Birt þann 7. október, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Leikjarýni: FIFA 12
Fótbolti er sú íþrótt sem hefur eitt mesta fylgi allra íþrótta víðast hvar í veröldinni, og það á nú enga að síður við hér á Íslandi. Mörgum nægir það einfaldlega ekki að sjá uppáhalds liðið sitt spila einu sinni til tvisvar í viku, svo þar getur FIFA létt þeim lífið. FIFA er þó ekki bara fyrir fótbolta unnendur, þó svo að þeir séu vissulega lang stærsti hluti spilenda, heldur eru líka þó nokkuð margir sem spila leikina en horfa varla á fótbolta yfir höfuð.
Þann 28. september síðastliðinn kom á markað nýjasta útgáfan af hinni sívinsælu FIFA, fótbolta-eftirhermu, tölvuleikjaseríu. Leikurinn var gefin út á allar nýjustu leikjavélarnar, og þar með er ég einnig að tala um iPhone. FIFA leikirnir hafa átt föstu fylgi að fagna síðan upprunalegi FIFA leikurinn kom út árið 1993. En hann sló rækilega í gegn á sínum tíma og hafa þessir leikir ávallt gert það síðan þá. Hvort að EA hafi nokkurn tímann í sínum villtustu draumum getað ímyndað sér að leikirnir ættu eftir að ná þeim vinsældum sem þeir hafa nú í dag efa ég stórlega, en eitt er víst, vinsældir þeirra aukast bara með hverju árinu, og ekki að ástæðulausu.
Um leikinn
FIFA er vinsælasti fótboltatölvuleikur í heimi. Í leiknum er að finna 28 fótboltadeildir alls staðar að úr heiminum, allar með mjög vel gerðum og nákvæmum eftirlíkingum af leikmönnum liðanna, ásamt fótboltavöllum, búningum, boltum og búnaðs hvers félags. Leikmennirnir eru í þúsunda tali og hefur hver og einn verið greindur eftir getu sinni og úthlutað hæfileikastigi í samræmi við það. Svo er einnig hellingur af landsliðum sem hægt er að spila. Eins og hefð hefur verið fyrir í FIFA leikjunum jafnt sem alvöru fótbolta þá er leikþulateymi sem talar inná leikina til að gera upplifunina ennþá raunverulegri og eftirminnilegri, og í fyrsta sinn eru þau tvö en þar áður var alltaf bara eitt, en þau samanstanda af hinum reynda Martin Tyler sem fyrrum FIFA spilarar kannast ábyggilega við úr eldri leikjunum og með honum í fyrsta sinn er Alan Smith, en Andy Gray sem var vanur því að ljá rödd sína samhliða Martin Tyler var sagt upp eftir að hann lét afar vafasöm orð falla í beinni útsendingu nú fyrr í vetur. Hitt teymið samanstendur af Clive Tyldesley og Andy Townsend en þeir tala inn á alla bikarleiki. Hægt er þó að velja hverja maður vill frekar hlusta á ef annað teymið höfðar betur til manns, eða hreinlega slökkva alfarið á leikjaþulunum yfir höfuð fyrir þá sem ekki hafa áhuga á að hlusta á lýsingar þeirra.
Nýji leikurinn er að flestu leyti ekki ósvipaður forverum sínum, þar ber helst að nefna FIFA 11, en þó eru nokkrar breytingar sem ég fer í seinna. Leikurinn býður uppá ótal gerðir leikjaspilunnar, en það fer varla á milli mála að þær gerast allar meira og minna inná fótboltavellinum, eða þar í kring. Þegar leiknum er skellt í gæti nýjum notendum jafnt sem reyndum vafist hugur um hvar skal byrja. Hægt er að fara beint inní leik þar sem spilarinn getur leikið móti tölvunni, vini eða þá í gegnum netið þar sem að EA netþjónnin setur þig á litlum sem engum tíma í samband við einhvern spilara frá öðru heimshorni, eða næsta húsi, með samskonar reynslu og þú í leiknum. Það er þó örlítil breyting á netspilunarhlutanum í nýja leiknum ólíkt því sem maður hafði vanist í eldri leikjunum. Í stað þess að vinna þér inn eða tapa stigum í samræmi við frammistöðu þína í leikum og útkomu, þá er þetta nú eins og fótboltadeild, þar sem þú færð ýmist 3 stig fyrir sigur, 1 fyrir jafntefli eða ekkert þegar þú býður ósigur.
En þetta er að sjálfsögðu bara ein leikjategundin, svo er líka hægt að búa til sinn eiginn rafræna fótboltasnilling (Virtual Pro), þ.e.a.s. þú getur búið til þinn eiginn leikmann þar sem þú ræður gjörsamlega hvaða stöðu hann spilar, hverskonar leikmaður hann er, hverju hann klæðist, í hvaða liði hann er og að sjálfsögðu hvernig hann lítur út, hvort sem þú vilt gera hann í þinni ímynd eða bara láta hann líkjast Georgi Bjarnfreðarsyni. Slíkt er algjörlega undir þér komið.
Spilarinn getur svo þjálfað leikmanninn sinn og gert hann betri, með því að spila honum á móti tölvunni eða öðrum leikmönnum í gegnum netið, þar sem hægt er að slá sér saman með öðrum einstaklingum sem eru að spila sínum leikmönnum og búa þannig til lið sem geta síðan keppt saman. Leikmaðurinn verður betri á þeim sviðum sem þú spilar honum á og eftir því hvað hann afrekar innan leiksins, og með því að framfylgja ákveðnum leiðbeiningum geturðu síðan unnið þér inn ýmsa hæfileika svo sem utanfótarskot, löng innköst, hjólhestaspyrnu og mörg fleirri, en eingöngu er hægt að hafa mest 5 hæfileika í gangi í einu svo maður þarf svolítið að fikra sig áfram og komast að því hvað hentar manni best.
Spilarinn getur svo leikið á móti tölvunni í 3 mismunandi gerðum af fótbolta atvinnumannaferlum. En þá er hægt að velja annað hvort Þjálfarann (Manager Mode), Leikmanninn (Player Mode), eða Þjálfarann og Leikmanninn (Manager Player Mode). Sem þjálfarinn tekurðu við stjórn á hvaða liði í heiminum sem þig langar til og getur síðan gert allt sem fótboltaþjálfarar gera, svo sem að kaupa leikmenn, njósna um nýja spennandi leikmenn uppá framtíðina o.fl. Í þjálfara leiktegundinni geturðu valið hvort þú spilir leikina sjálfur eða lætur tölvuna úrskurða niðurstöðu leikjanna. Það eru nokkrar nýjungir í þeirri leiktegund, en þ.á.m. segja t.d. leikmenn skoðun sína á milli leikja þegar þeim finnst það skipta máli, og fjölmiðlarnir eru mun líkari alvöru íþróttafréttamiðlum heldur en það sem boðið var uppá í FIFA 11 útgáfunni og þeim þar á undan. Í Leikmanninum spilaru fótbolta snillinginn þinn sem ég talaði um hér fyrr, en þá velur þú þér lið til að leika með og leikur þar bara þinn mann, og eftir frammistöðu þinni að dæma geturðu farið allt frá að vera algjör varamaður yfir í að verða fyrirliðinn sjálfur. Svo geta önnur félög boðið í þig eftir því hvernig þú stóðst þig á leiktíðinni. En það er eins í Þjálfaranum hvað varðar ný félög, þ.e.a.s. að ef þú stendur þig vel og byggir upp nógu traust orðspor máttu eiga von á kostaboðum frá heimsins þekktustu félögum, þó svo að það gerist sjaldnar en mætti í Þjálfaranum. Loks er það svo Þjálfara og Leikmanna tegundin, en hún er eins og Þjálfaraleiktegundin að öllu leyti nema því að þegar þú spilar leikina geturðu valið á milli þess hvort þú viljir stjórna öllu liðinu eða bara fótboltasnillingum þínum.
Úrvalsliðið (Ultimate Team)
Fjórða leiktegundin er sú sem hefur verið að sækja í sig veðrið allt frá því hún kom upprunalega út í FIFA 09, en það er Úrvalsliðið. Leikurinn er nokkurskonar samblanda af Þjálfaraleiktegundinni og safnkortaleikjum. Búið er að skipta leikmönnum úr öllum deildum leiksins niður í flokka eftir getu þar sem þeir bestu eru gull, þeir sem koma þar á eftir eru silfur og loks er afgangurinn brons leikmenn. Þegar spilarinn byrjar Úrvalsliðið velur hann nafn á það og fær svo samstundis gefins þónokkra brons leikmenn af handahófi ásamt heima- og útivallarbúningum, heimavelli og liðsmerki sem einnig eru valin af handahófi. Innan Úrvalsliðsins eru allir leikir annað hvort bara venjulegur einn á móti einum gegn öðrum spilara eða tölvunni, eða þá útsláttarbikarmót, sem eru einnig í boði á móti öðru fólki í gegnum netið eða bara við tölvuna. Hægt er að fara beint í að spila með þeim leikmönnum sem maður fær skartað, en þá eru sérstök bikarmót fyrir bronslið sem ég mæli eindregið með að byrjað sé á. Fyrir hvern sigur fær maður krónur (coins) sem er gjaldmiðill innan leiksins, en með honum getur maður ýmist keypt sér pakka, sem innihalda 12 handahófskennd spjöld eða farið á skiptimarkaðinn sem er nokkurskonar uppboðs staður, en þar getur þú keypt og selt öll þau spjöld sem þig listir í, eins lengi og krónurnar eru til staðar. Það þarf samt að gæta að því að ekki er nóg að kaupa bara leikmenn og spila alltaf þeim sömu 11, því bæði þreytast þeir á milli leikja og geta meiðst, en svo þurfa þeir líka nýja samninga eftir ákveðið marga leiki, sem eru einnig spjöld sem þú úthlutar sjálfur. Hægt er að sjá allar slíkar upplýsingar á leikmönnunum inní leiknum.
Sem lítið ráð frá einum Úrvalsliðs spilara til annars, þá gildir það í þessum leik líkt og á alvöru hlutabréfamörkuðum að eina góða leiðin til að græða krónur er að kaupa spil á lágu verði og selja þau á háu. Þetta segir sig kannski nokkuð mikið sjálft en aðeins þeir glöggvustu ná að vinna sér inn þær upphæðir sem þarf til að kaupa sér bestu leikmennina og það er hægara sagt en gert að koma sér almennilega inn í skiptimarkaðsbransann í leiknum.
Framfarir í leiknum
EA hafa ávallt þróað FIFA leikina mjög jafnt og þétt þannig að aðdáendur leikjanna halda áfram að kaupa þá nýjustu þegar þeir koma út. Að auki hætta þeir að uppfæra félagaskipti leikmanna í leikjunum sumarið áður en nýjasti leikurinn kemur út þannig að notendur verða að kaupa nýjasta leikinn til að hafa öll liðin eins og þau eru í upphafi nýs tímabils. FIFA 12 er þó breyttur að þó nokkru leyti frá FIFA 11.
Til að byrja með er útlit leiksins betrumbætt að flestu leyti og líkist leikurinn nú alvöru fótbolta leik enn meira en áður. Markaskorun í FIFA 12 er líka mun raunverulegri en í FIFA 11. Þeir sem spiluðu hann mikið voru ábyggilega farnir að finna fyrir því að það voru í raun aðeins örfáar leiðir til að skora, en svo er alls ekki í FIFA 12. Sem dæmi hefur mér nú þegar tekist að skora mark lengst fyrir utan teig, en það gekk aldrei upp í FIFA 11, allavega ekki hjá undirrituðum. Varnarleikurinn hefur líka verið tekinn rækilega í gegn. Það er nú mun erfiðara að halda uppi pressu á andstæðingnum og þarf mikla æfingu til að ná góðum tökum á því hvernig á að ná boltanum án þess að brjóta af sér, en núna er t.d. hægt að stjórna tveimur varnarmönnum á sama tíma, og þar að auki tækla varnarmennirnir ekki lengur andstæðinginn sjálfkrafa heldur verður þú að sjá um allar tæklingar sjálfur. Nýjasta nýjunginn í leiknum er þó, ef litið er framhjá öllum útlits framförum og litlum viðbótum í Þjálfaraleiktegundinni sem ég talaði um hér fyrr og öðru slíku, er árekstrarvélin (Impact Engine) í leiknum, en nú líkt og aldrei fyrr eru tæklingar mun raunverulegri. Þegar einn leikmaður skellur saman við annan sést greinilega hvernig tækling um var að ræða eftir því hvernig leikmaðurinn fellur eða missir jafnvægið. Einnig meiðast leikmenn nú á þeim líkamshluta sem þeir lentu augljóslega illa, eða urðu fyrir hnjaski á. EA eiga samt greinilega eftir að fínstilla þessa nýju vél því af og til kemur tækling þar sem leikmaðurinn sem verður fyrir tæklingunni kippist til á ótrúlega asnalegan hátt, sem er oft fremur fyndið ef satt skal segja.
Tónlist og hönnun
Í leiknum er að finna samantekt af ágætis popplögum frá mörgum löndum sem passa vel við leikinn og eru flest þægileg í hlustun meðan maður vafrar valmyndir leiksins (Menu) eða bíður milli hálfleikja í leik sem þú ert að spila. Hljóðin frá aðdáendum innan leiksins lífga svo vel uppá stemmniguna og samtöl leikþulanna er að mínu mati einn skemmtilegri eiginleiki leiksins. Hönnun leiksins er líka afar þægileg, valmyndirnar eru skýrar, greinilegar og vel aðgengilegar og þegar kveikt er á leiknum kemur í fyrstu upp æfingasvæði þar sem fótboltaleikmaður að eigin vali getur leikið sér að sækja að og reyna að skora gegn markmanni sem maður getur einnig valið. Leikurinn er svo stillanlegur að sumu leyti eins og t.d. með leikmennina á æfingasvæðinu sem ég var að tala um, en þar er líka hægt að velja staðsetningu æfingasvæðisins. Hægt er svo að hafa áhrif á þá tónlist sem spilast í leiknum, þ.e. ef það eru eitthver lög sem spilaranum leiðist er minnsta mál að afstilla þau þannig að þau spilist aldrei framar, nema þú stillir þau aftur á að sjálfsögðu.
Samantekt
Í heildina litið veit maður hverju við er að búast þegar keyptur er FIFA leikur. Leikirnir eru þrælskemmtilegir og alltaf þægilegir til að grípa í hvort sem þú hefur lítinn tíma og vilt bara taka einn fljótann leik, eða ef þú vilt setjast niður, slappa af og gleyma þér í leiknum. Gott magn fjölbreyttra leiktegunda geta haldið manni uppteknum í heillangann tíma og þessar róttæku breytingar á varnarleiknum gera leikinn að mínu mati mun skemmtilegri því nú er varnarleikurinn orðin mun erfiðari að ná tökum á sem opnar miklu meira fyrir sóknarleikinn og býr þar af leiðandi til meiri spennu.
Útlitslega er leikurinn verulega flottur og tónlistin ágæt. Einu verulegu leiðindin sem ég fann fyrir við spilun leiksins, að frátöldu því að leikurinn á það til að frjósa, þó það gerist bara örfáum sinnum, eru EA netþjónarnir en þeir eru alveg hreint ótrúlega leiðinlegir oft á tíðum og þá helst þegar reynt er að tengjast þeim. Svo ekki sé minnst á að það býr ávallt yfirvofandi hætta á að missa tengslin við netþjóninn í miðjum klíðum eða jafnvel eftir leiki sem þú varst að spila og þá færðu skráð á þig tap jafnvel þó þú hafir haft sigurinn í höfn, eða verið búinn að vinna. Það liggur í augum uppi hvað það getur skemmt mikið fyrir manni spilunnargleðina að lenda í slíku, og átti maður von á að EA væru búnir gera eitthvað í þessu því þessi vandamál hafa lengi verið til staðar í FIFA leikjunum. En ég get auðveldlega mælt með FIFA 12 fyrir sérhvern íþróttaleikja aðdáanda og fótbolta unnanda. Líka ef þú hefur átt eitthvern eldri FIFA leik og ert í vafa um hvort það taki því að fá sér þennan þá er hann að mínu mati vel þess virði og enginn vafi liggur á um að þetta sé besti FIFA leikur sem komið hefur út hingað til, og einn besti íþróttaleikur heims um þessar mundir.
Grafík: 9,0
Hljóð: 8,0
Spilun: 9,0
Fjölspilun: 8,5
Ending: 9,5
Samtals: 8,8
– Arnar Vilhjálmur Arnarsson