Leikjarýni

Birt þann 9. apríl, 2018 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson

Leikjarýni: Far Cry 5 – „flottur og opinn heimur“

Leikjarýni: Far Cry 5 – „flottur og opinn heimur“ Sveinn A. Gunnarsson

Samantekt: „Dumb fun“ með flottum og opnum heimi og miðlungs sögu en nóg af efni að sjá og spila.

4

Góður


Eftir að hafa kannað heima brjálæðinga, einræðisherra og stríðsherra víðsvegar um heiminn í fyrri Far Cry leikjum með hliðarspori til steinaldarinnar, þá mætir Far Cry 5 til leiks í hjarta Bandaríkjanna og einblínir á dómsdags sértrúarsöfnuðinn Eden’s Gate í Hope sýslu í Montana.

Saga þessa leikja hefur sjaldan verið sterkasti hluti pakkans og í þessum leik er það engin undantekning. Sértrúarsöfnuðurinn er leiddur af Joseph Seed, náunga sem þú myndir ekki kippa þér upp við að sjá á næsta Starbucks og telja hann vera enn einn hipsterinn með hárhnút. Hann ásamt „systkinum“ sínum; John „Skírarinn“, Jacob „Hermaðurinn“ og Faith „Sírenan“ ráða yfir Hope sýslu í Montana. Jacob sér um að þjálfa her söfnuðarins og heilaþvo þá, John notaði lögfræðiþekkingu sína til að sölsa undir sig mikið af landinu í sýslunni og Faith ruglar í fólkinu með eiturlyfinu Bliss sem er útum allt, einnig rekur hún vinnubúðir fyrir þá sem láta ekki að stjórn.

Saga leiksins hefst á því að þú sem nafnlaus lögreglufulltrúi sem er oft kallaður „Rook“ mætir til kirkju safnaðarins með lögreglunni á svæðinu ásamt alríkislögreglunni i til að handtaka Joseph. Eins og má gera ráð fyrir þá fara hlutirnir fljótt stórkostlega úrskeiðis og þú þarft að hafa þig allan að til að lifa af og finna vini þína sem eru handteknir eftir að allt fer til fjandans.

Að þeir hafi sent bara fimm manns að handtaka leiðtoga sértrúarsafnaðar sem býr yfir stóru vopnabúri sem vitað er um og búinn að safna að sér ótal manns, er frekar erfitt að trúa og sérstaklega ef skoðuð er saga svona mála í Bandaríkjunum og má þá helst nefna Waco umsátrið og hvað gerðist þar. En hey, þetta er tölvuleikur svo það þarf víst ekki að vera vit í öllu. Reyndar færðu smá útskýringu á atburðum utan svæðisins síðar í leiknum, sem er þó illa uppsett, en skýrir margt um ástandið í heiminum og hvernig svona söfnuður náði völdum án þess að herinn hreinlega kæmi inn á svæðið.

Eins og í fyrri Far Cry leikjum þá er svæðinu skipt niður og ráða „systkini“ Joseph hvert yfir einu landsvæði sem þú þarft að frelsa undan yfirráðum þeirra og þegar þau eru úr leik mætirðu auðvitað Joseph sjálfum.

Eins og í fyrri Far Cry leikjum þá er svæðinu skipt niður og ráða „systkini“ Joseph hvert yfir einu landsvæði sem þú þarft að frelsa undan yfirráðum þeirra og þegar þau eru úr leik mætirðu auðvitað Joseph sjálfum. Til þess þarftu að ná stjórn yfir byggingum sem söfnuðurinn ræður yfir, ráðast á bílalestir, sprengja upp bensínflutningabíla, hjálpa fólkinu í sýslunni og byggja upp mæli þangað til að þú ert búin að reita hvert systkini nógu mikið til reiði að það leitar þig uppi. Á milli þess er reyndar eitt nýtt sem tekst misvel og það er þegar sendir eru út sérþjálfaðir hópar til að handsama þig og færa í byggingu sem eitthvað systkinanna ræður yfir. Þetta endar vanalega með sýrutrippi í boði eiturlyfsins Bliss og þá þarft þú að komast út úr einhverju svæði sem er fullt af óvinum og oft er ekki allt sem sýnist. Það skondna við þetta er að þessir atburðir geta gerst hvenær sem er og hvað sem þú ert að gera, jafnvel fljúga flugvél eða keyra um sýsluna.

Vandinn við leikinn og söguna er að þú ert mállaus persóna og getur þar af leiðandi lítið lagt til sögunnar eða samtala sem er pínu svekkjandi. Það er reyndar hægt að búa til sína eigin persónu í fyrsta sinn, karl eða konu. Þú reyndar sérð þig sjálfa/n ekki oft nema í vissum atburðum eða þegar þú ert að spila co-op með öðrum og hann eða hún er að hjálpa þér. Það helsta sem ég hefað setja út á söguna er að hún er ekki að fara neinar ótroðnar slóðir og forðast að tækla erfið málefni í dag, sérstaklega það sem hefur verið að gerast í Bandaríkjunum frá að Donald Trump varð forseti. Það er heil ein tilvísun í það í leiknum sem ég rakst mínum 50 tímum í Hope sýslu. Leikurinn á erfitt með að ákveða sig hvort hann ætli sér að vera alvarlegur og tækla erfið málefni eða vera alger sýra þar sem þú ert að safna kúa-eistum fyrir eistnahátíð sem er haldin á svæðinu. Það er þessi óákveðni sem skaðar oft leikinn og lætur hann fara hina öruggu miðju eitthvað og forðast að móðga fólk.

Það sem Far Cry 5 stendur sig vel í er umhverfi hans og flæði í spilun.

Það sem Far Cry 5 stendur sig vel í er umhverfi hans og flæði í spilun. Í stað þess að klifra uppá einhverja blessaða turna eins og hefur verið í síðustu leikjunum, þá er öll upplifunin og nálgun í spilun náttúrulegri ef svo má að orði komast. Þetta er ekki ólíkt og The Legend of Zelda: Breath of the Wild gerði í fyrra. Að leyfa leikmönnum að uppgötva heiminn og þær sögur sem eru í boði á þeirra eigin forsendum og það virkar vel í Far Cry 5.

Veiðimennska er ekki eins nauðsynleg og í síðustu leikjum og er það bara hið fínasta að mestu. Þú ert mest bara að fá peninga úr þeim og síðan eru hinar ýmsu veiði áskoranir. Ég hafði reyndar einna mest gaman af því að veiða fiska í ánum. Það var eitthvað afslappandi við það eftir að hafa verið að berjast við ótal óvini og góð hvíld frá hasar og sprengingum leiksins. Það var einnig gaman að finna leynda staði sem „preppers“ höfðu búið til. Það er fólk sem trúir á endalok siðmenningar eða annars sem hefur byggt hin ýmsu byrgi á svæðinu sem þú getur fundið. Oft þarf að leysa smáþraut til að komast inn í það, en það er þó vel þess virði.

Nú er einmitt hægt að spila alla söguna saman með vini í gegnum netið í co-op og er það frábær skemmtun. […] Það eru ótal farartæki til að keyra um á, allt frá sjóþotum, fjórhjólum, ýmsum bílum og jeppum yfir í þyrlur og flugvélar.

Það verður seint hægt að segja að það sé ekki nóg að gera í leiknum og er mikið af bestu skemmtunum sem leikurinn bíður uppá það sem þú rekst á þvælingi í gegnum Hope sýslu, hvort sem það er einn eða með NPC karakterum eða í co-op. Nú er einmitt hægt að spila alla söguna saman með vini í gegnum netið í co-op og er það frábær skemmtun. Eina sem þarf að hafa í huga er að sá sem býður í leikinn heldur áfram í sögunni, en sá sem kemur inn fær aftur á móti, peninga, vopn, árangur til að bæta sig o.fl. sem hann eða hún getur farið með aftur í sinn leik. Leikurinn er ekki nískur á að gefa þér hæfileika-punkta til að betrumbæta persónu þína reglulega, sem kemur að góðum notum t.d ef þú villt frekar svífa inn á svæðið í fallhlíf eða svifbúningi í stað þess að byrja niðri á jörðunni. Það eru ótal farartæki til að keyra um á, allt frá sjóþotum, fjórhjólum, ýmsum bílum og jeppum yfir í þyrlur og flugvélar. Hægt er að stilla útvarpið í flestum faratækjum yfir af trúarrás sértrúarsöfnarðins í rásir sem spila aðra tónlist. Það eru nokkuð góð lög með Creedence Clearwater Revival, Foghat, Greta Van Fleet, Heart, Marvin Gaye, T. Rex, The Clash og íslenska bandinu Kaleo sem passar vel þarna inn. Það eru síðan nokkur flott lög notuð í vissum hlutum leiksins, en ég vil ekki spilla því fyrir fólki að upplifa sjálft í fyrsta sinn.

Greind óvinanna er aftur á móti oft á mörkum þess að sliga einhver þroskamörk.

Eins og í Far Cry leikjunum allt frá Far Cry 2 þá er hægt að ráða tölvustjórnaðar persónur til að hjálpa þér í verkefnum. Það er hægt að vera með mest tvær í einu og ef þú spilar co-op þá er hægt að vera með eina persónu. Það er hægt að finna persónu sem hentar þínum spilastíl. Frá að vera með hundinn Boomer, fjallatígurinn Peaches eða björninn Cheeseburger yfir í ýmsar persónur sem þú kynnist gegnum ferðalög þín í Hope sýslu. Hurk úr fyrri leiknum snýr aftur og er oft gaman að þvælast með honum. Gervigreind þeirra er engin snilld endilega, en þeir ná oftast að bjarga sér. Greind óvinanna er aftur á móti oft á mörkum þess að sliga einhver þroskamörk.

Þegar þú ert búinn með sögu leiksins sem ætti að taka um 15-20+ tíma þá er eftir Far Cry Arcade. Það samanstendur af fjölspilun leiksins sem er óttalega gleymanleg og síðan borðargerðartólum leiksins sem eru virkilega djúp fyrir þá sem eru tilbúnir að sökkva sér í þau. Hægt er síðan að nota efnivið úr öðrum leikjum Ubisoft eins og Watch Dogs, Assassin’s Creed o.fl. sem er flott útspil. Leikmenn geta spilað þessi borð, sem aðrir eigendur leiksins hafa búið til, einir eða í co-op ásamt í fjölspilun. Gæði þessara borða eru mjög sveiflukennd, leikmenn geta gefið borðum einkunn og ætti það vonandi að hjálpa að grisja út lélegu borðin eftir vissan tíma. Ubisoft hefur síðan sjálft búið til slatta af borðum til að sýna hvað er hægt að gera með tólum leiksins. Með Arcade þá er tæknilega séð endalaust efni að spila, hvort sem það sé þess virði er annað mál. Þetta er þó fín viðbót við leikinn þó að fjölspilunin aftur á móti mætti alveg hverfa eins og hún er í dag. Leikir eins og Wolfenstein hafa sýnt að það er ekki nauðsynlegt að troða fjölspilun í alla leiki bara til að tikka í eitthvað box á kassanum.

Einn af bestu hlutum leiksins, verður að segja, er útlit hans. Hvort sem þú spilar á venjulegri PS4 eða Xbox One yfir á PS4 Pro eða Xbox One X þá lítur leikurinn einstaklega vel út, sérstaklega ef þú ert síðan með sjónvarp sem styður HDR litatæknina sem 4k sjónvörp bjóða uppá í dag. Dunia grafíkvélin er virkilega flott og býður uppá gríðalega stór umhverfi til að þvælast um í. Leikurinn leyfir þér að þvælast um allt kortið án þess að þurfa að hlaða eitthvað eftir að þú ert kominn inn í leikinn. Það er smá hökt þegar þú ert að skoða kortið í leiknum, en ekkert of alvarlegt.

Þegar upp er staðið er Far Cry 5 góð skemmtun, en meira af því sama sem var í Far Cry 3-4. Það hefði verið gaman að sjá stærra stökk í sögu og spilun leiksins.

Þegar upp er staðið er Far Cry 5 góð skemmtun, en meira af því sama sem var í Far Cry 3-4. Það hefði verið gaman að sjá stærra stökk í sögu og spilun leiksins. Ekki ólíkt það sem Assassin’s Creed serían tók með Origins leiknum. Leikurinn er einn af mörgum í dag sem eru með „microtransactions“ í leiknum til að kaupa gjaldmiðil í leiknum til að flýta fyrir þér. Að mestu er þetta þó ekki til trafala og skemmir ekki upplifun leiksins.

Það er eitthvað við að þvælast um í Far Cry 5 og hef ég eytt nú þegar um 50 tímum í leiknum og á örugglega eftir að eyða nokkrum tímum í viðbót að veiða hin ýmsu dýr og reyna að finna allt það leynda sem er í leiknum og það er nóg af því. Að ráðast á stöð fullan af óvinum með björn þér við hlið og vin í loftinu með gatling byssu á sjóflugvél er eitthvað sem er bara í Far Cry leikjunum, ég vona bara að þeir taki meiri áhættu í næsta leik, að minnsta kosti virðist DLC (viðbótarefni) leiksins ætla að gera eitthvað litríkara og þar verður hægt að fara til plánetunnar Mars, Víetnams stríðsins og síðan berjast við uppvakninga.

Far Cry 5 er „dumb fun“ með flottum og opnum heimi og miðlungs sögu en nóg af efni að sjá og spila.

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑