Fréttir

Birt þann 30. júní, 2018 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Haltu kjafti og taktu peningana mína! Nokkrar góðar sumarútsölur

Nú er rétti tíminn fyrir okkur nördana til að gera góð kaup. Nokkrar spennandi sumarútsölur eru við það hefjast eða nú þegar hafnar. Helst bera að nefna hina árlegu Nexus útsölu sem hefst mánudaginn 2. júlí á slaginu 10:00 þar sem hægt er að gera góð kaup á spilum, bókum, teiknimyndasögum, kvikmyndum, fatnaði, fígúrum o.fl. í aðalverslun þeirra, Nóatúni 17. Verslunin lofar vel lækkuðu verði þar sem ekkert er á minna en 30% afslætti og eiga að vera margir hlutir sem verða á enn hærri afslætti. Gera má ráð fyrir röð fyrir framan verslun Nexus þegar verslunin opnar þar sem yfir 1200 hafa skráð áhuga sinn á viðburðinum á Facebook. Á Facebook hefur Nexus birt nokkrar myndir af undirbúningnum og sést þar meðal annars í spilin Pandemic Legacy, Whistle Stop og Star Trek: Ascendancy sem verða öll á útsölunni. Einnig sést í vígalega Hulk fígúru úr The Avengers. Nexus útsölunni lýkur þann 12. júlí.

Fyrir tölvuleikjaspilarana ber helst að nefna Steam sumarútsöluna sem hófst 21. júní síðastliðinn og lýkur 5. júlí. Þar geta tölvuleikjaspilarar gert góð kaup á völdum titlum. Meðal annars er Getting Over It á 40% afslætti ($4,79), Dishonored 2 á 50% afslætti ($19,99), Injustice 2 á 40% afslætti ($29,99), Overcooked á 66% afslætti ($5,77), Civilization 5 á 75% afslætti ($7,49), Fallout 4 GOTY Edition á 50% afslætti ($29,99), Final Fantasy XV Windows Edition á 50% afslætti ($24,99), Portal 2 á 90% afslætti ($1,99) og Elder Scrolls IV: Oblivion GOTY Edition á 50% afslætti ($9,99). Þetta er aðeins brot af úrvalinu sem hægt er að skoða í heild sinni á vefverslun Steam.

Gamestöðin, sem heldur upp á 10 ára afmælið sitt þessa dagan, er einnig með góða útsölu á tölvuleikjum. Tilvalið tækifæri til að styðja við innlenda verslun og um leið gera góð kaup. Gamestöðin birti brot af úrvalinu á Facebook-síðu sinni og þar má meðal annars sjá Detroit: Become Human (PS4) á 5.999 kr, Dark Souls Remastered (PS4) á 3.999 kr, Prey (PS4) á 1.999 kr, Sims 4 (PS4) á 4.999 kr, Dark Souls III GOTY Edition (Xbox One) á 1.999 kr, The Witcher III Wild Hunt GOTY Edition (Xbox One) á 2.999 kr, Destiny 2 (PC) á 999 kr, Final Fantasy XV Windows Edition (PC) á 1.999 kr. og Shadow of War (PC) á aðeins 999 kr.

Fyrst við erum að tala um gott verð má einnig nefna að í Costco sást Xbox One 2 TB. Game Drive Sea of Thieve Edition á 11.999 kr, en þetta er góð viðbót fyrir þá sem vilja stækka geymsluplássið á leikjatölvunni og hafa aukapláss fyrir fleiri leiki. Þess má geta að þá virkar diskurinn einnig vel með PlayStation 4 leikjatölvunni, aðeins þarf að forsníða diskinn, sem PS4 tölvan sér alveg um. Gæti varla verið auðveldara.

Forsíðumynd: Futurama

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑