Greinar

Birt þann 8. ágúst, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Nördalegt að skilgreina orðið nörd

Rannsakendur fóru inn í þessa rannsókn með vissar fyrirliggjandi væntingar um hverjar niðurstöðurnar gætu orðið. Þá sérstaklega að fólk leggi aðra merkingu í hugtakið nörd nú í dag en það gerði áður fyrr og var grunur um að bæði tölvuleikir og magn af þeim ofurhetju kvikmyndum sem komið hafa fyrir sjónir almennings á undanförnum árum hafi haft áhrif á hugmyndir almennings um hvað það er að vera nörd.

Í hefðbundnum enskum orðabókum, í þessu tilfelli netútgáfu Merriam-Webster, var nerd almennt skilgreint sem „an unstylish, unattractive, or socially inept person; especially : one slavishly devoted to intellectual or academic pursuits.“ Á meðan óhefðbundnari slangur- eða málnotkunarorðabækur, í þessu tilfelli Urban Dictionary, gáfu einnig skilgreiningar á borð við „An ‘individual’, i.e. a person who does not conform to society’s beliefs that all people should follow trends and do what their peers do. Often highly intelligent but socially rejected because of their obesssion with a given subject, usually computers“ og „A person who gains pleasure from amassing large quantities of knowledge about subjects often too detailed or complicated for most other people to be bothered with.“

Orðið er notað sem skammaryrði yfir þá sem eru á einhvern veg utangátta, yfirleitt sökum óvenjulegra áhugamála eða samskiptamynstra í bland við óöryggi og annað smálegt, svosem einkennilegan klæðaburð. [Vísindavefurinn]

Sömu þróun má rekja þegar það svar sem Vísindavefurinn gaf við spurningunn „Hvernig má skilgreina nörd?“ er svarað. Í þeirra svari má finna eftirfarandi: „Merkingin er upphaflega og yfirleitt niðrandi. Orðið er notað sem skammaryrði yfir þá sem eru á einhvern veg utangátta, yfirleitt sökum óvenjulegra áhugamála eða samskiptamynstra í bland við óöryggi og annað smálegt, svosem einkennilegan klæðaburð. […] Orðið hefur sérstaklega fest við þá sem beina áhuga sínum að tölvum og tækni. Þegar orðið er þannig notað er það ekki lengur óhjákvæmilega niðrandi, heldur oft aðeins lýsandi — tölvunörd er maður sem hefur óvenju mikinn áhuga og/eða þekkingu á tölvumálum. […]Orðið hefur einnig verið heimfært upp á einstaklinga sem ekki hafa allt til að bera til að falla undir það í upprunalegri merkingu, heldur aðeins einstaka tiltekna eiginleika eða eiginleika hliðstæða þeim sem fyrr voru nefndir. Maður með óvenjulega mikinn áhuga á ljósmyndun, til dæmis, kann að vera kallaður nörd fyrir vikið, án þess þó að hann sé á nokkurn hátt utan gátta fyrir áhuga sinn. Hann ætti það hins vegar sameiginlegt með mörgum nördum að beina áhuga sínum og metnaði að tilteknu sviði og sinna hefðbundnum hugðarefnum manna minna en flestir.“

Við rannsóknina var talað við átta einstaklinga (þar af voru þrjár kvenkyns og fimm karlkyns) og þeim skipt niður í tvo rýnihópa. Viðmælendur voru beðnir um að gefa sína skilgreiningu á orðinu nörd, meta það hvort skilgreining orðsins hefði breyst, jafnt hjá þeim sem og í samfélaginu, og ef svo á hvaða máta og hvaða ástæður þeir teldu liggja á baki þess. Þátttakendur í rýnihópunum voru á aldrinum 18 til 25 ára. Aldursdreifing var frekar jöfn milli kynja og öll höfðu þau klárað eða voru enn í framhaldsskóla. Almennt voru viðmælendur sammála um það að þeir vildu skilgreina einstaklinga sem nörda eftir því hve djúpt þeir sökktu sér í áhugamál sitt, frekar en hvert áhugamálið var. Þannig komu fram skilgreiningar eins og „einhver sem veit eitthvað brjálæðislega mikið“, „einhver sem sekkur sér ofan í eitthvað tiltekið málefni“, jafnvel var talað um“ ofsaþekkingu og að vera „fan“. Þó vildi einn viðmælendanna frekar tengja það að vera nörd við áhugamál sem hann taldi sjálfur vera sérstaklega nördaleg, eins og hlutverkaspil og safnkortaspil, þrátt fyrir að umrædd áhugamál væru eitthvað sem hann hefði sjálfur sökkt sér í og annar viðmælandi taldi sérstaklega upp áhugamálin; myndasögur, kvikmyndir og tölvuleikir, sami viðmælandi lét það einnig uppi að „áhugamálið mitt myndi kannski flokkast [undir] því, raungreina pakkinn. Þó myndi ég ekki aldrei segja að ég væri nörd, myndi ekki segja að ég væri kominn á það stig.“

Nokkrar umræður sköpuðust um það hvort hægt væri að vera íþróttanörd og lýsti einn viðmælanda sjálfum sér sem „sundnörd eða klórhaus“. Skilgreiningar annara viðmælanda á íþróttanördum snérust þó frekar um að „leggja mikla (…) statitík á minnið“ eða „ef þú ert alltaf í íþróttum og veist allt um það, þá hlýtur að vera hægt að skilgreina það sem íþróttanörd“, viðmælandinn sem sagði það virtist þó vera hikandi á að samþykkkja skilgreininguna íþróttanörd og vera meira með þessari setningu að prófa hugtakið fyrir sjálfan sig. Seinna í umræðunum bætti hann þó við að hann gæti skilgreint sig sem íþróttanörd þar sem hann væri „búinn að finna mér eina íþrótt til að sökkva mér í.“

Nördarnir Gilbert og Lewis úr Revenge of the Nerds (1984)

Ofurnördarnir Gilbert og Lewis úr Revenge of the Nerds (1984).

Viðmælendur sýndu sterk hugmyndatengsl milli þess að vera nörd og þess að vera gáfaður og töluðu mikið um það að leggja hluti á minnið það að „verða að vita allt um“ eitthvað ákveðið efni og að merkingin væri „kannski þá að fá hátt á prófunum“ og „Að ég væri alveg fáránlega klár í einhverju.“ Sérstaklega var minnst á stærðfræði og eðlisfræði í þessu samhengi og sagðist einn viðmælenda telja sig nörd í sagnfræði með orðunum: „Sagnfræði, ég veit alltof mikið um [það].“ Annað sem kom fram í umræðum annars rýnihópanna var það að ekki væri hægt að yfirfæra þessa skilgreiningu, að sökkva sér djúpt í efnið, yfir á þá sem hefðu það að atvinnu að hafa mikla vitneskju um efnið að. Þannig sagði einn viðmælendanna til að mynda að „einn af kennurunum okkar sem er að kenna eitthvað að ef að hann hefði það ekki að atvinnu heldur væri hann að þessu sökum áhuga þá er hann alveg mikill nörd í því“ og að ef hann „væri ekki að vinna við þetta að kenna heldur væri bara með það sem áhugamál og talaði ekki um neitt annað þá væri hann bara nörd.“

Almennt virtist viðmælendum ekki finnast orðið nörd hafa neikvæða merkingu, þrátt fyrir að sumir, einkum þeir elstu í hópnum höfðu orð á því að þegar þau hafi verið yngri hafi orðið tvímælalaust haft vissa neikvæða tenginu, til dæmis hafi orðið tengst því að vera „social outcast“ og þeim hafi fundist það „mjög sárt [að vera kallaður nörd] því ég sá fyrir mér einhvern sem átti enga vini og var alltaf heima hjá sér að læra (…) mig langaði ekkert að vera þannig.“ Þeir yngri tengdu að vissu marki við það en tengdu þessa neikvæðu merkingu frekar við það að komu upp úr grunnskóla í framhaldsskóla því þá „fór nörd að vera aðeins meiri svona lúði“. Þeir elstu virtust þó tengja þessu neikvæðu merkingu miklu sterkar við orðið og gekk það svo langt að einn viðmælendanna ávítti annan viðmælenda fyrir orðalag sitt, þegar honum fannst það vera með of neikvæðum blæ. Viðmælendur voru mjög opnir fyrir því að einhver myndi kalla þau nörd og sagðist einn viðmælandi alltaf hafa fundist það „pínu skemmtilegt þegar fólk kallaði mann það (…) maður svona þóttist ekki vilja vera það en samt hafði maður gaman af því.“ og annar viðmælandi tók undir það. „Ég hef bara mjög gaman af því að vera kölluð nörd, það gerist alltaf reglulega“ en tók samt fram að hann væri „með of mikið swag. Ég er kannski svona doctor Who nörd eða eitthvað svoleiðis.“ Einn viðmælenda gekk jafnvel svo langt að segja, „ætli ég yrði ekki bara glöð ef ég verð einhvern tíman kölluð nörd“.

Viðmælendur voru viðbúnir að samþykkja að það að vera nörd væri meira samþykkt af samfélaginu en áður og það að vera nörd væri orðið meira „mainstream“. „Þetta er búið að færast aðeins meira inn á miðjuna, þetta er orðið meira socially acceptable“, það ekki lengur verið „að draga þig í svona mikla dilka.“ „Fólk er bara opnara með það að það sé nörd og bara segist vera nörd og það er bara allt í lagi og það er öllum sama.“ Viðmælendur voru einnig sammála því að þeir hefðu ekki sömu skilgreiningu á orðinu og þeir höfðu þegar þeir voru yngri. Bentu þeir á bíómyndir og aukna tölvunotkun sem áhrifavald, „það eru allir með sko í rauninni tölvu í vasanum sem eru öflugri en tölvurnar sem sendu fyrst mann á tunglið. Og hérna hver spilar ekki Angry birds?“ en einnig á það að Hollywood steríótýpan af nörd hefði breyst „þú‘st fyrir eitthvað mörgum árum þá voru nördin alltaf verið að bróka þau og gera grín að þeim núna er komin meira svona ef einhver er nörd þá mun hann verða vinsæll í endanum“.

Nord_03

„Mér finnst nördalegt að vera að skilgreina orðið nörd”. Þessi setning féll í upphafi annars viðtalsins eftir að viðmælendum var gert grein fyrir um hvað viðræðurnar væru, og er þessi setning að mörgu leiti lýsandi fyrir niðurstöður viðtalanda. Það eitt að leitast væri eftir þessari þekkingu og kafað dýpra í það hvað það væri að vera nörd, var nördaleg viðleitni í sjálfu sér þar sem hún féll utan almennrar þekkingar um það hvað nörd væri. Auðséð var þó að viðtölum loknum að þrátt fyrir að nokkur samstaða myndaðist um merkinguna þá var nokkur huglægur blæbrigðamunur á henni og túlkuðu viðmælendur orðið á fjölbreyttari hátt en svo að aðeins væri ein meining á bak við orðið. Sérstaklega lagði einn viðmælendanna meiri merkingu í þau áhugamál sem nördar sökktu sér í en að það eitt að sökkva sér ofan í áhugamál sitt gerði þig að nörd. Þannig minntist hann sérstaklega á áhugamál eins og hlutverkaspil og safnkortsspil en átti erfiðar en aðrir í hans hóp að samþykkja það að hægt væri að vera íþróttanörd. Gengu þær niðurstöður að nokkru leiti gegn forhugmyndum rannsakenda sem töldu að sum áhugamál væru nördalegri enn önnur.

Annað sem vakti athygli rannsakenda var ákveðið mynstur sem virtist koma í ljós á því hve neikvæða tengingu viðmælendur tengdu við orðið nörd, eftir aldri þeirra. Hjá þeim viðmælendum sem væri enn í framhaldskóla varð orðið nörd neikvætt í framhaldsskóla, á meðan orðið hafði frekar hlutlausa merkingu þegar þau voru í grunnskóla. Fyrir eldri viðmælendunum tengdu þau frekar neikvæðu meininguna við eitthvað sem var við lýði þegar þau voru á barnsaldri og virtust þau viðkvæmari fyrir þeirri merkingu. Einn viðmælandann virtist vilja stöðva allt grín í viðtalinu sem snérist að nördum og fannst virkilega rangt að gera grín að nördum þar sem þeir vita alveg ótrúlega mikið, hafa frá svo miklu að segja og geta kennt öðrum.

Viðmælendur voru sammála um það að breyting hefði orðið á því hvaða merkingu þeir og aðrir leggðu í orðið nörd og að það að vera nörd væri meira samfélagslega viðurkennt en áður.

Viðmælendur voru sammála um það að breyting hefði orðið á því hvaða merkingu þeir og aðrir leggðu í orðið nörd og að það að vera nörd væri meira samfélagslega viðurkennt en áður. Minntust þeir flestir á tölvuleiki, kvikmyndir og tölvuvæðingu fyrir þessari þróun og voru þær niðurstöður í samræmi við þær væntingar sem rannsakendur höfðu. Aðrar niðurstöður komu rannsakendum einnig lítið á óvart, en þó tóku þeir eftir því að bara það að sökkva sér ofan í áhugamál og vita mikið um það áhugamál væri skilgreiningin á því að vera nörd. Viðmælendur töluðu um það að þeir sem hefðu það að atvinnu að öðlast mikla þekkingu á einhverju efni væru ekki nördar. Var sú niðurstaða byggð á því að þetta væri þeirra vinna en ekki áhugamál. Viðmælendur voru enn fremur gjarnir á að tengja það að vera gáfaður við það að vera nörd.

Rannsakendur: Helgi Freyr Hafþórsson og Magnús Einarsson
Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑