Greinar

Birt þann 20. september, 2016 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Fimm ástæður fyrir því að KSÍ hefði átt að taka boði FIFA 17

Í dag birti Vísir.is frétt af því að KSÍ hefði afþakkað boð EA Games um að vera með íslenska landsliðið í nýjasta FIFA leiknum. Ástæðan? Tilboðið frá EA þótti of lágt að mati KSÍ, en það hljóðaði upp á tæpar tvær milljónir króna, eða að hámarki 15.000 dölum samkvæmt Geir Þorsteinssyni, formanni KSÍ í viðtali sem birt var í kvöldfréttum RÚV. FIFA fótboltaserían er ein vinsælasta íþróttaleikjasería heims í dag en hún á rætur sínar að rekja aftur til ársins 1993.

Ef við leggjum þessa summu sem EA bauð KSÍ aðeins til hliðar, þá skulum við renna hér yfir fimm góðar ástæður fyrir því hvers vegna það hefði verið góð ákvörðun að leyfa EA að nota íslenska landsliðið í FIFA 17.

1. Landsliðið gert ódauðlegt

Fyrir það fyrsta hefði íslenska landsliðið verið gert ódauðlegt með því að færa það yfir í FIFA 17. Jú, vissulega verður hægt að spila marga íslenska leikmenn í FIFA 17 í þeirra félagsliðum en það er ekki það sama og að spila sem íslenska landsliðið.

2. Spilanlegar fyrirmyndir

Fótboltamenn eru áberandi fyrirmyndir margra og með því að gera íslenska landsliðið spilanlegt í FIFA 17 hefði verið í boði fyrir íslensk ungmenni (og fullorðna!) að spila sem sínar fyrirmyndir í íslenska landsliðinu.

3. Heiðra frammistöðu Íslands á EM 2016

Staða Íslands á EM 2016 var ótrúleg og á klárlega heima í sögubókunum. Það hefði verið skemmtileg leið til að heiðra frábæra frammistöðu íslenska landsliðsins á Evrópumótinu með því að gefa FIFA 17 spilurum og öðrum stuðningsmönnum íslenska landsliðið kost á því að velja liðið í leiknum.

4. Markaðstækifæri fyrir KSÍ og íslenska leikmenn

Eins og áður sagði er FIFA leikjaserían ótrúlega vinsæl og hafa til dæmis yfir 16 milljón eintök verið seld af FIFA 16 hingað til samkvæmt VGChartz. Með því að setja íslenska landsliðið í FIFA 17 hefði KSÍ, íslenskir leikmenn og Ísland í heild sinni fengið aukna athygli sem verður seint metin í peningum.

5. Einstakt tækifæri

Hefðin hjá EA er sú að nýr FIFA leikur kemur á hverju ári með uppfærðum spilurum, liðum ásamt völdum nýjungum. Á seinasta ári var það FIFA 16, þetta árið er það FIFA 17 og á því næsta kemur FIFA 18. Óvíst er hvort KSÍ fái annað sambærilegt tækifæri á næsta ári þar sem íslenska liðið er heitt um þessar mundir eftir frammistöðu liðsins á EM 2016.

Bónus: Víkingaklappið

HÚH!-ið okkar, víkingaklappið, sem stuðningsmenn íslenska landsliðsins gerðu frægt á EM 2016 verður í FIFA 17 – en í þetta sinn án íslenska landsliðsins.

Þess ber að geta að hægt er að spila sem íslenska landsliðið í Pro Evolution Soccer, eða PES, fótboltaleiknum. Konami, framleiðandi og útgefandi PES, hafa þó ekki tilskilin leyfi til að birta öll nöfn og búninga og þess vegna birtast ekki raunveruleg nöfn íslensku spilaranna í leiknum. Forsíðumynd færslunnar er fengin úr EURO 2016 viðbótinni fyrir PES 2016.

STIKLA ÚR FIFA 17

Forsíðumynd: PES / EURO 2016

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑