Birt þann 21. mars, 2016 | Höfundur: Nörd Norðursins
Leikjarýni: NBA 2K16 – „það er nóg fyrir alla körfuboltaaðdáendur hérna“
Samantekt: Leikurinn er óneitanlega skemmtilegur. Flestir eiga eftir að finna sína uppáhalds spilategund, það er nóg fyrir alla körfuboltaaðdáendur hérna.
4
NBA2K16 kom út í lok september síðasta árs en við látum það ekkert stöðva okkur. Reyndar hefur undirritaður verið að spila hann af og til síðan þá þannig að hann endist ágætlega.
Seríuna þekkja flestir enda eru þetta bestu körfuboltaleikirnir á markaðnum (vonandi nær NBA Live serían samt að bæta sig). Þeir eru samt ekki fullkomnir og NBA2K16 hefur sína vankanta. En áður en við förum í þá skulum við fá stutt yfirlit enda býður leikurinn upp á þó nokkrar tegundir leikjaspilunar.
Í MyCareer byggirðu upp ungan körfuboltamann sem þú skapar sjálfur og spilar í gegnum nokkra háskólaleiki, ferð í nýliðaval NBA og spilar svo restina af ferlinum þar. Inn í þetta fléttast smá bíó í boði Spike Lee en meira um það seinna. Í MyTeam safnarðu leikmönnum sem eru í formi spjalda og býrð til þitt eigið lið burtséð frá hvar spilararnir eru í raunveruleikanum. Þetta er uppáhaldið núna. Svo er hægt að vera framkvæmdarstjóri liðs (MyGM) og taka ákvarðanir utan og innan vallar. Að endingu eru MyPark (götubolti) og 2K Pro-Am þar sem hægt er að spila með og á móti öðrum spilurum.
Einn stærsti sölupunkturinn var aðkoma Spike Lee sem bjó til nokkurs konar stuttmynd sem tengist MyCareer og fjallar um aðalgaurinn, þig, sem heitir Frequency Vibrations (kallaður Freq).
Einn stærsti sölupunkturinn var aðkoma Spike Lee sem bjó til nokkurs konar stuttmynd sem tengist MyCareer og fjallar um aðalgaurinn, þig, sem heitir Frequency Vibrations (kallaður Freq). Þannig að spilarinn þinn er ekki algjörlega autt blað í byrjun heldur hefur hann ákveðinn bakgrunn og ákveðna sögu út fyrsta árið í NBA. Þessi saga er svo sem allt í lagi en á bara alls ekki heima í svona tölvuleik og fljótlega reynir maður að finna takkann til að sleppa bíóinu. Dramatíkin er helst til of mikil fyrir undirritaðan og persónurnar eru bara ekki það athyglisverðar. Eftir fyrsta árið í NBA þá er maður loks kominn af stað og MyCareer er bara fínasta skemmtun. Það er auðveldara að byggja upp spilara en áður og þeir hafa lagað ýmis smáatriði sem pirruðu mann áður en ekki öll. Fyrri vandamál hafa oft tengst sendingum og NBA2K16 gefur þér meiri möguleika núna í þeim efnum.
MyTeam er ansi skemmtilegt og vekur upp litla strákinn í mér sem safnaði körfuboltaspjöldum. Hérna ertu nefnilega að spila uppá spilapakka og getur fengið spjöld fyrir velli, tegundir bolta, þjálfara, skó, bætingu á leikmönnum og það sem skiptir mestu máli leikmennina sjálfa. Núna er ég með ansi þétt byrjunarlið sem eru PG John Wall, SG Jimmy Butler, SF Carmelo Anthony, PF Marc Gasol og C Hassan Whiteside (sérstök útgáfa svo hann er betri en vanalega).
MyPark virkar skemmtilegur; þar geturðu klætt gaurinn þinn í alls konar töff föt, verið með alls konar takta fyrir leiki og gert flott götuboltatrikk.
MyPark virkar skemmtilegur; þar geturðu klætt gaurinn þinn í alls konar töff föt, verið með alls konar takta fyrir leiki og gert flott götuboltatrikk. En það tekur bara alltof langan tíma að komast í leik, bæði það að ræsa MyPark upp og að bíða eftir leik. Spilarar labba um á stóru svæði með mörgum völlum og þurfa að standa við vellina þar til leikurinn á undan er búinn.
Reyndar finnst mér kvöðin að vera alltaf nettengdur of mikil og tengist í raun öllum spilagerðum. Ef maður er ekki tengdur þá eru ekki mjög margir hlutir sem maður getur gert. Auðvitað er þetta gert vegna þess að NBA2K leikirnir græða núna talsvert á að auglýsa alls konar dót sem er hægt að kaupa í búðinni og það er eflaust margir sem eyða slatta af alvöru pening í leikinn. Tengt því er sú staðreynd að miðlarnir (servers) eru alltof stutt uppi og því þarf maður að kaupa reglulega nýjan NBA2K leik ef maður vill hafa aðgang að öllum fítusunum. Ég býst við að það sama verði upp á teningnum með þennan því mæli ég með að grípa hann fyrr en seinna.
Hann lítur frábærlega út, maður sér svitann renna af leikmönnunum og andlitin eru í flestum tilfellum mjög vel gerð. Það er nokkuð skondið að alvöru Steph Curry er meira eins og tölvuleikur heldur en NBA2K16 Steph Curry þetta tímabil. Það er hægt að spila vörn á Curry í leiknum og hann er svo sannarlega ekki að hitta úr þessum löngu skotum sínum eins og alvöru gaurinn.
Leikurinn er óneitanlega skemmtilegur og eins og áður kom fram þá hafa þeir verið að bæta spilun smátt og smátt. Það að gefa boltann vel og verja skot er bætt frá fyrri leikjum. MyCareer er skemmtilegra og maður er fljótari að fá nokkuð góðan gaur, þetta er ekki eins mikil vinna og það var. Flestir eiga eftir að finna sína uppáhalds spilategund, það er nóg fyrir alla körfuboltaaðdáendur hérna.
Höfundur er Steinar Logi Sigurðsson