Birt þann 17. september, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Dagskrá RIFF 2013 kynnt
Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, hefst í næstu viku, fimmtudaginn 26. september nk. með frumsýningu á nýrri íslenskir mynd, SVONA ER SANLITUN eftir Róbert Douglas, og lýkur þann 6. október með sýningu myndarinnar LÍF ADELE sem fékk Gullpálmann í Cannes, en um er að ræða Norðurlandafrumsýningu á myndinni.
Miðasala á hátíðarinnar opnar á fimmtudaginn, 19. september, en þegar er hægt að kaupa hátíðarpassa og klippikort á heimasíðunni riff.is.
Hátíðin hefur stækkað ört á undanförnum árum og fara því sýningar fara fram í stórum sölum í Háskólabíói, Tjarnarbíói og í Norræna húsinu. Auk þess verður kvikmyndadagskrá RIFF út um alla borg – í litlum verslunum, hágreiðslustofum og hótelum – undir nafninu RIFF Around Town. Þá teygir verkefnið RIFF út á landi sig út um allt Ísland.
RIFF er nú haldin í tíunda sinn og er dagskráin óvenju glæsileg af þeim sökum. RIFF er alþjóðleg, óháð kvikmyndahátíð. Myndirnar eiga það flestar sammerkt að vera splunkunýjar, margar hverjar heimsfrumsýndar nýlega í Feneyjum og Toronto, og endurspegla það besta sem alþjóðleg kvikmyndagerð hefur upp á að bjóða. Um er að ræða gæðamyndir af ýmsu tagi eftir vel þekktra leikstjóra á borð við Jonathan Demme og Lukas Moodysson yfir í framsæknar kvikmyndir eftir nýja leikstjóra sem keppa um Gyllta lundann.
Myndirnar fjalla um allt milli himins og jarðar, allt frá letilífi unglinga á eyjunni Korsíku yfir í líf inúíta í nyrstu héruðum Kanada, um albínóa í Tanzaníu og pönkara í Stokkhólmi, erfðabreytt matvæli, viðskipti með Bordeux-vín, niðurhal á netinu, kjörbúð á Sauðárkróki, innflytjendur í New York, hlýnun norðurheimskautsins og óléttar táningsstelpur í Póllandi. RIFF er fjölbreytt, sólrík en jafnframt skuggaleg, og þar verður hægt að finna allt litróf mannlegra tilfinninga.
Meðal mynda sem sýndar verða eru NESTISBOXIÐ sem sló í gegn í Cannes í vor, AÐEINS ELSKENDUR EFTIRLIFANDI, nýjasta afrek Jim Jarmusch og hin Gullpálma tilnefnda SNERTUR AF SYND eftir kínverska leikstjórann Jia Zhangke.
Sérstöku sjónarhorni verður beint að myndum frá Grikklandi í ár. Verða alls fimm grískar myndir sýndar á hátíðinni, meðal annars kvikmyndin UNGFRÚ OFBELDI sem fékk verðlaun fyrir besta karlhlutverk í Feneyjum fyrr í mánuðinum. Þá verður fjallað um Grikkland í fræðsludagskrá okkar í málþingi þar sem skoðað verður hvernig efnahagsvandamál hefur haft áhrif á kvikmyndagerð Grikklands og Íslands.
Meðfram sýningu myndanna er boðið upp á fjölbreytta fræðsludagskrá þar sem tugir erlendra gesta deila fróðleik um kvikmyndir og taka þátt í spurt og svarað eftir sýningar.
RIFF sýnir í ár hátt í hundrað myndir í fullri lengd bæði leiknar myndir og heimildamyndir auk fjölda stuttmynda. Myndirnar koma frá samtals frá yfir 40 löndum. Á annað hundrað erlendir gestir úr kvikmyndaheiminum eru væntanlegir til að kynna verk sín eða taka þátt í íslenskum Bransadögum og Talent Lab smiðjunni sem haldin er samhliða.
Í tilefni þess að RIFF er nú haldin í tíunda sinn verða heiðursgestir RIFF 2013 þrír talsins. Þeir eiga það sameiginlegt að vera í hæsta gæðaflokki ungra kvikmyndaleikstjóra. Þeir eru sænski leikstjórinn Lukas Moodysson og verður nýjasta mynd hans VIÐ ERUM BESTAR sýnd á hátíðinni ásamt tveimur eldri verkum hans, meðal annars hinni ljúfsáru ÁRANS ÅMÅL. Moodyson verður verðlaunaður fyrir framúrskarandi listfengi af borgarstjóranum í Reykjavík þann 26. sept nk. Þá munu bandaríski leikstjórinn James Gray og franski leikstjórinn Laurent Cantet einnig sækja hátíðina heim með gamlar og nýjar myndir í farteskinu og hljóta verðlaun fyrir framúrskarandi listfengi í kvikmyndum við hátíðlega athöfn hjá forseta Íslands að Bessastöðum þann 2. október nk.
Opnunarmynd RIFF 2013 er nýjasta mynd leikstjórans Róberts Inga Douglas, SVONA ER SANLITUN. Í boði er að kaupa miða á opnunarsýninguna, sem verður í stærsta sal Háskólabíós þann 26. september nk.
Þá býður RIFF upp á fjölda sérviðburða sem reynst hafa óvenju vinsælir undanfarin ár. Meðal þeirra má nefna:
Sundbíó – grínmyndin AIRPLANE verður sýnd í Laugardalslauginni.
Grínbíó – endurtalsetning á kvikmyndinni NÝJU LÍFI.
Sýning á japönsku anime myndinni THE WIND RISES eftir Hayao Miyazaki, í samvinnu við Nexus.
Riff Around Town – kvikmyndasýningar á ýmsum stöðum í borginni
Hellabíó í Bláfjöllum
Heimabíó – Hrafn Gunnlaugsson býður fólki heim til sín og sýnir Óðal feðranna, ásamt umræðum.
Meðal nýjunga á hátíðinni í ár er verkefni sem nefnist Earth 101 þar sem RIFF mun bjóða upp á opið málþing þar sem fram koma sumir af fremstu vísindamönnum heims á sviði loftslagsmála ásamt kvikmyndaleikstjórum sem eru gestir á RIFF. Verkefnið, sem er unnið undir forystu Guðna Elíssonar, prófessors við Háskóla Íslands, miðar að því að leiða kvikmyndagerðarmenn og vísindamenn saman til að auka skilning almennings á áhrifum loftslagsbreytinga.
Þá er það mikið gleðiefni að tilkynna að RIFF vinnur nú í fyrsta skipti með Centre Pompidou listamiðstöðinni í París undir formerkjum Hors Pistes verkefnisins, en það gengur út á að veita framúrskarandi video-listamönnum tækifæri á að sýna verk sín. Listamaðurinn sem var valin í verkefnið heitir Ásdís Sif Gunnarsdóttir og verða video-verk hennar sýnd í Slippbíói undir merkjum RIFF á meðan á hátíðinni stendur og svo aftur í Centre Pompidou í janúar 2014.
Nýlunda á RIFF í ár er einnig Samkeppni um bestu mínútu-myndina, en þar geta reyndir sem óreyndir spreytt sig á þessu knappa kvikmyndaformi.
Bransadagar verða haldnir í annað sinn ásamt kvikmyndasmiðjunni Talent Lab, þar sem íslenskir og erlendir kvikmyndagerðarmenn sem eru að stíga sín fyrstu spor deila hugmyndum sínum.
Umfang RIFF hefur margfaldast frá upphafsárinu 2004 og hátíðin hefur sannarlega fest sig í sessi, annars vegar sem ein athyglisverðasta kvikmyndahátíðin í Evrópu ár hvert og hins vegar sem einn af stærri menningarviðburðum landsins. Í takt við aukið umfang hefur öll vinna við undirbúning hátíðarinnar aukist umtalsvert og teygir sig nú yfir allt árið. Markmið þeirra sem að hátíðinni standa er hið sama og á upphafsárunum, að skapa skemmtilega menningarhátíð þar sem allflestir finna eitthvað við sitt hæfi.
RIFF hefur á undanförnum tíu árum stimplað sig rækilega inn í heim kvikmyndanna og dregið til sín ríflega árlega um og yfir 30.000 innlenda og erlenda gesti, m.a. heimsfrægt fólk úr heimi kvikmyndanna eins og Milos Forman, Susanne Bier, Jim Jarmusch, Hal Hartley og Aki Kaurismäki.
Miðasalan á hátíðina hefst næsta fimmtudag, 19. sept, í Tjarnarbíói. Hátíðarpassi sem gildir á allar hefðbundnar kvikmyndasýningar RIFF kostar 9.500 kr, en klippikort sem gildir á átta sýningar og hægt er að deila kostar 8.000 kr. Miði á stakar sýningar kostar 1.400 kr. Sala á hátíðarpössum og klippikortum er þegar hafin á www.riff.is.
Þá er að finna frekari upplýsingar um allar myndir og viðburði á www.riff.is