Bækur og blöð

Birt þann 7. nóvember, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Bókarýni: Hrafnsauga eftir Kjartan Yngva Björnsson og Snæbjörn Brynjarsson

Hrafnsauga, sem er fyrsta bók í bókaflokknum Þriggja heima saga, kom út hjá Vöku-Helgafelli árið 2012 og hlaut sama ár Íslensku barnabókaverðlaunin og Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana sem besta íslenska táningabókin.

„Nær þúsund ár eru liðin frá því myrkraöldin leið undir lok, þegar vitringarnir sjö komu saman og sigruðu skuggana. Hin myrka tíð hefur að mestu gleymst. En þótt minni manna sé brigðult gleyma hin fornu öfl engu.“ [Forlagið]

Hrafnsauga er unglingabók sem fjallar um ævintýri þriggja 15 ára unglinga af þjóðflokki Jana, Janar eru nokkurs konar hirðingjar en þó með fasta búsetu. Þeir búa í fámennum þorpum, lifa af landinu og halda hreindýrahjarðir. Janalöndin eru í útjaðri keisaraveldisins en eru undir litlum afskiptum af valdamiðjunni og hafa því nokkuð frjálsar hendur um örlög sín og ævi og lifa friðsamlegu lífi. En skjótt skipast veður í lofti og daginn sem krakkarnir eiga að vígjast inn í fullorðinna manna tölu breytist allt á svipstundu og Ragnar, Breki og Sirja verða að gera allt sem þau geta til að bjarga heiminum frá hræðilegum örlögum.

Bókin er skemmtileg og vel skrifuð. Heimurinn sem þeir Kjartan Yngvi og Snæbjörn skapa ber þess merki að mikil vinna hefur verið lögð í hann, hugsað hefur verið fyrir nánast öllu. Þeir hafa sótt sér innblástur víða; úr norrænni goðafræði, grænlenskum goðsögnum, finnskum goðsögnum o.fl. Þetta víkkar út hinn hefðbundna fantasíuheim sem oft virðist byggja um of á sömu klisjunum, hér hefur í það minnsta verið leitað á slóðir sem sjaldnar er leitað á. Á móti þótti mér á stundum sem hlutirnir væru teknir beint upp úr sögunum og að höfundar hefðu mátt móta efnið aðeins betur og gera það að sínu. Þannig mætti nefna drekann Bifgelmi sem er hluti af upprunasögu Jana og minnir ansi mikið á Aurgelmi (Ými) í norrænni goðafræði og hlutverk hans í upprunasögu heimsins. Persónuna Ukkó mætta tengja við guðinn Ukko í finnskri goðafræði, mér virðist ýjað að því að Nanúk muni eiga fleira sameiginlegt með Nanook í grænlenskum sögnum en bara nafnið og konungsríkið Albyor minnir óneitanlega á Albion, sem er elsta þekkta heitið á Bretlandi. Heimsmynd sögunnar virðist einnig byggja á þessum tengslum. Janar virðast hliðstæðir við Sama, Norðlendingar við Grænlendinga, Langdælingar (í Langdyle) virðast hliðstæður við Skota eða Walesbúa ef marka má nöfn íbúa, landsvæða þeirra og einkenni. Þetta er þó eflaust smámunasemi og ekki eitthvað sem meðal lesandi veitir mikla athygli.

HrafnsaugaÞað truflaði mig eilítið við lestur sögunnar að uppgefinn aldur krakkanna virtist ekki eiga heim og saman við atferli þeirra, hegðun og tilfinningar. Mér fannst ég fremur vera að lesa um 12-13 ára krakka en krakka sem væru 15 ára og við það að komast í fullorðinna manna tölu innan síns þjóðflokks. Þetta er eitthvað sem hefði alls ekki truflað mig ef talað hefði verið um að krakkarnir væru 12 ára – mér þykir ekkert að því að lesa um ævintýri 12 ára barna – en þetta misræmi fékk mig til að velta því fyrir mér hvort höfundar væru að reyna að markaðssetja bókina sína til breiðari og eldri lesandahóps en bókin sjálf gæfi tilefni til. Sjálfur sagði Snæbjörn, annar höfunda bókarinnar, við afhendingu barnabókaverðlaunanna að bókin ætti að höfða til unglinga og eldri, sama hóps og bókasyrpan um Hungurleikana. Ef það var markmiðið þá finnst mér það ekki hafa tekist, til þess er bókin allt of mikil barnabók. Því er hætt á vonbrigðum fyrir hluta lesenda þar sem persónur bókarinnar hegða sér ekki eins og búast mætti við af 15 ára krökkum. Þau eru oft nokkuð barnaleg og í þau vantar alla gelgju. Hvar eru hormónarnir? Skapsveiflurnar? Ástin? Andspyrnan? Tilvistarkreppan?

Byggingu bókarinnar mætti einnig gagnrýna. Fyrra risið í frásögninni kom mjög fljótt og svo rjátlaðist af því án beinnar lausnar, þá náði sagan nokkurs konar sléttu þar sem frásögnin var stöðug og þótt hún væri alls ekkert leiðinleg var hún heldur ekkert æsispennandi. Í lokin byrjaði spennan svo að magnast á ný og lauk bókinni á svokölluðum „cliffhanger“ – bókin hefur því augljóslega frá byrjun verið hugsuð sem fyrsta bók í flokki og líður hún aðeins fyrir það. Í raun mætti líta á hana sem kynningu, inngangsbók að flokknum. Hún á að ná manni á öngulinn svo maður neyðist til að lesa næstu. Ég hefði persónulega kosið aðeins hefðbundnari byggingu með risi og lausn (ekki fullkominni náttúrulega enda bókaflokkur – en lausn samt). Þegar ég lagði bókina frá mér þá sat eftir einhvers konar „jahá…“ hugsun. Var þetta öll bókin? Það var eitthvað sem vantaði sem ég get ekki alveg sett fingurinn á en það tengist byggingunni.

Þrátt fyrir að þetta hljómi kannski eins og ég sé neikvæð fyrir bókinni þá er það alls ekki svo. Heimurinn er flottur og vel skapaður, hann er ekki eintóna heldur er hugað að ólíkri menningu, ólíkum tungum og ólíkum hefðum milli ólíkra þjóðflokka. Sama má segja með persónurnar, en sjónarhornið flakkar milli aðalpersónanna þriggja; Ragnars, Breka og Sirju. Þau eru ólík og þau eru margbrotnar persónur, svo sannarlega engar bókmenntatýpur. Að sama skapi var áhugavert að fá einnig að standa hinum megin borðsins. Nokkrum sinnum í bókinni fær lesandi að setja sig inn í hugarheim óvinarins og upplifa það hvernig hann lítur á málin. Í staðinn fyrir að hér sé um einhvers konar óþekkt illt afl að ræða veit lesandinn hvað óvinurinn vill og að frá hans sjónarmiði er hann ekki vondi kallinn.

Ég mæli því með bókinni en vona að höfundar fínpússi aðeins fyrir hvaða markhóp þeir eru að skrifa í næstu bókum. Eins og hún stendur er hún í hættu á að lenda í einhvers konar millibilsástandi, hún er til að mynda á heimasíðu Forlagsins flokkuð sem barnabók fyrir þrettán ára og eldri en ýmislegt í henni þykir mér henta betur fyrir yngri lesendur sem ég held að gætu samsamað sig mun betur með söguhetjunum en 13-18 ára myndu gera.

En að öllu þessu loknu get ég endað á því að segja að ég hlakka til að lesa næstu bók og sjá hvernig úr þessu verður unnið!

 

Höfundur er Védís Ragnheiðardóttir,
nemi í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands.

 

Deila efni

Tögg: , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑