að byrja með. Rose bauðst þá til að senda mér „ókeypis gjöf“ með næsta pakka til þess að bæta upp fyrir þetta klúður. Þegar ég spurði hvað þessi gjöf myndi vera, var mér sendur linkur inn á gult plastúr, með innbyggðum heilsusegul sem eykur blóðflæði og jónabeitingu líkamans eða eitthvað álíka bull. Ég pent afþakkaði þessa gjöf, gubbaði því út úr mér að þetta væri óásættanleg þjónusta og bað um endurgreiðslu á þeim hlutum sem höfðu ekki verið sendir. Það reyndist ekki vera neitt mál og Rose fullyrti að pakkinn minn hlyti að fara að skila sér, þannig ég hóf að nýju biðina eftir pakkanum mínum.

Voru þetta kannski mistök? Ætli úrið hefði breytt heilsu minni til hins betra?

Síðan gerðist það hérna um daginn að ég rak augun í umslag á tölvuborðinu mínu. Ég er þannig týpa sem er ekki mikið að opna gluggapóstinn, þar sem þetta eru í 99% tilvika tilkynningar frá bankanum um reikninga sem þeir hafa þegar greitt fyrir mig. Þessi óvani minn hefur komið mér í koll áður en slíkar sögur eiga ekki heima á bloggi um tölvuleiki. Alla vegana, ég sá umslagið og þetta var ekki þetta venjulega bankaumslag sem ég hendi alla jafna ofaní skúffu, þannig að ég opnaði það og sá að þetta var ítrekun frá tollinum um að þeir væru alveg að fara að senda pakka, sem ég átti hjá þeim, aftur til sendanda nema ég myndi útvega þeim upplýsingar um hvaðan pakkinn kæmi og hvað ég hefði borgað fyrir hann. Þetta var sem sagt algerlega minn feill, pakkinn var búinn að vera á landinu í þrjár vikur en vegna krónískrar umslaga-opnunar-tregðu minnar hafði ég ekki haft hugmynd um það. Núna dauðsé ég eftir því að hafa verið svona leiðinlegur við aumingja Rose, Rose ef þú ert að lesa þetta (og kannt Íslensku) biðst ég afsökunar.

Ég hugsa samt að Rose hafi nóg annað á sinni könnu

Ég sendi að sjálfsögðu strax allar upplýsingar og í gær gat ég náð í pakkann á pósthúsið! Pakkinn hafði greinilega verið opnaður af tollstjórum í leit að eitthverju ólöglegu. Ég hefði haft virkilega gaman af því að sjá andlitin á þeim þegar þeir sáu hvað leyndist í pakkanum, enda örugglega ekki margir Íslendingar sem láta senda sér rúmt kíló af loftfylltu plasti. Pakkinn hefur síðan verið teipaður aftur saman með límbandi, og það alveg herfilega vel, það var þvílíkt basl að ná að opna hann aftur.

Eltihrellar geta zoomað inn á myndina til að sjá hvar ég á heima

Þegar pakkinn var opinn blasti dýrðin við mér. Fimmtán stykki af pirated famicom leikjum í lægsta gæðaflokki og svo eitt stykki kínverskur famiklón. „En bíddu nú við“, hugsaði ég. Þetta var ekki tölvan sem ég hafði pantað. Umbúðirnar voru ekki þær sömu og ég sá á síðunni.

Þrátt fyrir nafnið keyrir hún ekki Windows XP 2003

Ég opnaði kassann og sá að þetta var reyndar svipuð tölva og ég hafði pantað, en ekki alveg. Ástæðan fyrir því að ég pantaði tölvuna sem ég átti að fá var vegna þess að hún átti að vera eftirlíking af Playstation 3, og hét meira að segja því kaldhæðna nafni „Funstation 3“ sem átti að vera ritað utan á hana í sömu leturgerð og Sony notast við. Það stendur ekkert á tölvunni sem ég keypti en hún lítur reyndar út eins og Playstation 3, bara sirka 1/5 af stærðinni og kannsi 1/20 af þyngdinni. Síðan átti að fylgja með einn pirated leikur með tölvunni en það fylgdi enginn með þessari tölvu. Sömuleiðis var tengi á hinni tölvunni fyrir gult/rautt/hvítt RCA tengi, en þessi er bara með gult/rautt, sem þýðir að hún spilar sennilega bara hljóð í mono.

Meira að segja frauðplastkassinn er í lægri gæðaflokki en maður er vanur hérna á Vesturlöndum

Hvað um það, ég ákvað að prufa að tengja hana og athuga hvort hún virkaði í það minnsta. En því miður var ekki heldur hlaupið að því. Þegar ég fór að skoða kaplanna sem eru tengdir í fjarstýringarnar, ljósbyssuna, straumbreytirinn og RCA tengin þá kom í ljós að ekkert af þessum köplum eru yfir einn meter að lengd.

Tveggja lítra kókflaskan er til viðmiðunar

Þannig að til þess að allt þetta gæti verið tengt á sama tíma þyrfti ég einhvern veginn að láta tölvuna hanga á milli sjónvarpsins og næsta fjöltengis, og svo að sitja ekki lengra en meter frá sjónvarpsskjánum. „Ok, ok, ég læt þetta virka einhvern veginn“ hugsaði ég. Ég tengdi allt saman við tölvuna, tengdi tölvuna við sjónvarpið og ætlaði svo að fara að stinga henni í samband en…

Ertu ekki að grínast?

Klóin á straumbreytinum er of stutt til að komast ofan í venjulegt íslenskt fjöltengi! Eina leiðin fyrir mig til að stinga henni í samband væri að setja hana beint í vegginnstungu, en þar sem ég bý í fjölbýlishúsi sem var reist snemma á áttunda áratugnum er fátt og langt á milli tengla. Þar af leiðandi verð ég annað hvort að finna framlengingarsnúru sem nær inn í eldhús, eða finna fjöltengi þar sem innstungan er ekki ofaní holu. Prufunin á þessum famiklón verður því að bíða betri tíma.

En þá eru það leikirnir. Á sama tíma og þeir eru algjört drasl þá eru þeir samt algjör snilld. Það eru tvær tegundir af hylkjum sem ég fékk; önnur er úr appelsínugulu plasti og eru aðeins stærri, hin hylkin eru úr gulu plasti og eru aðeins minni. Köllum stóru hylkin A-hylki og litlu hylkin B-hylki.

A-hylkin virðast vera gerð úr endurunnu og hálf „skítugu“ plasti. Það eru svartir skrítnir blettir á víð og dreif um hylkin og plastið er frekar þunnt. Sílikonborðið sem geymir leikina innan í hylkinu rétt gægist út um raufina þannig að það er frekar erfitt að segja til um hvenær hylkið er komið alveg inn í tölvuna. Leikirnir á þessum hylkum virðast líka vera meira truflaðir (glitchy) en á B-hylkjunum, en sumir leikirnir eru nánast óspilanlegir vegna þessara truflanna. A-hylkin eru aftur á móti úr aðeins flottara plasti, en það eru steypt svo þunnt að þegar ég set hylkin í tölvuna þá beygist það allt til og maður er bara hálf hræddur við að brjóta hylkið í tvennt. Í einu tilviki var ég að setja leik í tölvuna til að prófa hann og þá hrökk hylkið í tvennt, brotnaði ekki, en beygðist nóg til að höldin innan í því misstu festingu og það losnaði í sundur. Annar smáverður galli sem tengist samt ekki leikjunum beint, er greinileg árátta kínversku verkamannanna til að setja vörumerkingar miðana sína á límiðana sem eru utan á leiknum. Það er þegar stór plastflötur til að setja þá á sem myndi gera það að ná þeim af mun auðveldara og sömuleiðis minnka hættuna á því að maður rífi límiðann á leiknum. Það er samt ekki það eina sem ég hef að setja út á kínverska verkalýðinn. Þeir sem settu leikina saman klúðruðu einu hylkinu þannig að sílikonborðið inní hylkinu var sett öfugt inn. Ég hélt fyrst að leikurinn væri ónýtur en eitthvað inní mér sagði mér að prufa að setja hann öfugan í tölvuna. Voila! Hann virkaði. Stærstu gallarnir við þessa leiki eru því; slök samsetning, smá truflanir á leikjunum og lélegt plast.

Enda komu tveir leikir brotnir og einum er bókstaflega haldið saman af gúmmíteygju

Kostirnir eru einfaldlega þeir að þettu er heill HELLINGUR af leikjum fyrir kúk og kanil. Hylkin innihalda flest þrjá eða fjóra leiki, en sum eru með alveg sjö til átta, og eitt þeirra er með 64 leiki! Venjulega þegar pirate hylki auglýsa sig fyrir að innihalda marga leiki eru þeir venjulega aðeins þrír eða fjórir, en þetta hylki með 64 leikjunum virðist standa við stóru orðin (þó hef ég ekki ennþá prufað alla leikina á hylkinu). Ég hugsa að ég geti líka sagt að það sé kostur að allir leikirnir eru með svona plasthulstur sem hylur tengin á leikjunum, sem ætti fræðilega séð að auka endingu þeirra. En ég hugsa að plastið sem var notað í þessi hulstur hefði betur verið varið í að gera hylkin sjálf þykkri, enda eru þau alveg á mörkunum með að haldast saman. Ég hef líka áður skrifað um hvað mér finnast límmiðar á pirate leikjum geta verið skemmtilegir. Þessir eru alveg sér á báti með fáránleikann. Margir þeirra nota myndir úr nýlegum bíómyndum og tölvuleikjum til að auglýsa leiki sem eru flestir eru orðnir vel yfir 20 ára gamlir. Helstu kostirnir eru því; hellingur af leikjum, (mögulega) betri ending og fyndnir límmiðar.

Vá hvað það hlítur að vera geðveik grafík í þessum 8-Bit leikjum!

Ég þyrfti eiginlega líka að segja frá því hvað sumir þessara leikja eru fáránlegir, enda er Kínverjinn þekktur fyrir að breyta og hakka leiki þannig að þeir virðist vera eitthvað nýtt. Eins og hverjum hefði dottið í hug að það væri til Super Mario 7, 9, 11 og 14? En það er efni í heila færslu í viðbót sem ég mun skrifa síðar.

Allt í allt er ég sáttur með þessi kaup. Bara hláturskrampinn við að skoða famiklóninn og spila Tekken í 8-Bit grafík hefur sennilega lengt líf mitt um nokkur ár. En ég ætla ekki að fara leynt með það að allir þessir hlutir eru algert RUSL. Ef þú lesandi góður hefur áhuga á því að kaupa þér famiklón og nokkra pirated leiki til að fá ódýrt nostalgíu fix, ekki kaupa það ódýrasta sem þú finnur og reyndu að komast hjá því að hlutirnir séu frá Kína.

Takk fyrir lesturinn!

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



2 Responses to Made in China: Kostir og gallar þess að kaupa tölvudót frá Hong Kong

Skildu eftir svar

Efst upp ↑