Fréttir

Birt þann 25. apríl, 2018 | Höfundur: Magnús Gunnlaugsson

Borðspiladagurinn – Spilað út um allan heim laugardaginn 28.apríl

Heill dagur tileinkaður borðspilum!

Einu sinni á ári, síðla vors eða snemmsumars, undanfarin fimm ár hefur fólk um allan heim rifjað upp með vinum og ættingjum hvers vegna það er yndislegt að eiga samverustund yfir góðu spili. Dagur þessi hefur verið kallaður Hinn Alþjóðlegi Borðspiladagur (e. International Table Top Day) og er tilefni til að fagna þeim sem koma að borðinu til að keppa við aðra, eða vinna í sameiningu; að heiðra litlu samfélögin sem myndast yfir borðspili. Við gleðjumst með hverjum nýjum vini sem sest með okkur við borðið til að sigrast á dreka, byggja upp borg, skjóta niður óvinaskip, eða útrýma farsóttum og bjarga heiminum.

Hér á Íslandi hafa tvær verslanir verið duglegar að bjóða uppá viðburði en sem fyrr eru það Spilavinir í bláu húsunum Faxafeni og Nexus í Nóatúni.

Til að byrja með verður mikil og skemmtileg dagskrá í Spilavinum á laugardag fyrir alla fjölskylduna. Kennd verða spil sem efla málþroska hjá börnum, en það mun koma skemmtilega á óvart hvaða spil verða fyrir valinu. Fjölskyldur með börn á miðstigi eða eldri geta lært að berjast í sameiningu við tröll og ófreskjur í einu vinsælasta spunaspili heims, fljúga úti í geim í Star Wars X-wing kennslu, eða að tekist á sem hetjur og illmenni í Star Wars Destiny.

Ein skemmtilegasta útfærsla sem til er af Pandemic spilinu er svokallað Pandemic Survival mót. Það felst í því að allir sem þátt taka spila nákvæmlega sama spilið, á nákvæmlega sama tíma og keppast um að annað hvort vera fyrst til að sigra spilið, eða síðust til að deyja í spilinu. Fyrir þá sem kæra sig ekki um ótrúlega mikla spennu, þá er hægt að slappa af og læra eða rifja upp Marías, taka í skemmtileg tveggja manna spil eða taka af skarið og læra Go, eitt elsta borðspil heims sem spilað er enn þann dag í dag.

Deginum í Spilavinum lýkur svo með því að draga upp byssurnar og skipta ránsfengnum í hinu frábæra Cash&Guns, reyna að sigrast á varúlfaplágunni í hinum geysivinsæla Varúlfi, og með æsispennandi móti í samvinnu-samkeppnisspilinu Partners.

Allan daginn verður spilasalurinn opinn og hægt að grípa í önnur skemmtileg spil úr spilasafni Spilavina. Valin spil verða á kynningarafslætti, og hægt verður að kaupa kaffi og veitingar. Með öðrum orðum: Stórkostlegur spiladagur í Spilavinum á laugardaginn!

Alþjóðlegi borðspiladagurinn í Spilavinum:

  • 11:00 – 12:00 Kennsla á spilum sem efla málþroska hjá börnum.
  • 11:30 – 13:00 Dungeons&Dragons fjölskyldu-spunaspilakennsla fyrir byrjendur*
  • 12:00 – 13:00 Pandemic Survival mót*
  • 13:00 – 15:00 Star Wars Destiny kennsla
  • 13:30 – 14:30 2ja manna spilakennsla
  • 14:00 – 16:00 Star Wars X-wing kennsla
  • 15:00 – 15:30 Marías kennsla
  • 15:00 -17:00 GO félagið verður með kennslu
  • 15:30 Cash&Guns
  • 16:00 Varúlfur með hljóðum
  • 17:00 Partners mót*

*Skráning á Facebook viðburðinum eða með tölvupósti til spilavinir@spilavinir.is, eða á staðnum (fyrstir koma, fyrstir fá).

Alþjóðlegi borðspiladagurinn í Nexus:

Í Nexus hefst dagskráin kl 12:00 og verða ýmsir viðburðir uppá teningnum. Hægt verður að fá listræna  útrás í málningarkennslu, att saman allskonar kynjaverum og furðudýrum í Pokémon móti eða lært að byggja upp borg með afdrifaríkum  afleiðingum. Ýmis spil verða til kennslu og sýnis auk þess sem gott úrval af spilum verða á útsölu.

Seinna um daginn geta leikmenn brugðið sér í hlutverk kúreka og rænt ránsfeng um borð úr lest í Colt Express. Gerst víkingar, barist og hlotið dýrlegan dauðdaga og farið til Valhallar í Blood Rage, eða reynt að leysa morðmál sem miðlar í Mysterium. Eitt er víst að það er af nægu að taka.

  • Kl 12 -14
  • Charterstone – Legacy spil þar sem leikmenn byggja upp borg með afdrifaríkum afleiðingum.
  • Warhammer: Shadespire – Örskæruspil þar sem menn stjórna lítilli herfylkingu til sigurs í bardaga.
  • Star Wars: Destiny – Í Star Wars: Destiny para leikmenn tvær til þrjár hetjur eða tvö til þrjú illmenni og 30 spilastokk sem þeir nota til að sigra andstæðing sinn.
  • Clank! In! Space! – Í Clank! In! Space! ræna þáttakendur verðmætum úr geimskipi áður en þeir lokast inni og verða gripnir af hinum illa Lord Eradikus.
  • Kl 14- 16
  • X-Wing – Stýrðu þínum eigin flota af geimskipum úr Star Wars. Fljúgðu um geiminn, pew, pew, pew og skjóttu niður óvina flaugar.
  • Dream Home – Fallegt og einfalt fjölskylduspil þar sem þú býrð til þitt draumaheimili.
  • Majesty – Frá sama höfundi og gerði hið geysi vinsæla spil Splendor. Safnaðu sem mestum auði fyrir konungsríkið þitt með því að laða til þín góða þegna.
  • Legend of the five Rings – Kyngimagnað kortaspil þar ýmis ættarklön af Asískum toga eiga í erjum og þar sem heiðurinn sverfir dýpra en stálið.

Spilasalur Nexus

Inni í spilasal Nexus, til hliðar við verslunina, verður Pókemon spilamót kl 13:00 en leikmenn þurfa að mæta með sinn eigin 60 spila stokk til að geta tekið þátt.

Málningarkennslan verður á sínum stað þar sem leikmenn geta æft sig að mála tindáta/fígúrur sem fylgja mörgum borðspilum og eru einnig mikið notaðir við Warhammer spilun. Nexus skaffar bæði málningu og fígurur til að mála.

Kl 16:00 spilum við Colt Express, þar sem leikmenn setja sig í spor kúreka í Villta Vestrinu og ræna næla sér í sem stærstan ránsfeng um borð í lest. 

Einnig ætlum við að spila Mysterium en því er best lýst sem blöndu af Clue og Dixit þar sem leikmenn reyna leysa dularfullt morðmál með fallega myndskreyttum spilum.

Allir þeir sem taka þátt fá sérstök viðhafnar spil. Auk þess eru ýmis önnur verðlaun fyrir sigurvegara, t.d glæsileg motta fyrir Colt Express og uppfærð „vision” tákn fyrir Mysterium.

Kl 18:00 hefst svo mót í Star Wars:Destiny en á sama tíma fer einnig fer fram keppni í Blood Rage. Einnig eru veitt verðlaun í báðum þessum spilum.

Þáttaka í öllum þessum viðburðum Nexus er ókeypis.

Fyrir þá sem vilja spila langt fram á nótt verður það einnig í boði en þá mun verða kennsla í spilum sem eru í lengri kantinum. Nánari upplýsingar má finna á Facebook viðburði Nexus.

Við hvetjum alla sem áhuga hafa að kíkja við á báðum viðburðunum. Spil bjóða uppá frábærar samverustundir með vinum og fjölskyldu. Undanfarin ár hefur verið gríðarleg gróska í spilum og má því með sanni segja að við séum stödd á gullöld borðspila!

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑