Leikjarýni

Birt þann 16. mars, 2015 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: The Order: 1886

The Order 1886 hefur verið umtalaður síðustu daga og vikur en ekki á góðan máta. Helsta gagnrýnin hefur verið lengdin; sumum hefur tekist að klára hann á fimm tímum en sjálfur var ég að nálgast tíu tímana. Meðallengdin er líklega einhvers staðar þar á milli vegna þeirrar áráttu minnar að kíkja í öll skúmaskot og skoða alla ganga.

Lengdin er hins vegar bara ein mælistika af mörgum og hver og einn þarf að gera upp við sjálfan sig hversu mikilvægur þáttur hún er. Það er alveg eins slæmt að teygja lopann eða láta spilarann endurtaka sama hlutinn aftur og aftur bara til að lengja leikinn (The Last of Us er t.d. alger snilld en hversu oft þurfti maður að ýta Ellie á pallettu?)

Order1886_01

Góð lýsing

Það er fleira sem plagar The Order 1886 en lengdin en byrjum á því góða. Leikurinn lítur alveg hreint frábærlega út og þarna fær maður loksins nasaþefinn af kraftinum í PS4. Smáatriðin bera af og maður getur eytt dágóðum tíma í að skoða herbergin í leiknum allt niður í minnstu einingar. Í Dragon Age: Inquisition dáðist ég af hvítfryssandi öldunum og stóð stundum í fjörunni og gapti (þ.e.a.s. ég, ekki hetjan mín, henni gat ekki verið meira sama). Það sama er upp á teningum hér nema grafíkin nýtur sín frekar í smáatriðunum á meðan styrkur DA:I var í að virða fyrir sér glæsilegt landslag í fjarlægð. Andlitin er ótrúlega vel gerð og lýsingin er sú langbesta sem undirritaður hefur nokkurn tímann séð í tölvuleik.

Leikurinn lítur alveg hreint frábærlega út og þarna fær maður loksins nasaþefinn af kraftinum í PS4.

Sagan er athyglisverð og fjallar um riddara hringsborðsins en á tímum Viktoríu drottningar. Þeirra hlutverk er að berjast á móti „halfbreeds“ sem eru nokkurs konar varúlfar sem geta breytt sér að vild. Hetjur á borð við Sir Galahad, sem er aðalpersóna leiksins, eru t.d. að fá sjálfan Nikola Tesla til að hanna vopn fyrir sig þannig að blandað er saman sögulegum nútíma við fantasíu. Öll raddsetning er til fyrirmyndar og persónurnar eru sannfærandi og vel leiknar. Endirinn skilur hins vegar eftir allt of mikið af lausum endum og The Order 1886 á greinilega að vera fyrsti leikur af mörgum (The Order 1887, The Order 1888 o.s.frv.?)

Order1886_02

Tæknilegir örðugleikar

Í fyrstu lenti gagnrýnandi í umtalsverðum tæknilegum vandræðum sem byrjuðu á því að leikurinn hikstaði iðulega þannig að hljóð datt út endrum og eins. Leikurinn vistast sjálfkrafa á ákveðnum tímapunktum og tvisvar þurfti ég að bakka aftur í söguþræðinum þar sem leikurinn hélt ekki áfram, sama hversu oft ég reyndi (vildi ekki hlaðast). Einnig festist ég eitt sinn í handriði og þurfti að endurhlaða leikinn. Sem betur fer voru þessi tæknilegu vandræði aðeins í byrjun leiksins en þetta og ýmislegt annað bendir til að það hafi aðeins vantað að pússa leikinn.

Sem betur fer voru þessi tæknilegu vandræði aðeins í byrjun leiksins en þetta og ýmislegt annað bendir til að það hafi aðeins vantað að pússa leikinn.

Annað sem truflar, en þó ekki það mikið að það skipti máli, er munurinn á hvernig persónurnar haga sér í myndskeiðum og þegar spilarinn fær sjálfur að stjórna. Galahad er nútíma riddari sem metur eiginleika eins og heiður og sanngirni mikils. Því sterkari sem sagan er því augljósara verður þetta misræmi rétt eins og hjá hetjunni Nathan Drake sem er í raun fjöldamorðingi. Í Order 1886 birtist þetta t.d. á þann máta að þegar Galahad á að læðast um, forðast athygli og losa sig við verði þá notar hann ekki svæfingartak, klóróform eða einhverja raflostbyssu frá Tesla. Nei, hann sparkar duglega aftan á fót varðanna þannig að bein brotna og þeir falla niður. Því næst tekur hann upp risastóran kuta, jafnvel stærri en hjá Crocodile Dundee, og nánast tekur af þeim hausinn. Af einhverjum ástæðum bregðst vörðurinn nokkrum skrefum frá ekki við þessi læti. Einnig þarf maður að vera staðsettur mjög nákvæmlega fyrir þessar laumuárásir annars breytist vörðurinn í Lukku Láka og drepur þig með einu skoti á sekúndubroti. Sem væri allt í lagi ef Galahad væri ekki nánast ódauðlegur riddari sem hefur lifað í aldir fyrir tilstilli hins Heilaga Grals. Afsakið, varð að koma þessu frá mér.

Order1886_03

London Calling

Spilun byggist að mestu leyti á skotbardögum úr skjóli („cover-based“) og það slæma er að þeir eru ekkert sérlega spennandi eða frumlegir. Flestir óvinirnir eru hlægilega auðveldir á „medium“ þannig að fyrir þá sem vilja smá áskorun er mælt með erfiðasta styrkleikastiginu. Sérstaklega svekkjandi er að varúlfarnir (kallaðir halfbreeds í leiknum) gera alltaf það sama í bardaga; urra, hlaupa beint að þér (svo þú hefur dágóðan tíma til að fylla þá af blýi); ná þér niður ef þú nærð ekki að stökkva til hliðar, flýja svo strax í burtu af einhverjum óskiljanlegum ástæðum þannig að þú nærð að ná andanum. Síðan koma þeir úr nákvæmlega sömu átt og þeir flúðu í og endurtaka leikinn þar til þeir drepast.

Mikið af leiknum fer í myndskeið enda er mikið að gerast í sögunni en myndskeið eru líka hluti af bardögum.

Mikið af leiknum fer í myndskeið enda er mikið að gerast í sögunni en myndskeið (þ.e.a.s. QTE, quick-time events) eru líka hluti af bardögum. Oft í byrjun bardaga þá þarftu að ýta á takka eða hreyfa bendilinn á ákveðinn stað og svo ýta á takkann. Þetta gildir einnig fyrir stórbardaga sem eru að mestu leyti QTE. Margir hafa kvartað yfir þessu en þetta truflaði mig ekki og ég tók þetta bara sem enn eitt myndskeiðið, bara interaktívt.

Þessi gagnrýni er neikvæð en það sem dregur leikinn upp í þrjár stjörnur af fimm er að það var alls ekki leiðinlegt að spila hann, grafíkin og sagan nánast duga til að gera þetta að skemmtilegri, en stuttri, leikjareynslu.

Order1886_04

T.L.D.R.

 

 GALLAR  KOSTIR
 

> Þetta er í raun langt tæknidemó til að sýna hversu öflug PS4, lítur vel út en það hallar á aðra hluta leiksins eins og spilunina sjálfa. Þetta er líkara kvikmynd en tölvuleik á köflum.

> Sagan er góð en það er hrokafullt hvað SOE skilur eftir mikið af lausum endum í fullvissu sinni að leikurinn eigi eftir að slá í gegn og verða að leikjaröð eins og Uncharted.

> Of hátt verð til að réttlæta bæði lengd og takmarkaða endurspilun.

 

> Lítur glæsilega út, smáatriðin og lýsingin eru stórkostlega vel úr garði gerð.

> Sagan er athyglisverð, persónusköpun góð og raddleikur til fyrirmyndar

 

 

 

Einkunn: 3 af 5

 

Höfundur er Steinar Logi Sigurðsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑