Bækur

Birt þann 8. desember, 2017 | Höfundur: Erla Jónasdóttir

Bókarýni: Sólhvörf – „Skemmtilegur heimur að skyggnast í“

Bókarýni: Sólhvörf – „Skemmtilegur heimur að skyggnast í“ Erla Jónasdóttir

Samantekt: Frábær bók sem tvinnar saman íslenskum þjóðsögum við hversdagsleikann eins og við þekkjum hann.

4

Skemmtileg


Einkunn lesenda: 3.9 (3 atkvæði)

Sólhvörf er sjálfstætt framhald skáldsögunnar Víghólar eftir Emil Hjörvar Petersen og samkvæmt heimasíðu hans er von á þriðju sögunni um mæðgurnar Brá og Bergrúnu. Einnig hefur hann gefið út ljóðabækur og þríleikinn Saga eftirlifenda.

Aðalsöguhetjur sögunnar eru mæðgurnar Bergrún og Brá. Bergrún er huldumiðill og er ráðin til starfa hjá lögreglunni og aðstoðar við að komast til botns í barnshvarfi, þar sem yfirnáttúrulega öfl virðast vera að verki. Mæðgurnar ásamt fríðu föruneyti fara yfir í Hulduheim í leit að börnunum.

Skemmtilegur heimur að skyggnast í og er hann ríkur af persónum úr þekktum þjóðsögum sem flest okkar ættu að kannast við. Mæðgurnar báðar eru mjög sterkir karakterar, en þó Brá sérstaklega. Þrátt fyrir ungan aldur, hún er aðeins tvítug, sýnir hún að hún kallar ekki allt ömmu sína. Á vissan hátt er þetta þroskasaga ungrar stúlku sem er að feta sín fyrstu skref í heimi sem er í raun mjög ólíkur okkar eigin.

Þrátt fyrir að Bergrún geri allt sem í hennar valdi stendur til að bjarga börnunum þá er hún sjálfselsk. Undir niðri eru ástæður hennar að fara yfir í Hulduheim aðrar en þær sem hún gefur uppi. Á vissan hátt má segja að hún sé með áráttu fyrir því yfirnáttúrulega, og vill ólm þróa hæfileika sína enn frekar sama hvað það kostar hana.

Frábær bók sem tvinnar saman íslenskum þjóðsögum við hversdagsleikann eins og við þekkjum hann. Frábært að lesa bók þar sem fleiri en ein sterk kvenhetja er áberandi. Skemmtilega skrifuð og heldur manni auðveldlega við efnið, eins eru margar skemmtilegar en jafnframt fremur ógeðfelldar persónur sem poppa upp kollinum. Sólhvörf á klárlega heima undir jólatrénu og ætti að vera gjöf allra sem hafa gaman af spennusögum og ævintýrum.

Deila efni

Tögg: ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑