Birt þann 23. ágúst, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins
0„Viðbrögðin hafa verið alveg gríðarlega jákvæð.“ Viðtal við Jóhann Inga hjá Lumenox Games
Lumenox Games er nýtt íslenskt leikjafyrirtæki sem hefur unnið hörðum höndum að gerð nýs tölvuleiks sem ber heitið Aaru’s Awakening. Við höfðum samband við Jóhann Inga Guðjónsson, markaðsstjóra fyrirtækisins, og spurðum hann betur út í leikinn og fyrirtækið.
Byrjum á því að kynnast ykkur aðeins betur. Hverjir eru þið og hver er ykkar bakgrunnur í stuttu máli?
Jóhann Ingi: Forritarar fyrirtækisins eru allir komnir úr HR og allir listamennirnir eru úr Animation Workshop í Danmörku. Fyrirtækið var stofnað af Burkna J. Óskarssyni, Ingþóri Hjálmarssyni og Tyrfingi Sigurðssyni úr HR og Ágústi Frey Kristinssyni úr Animation Workshop. Í dag eru 8 fastir starfsmenn hjá fyrirtækinu en allt í allt erum við 11 sem komum að Aaru’s Awakening.
Þið senduð frá ykkur nýja stiklu úr leiknum í mánuðinum, hvernig hafa viðbrögð fólks verið við stiklunni?
Jóhann Ingi: Viðbrögðin hafa verið alveg gríðarlega jákvæð. Við fengum mikla umfjöllun frá fjölmiðlum erlendis, síður eins og PC Gamer, MTV og Polygon fjölluðu um stikluna – sem að okkur þykir auðvitað frábært. Svo sér maður líka að það eru flestir ánægðir með þetta á Youtube.
Útlit leiksins er virkilega fallegt og um leið nokkuð sérstakt. Hefur mikil vinna verið lögð í að ná þessu sérstaka útliti?
Jóhann Ingi: Já það fer alveg gríðarlega mikil vinna í útlitið. Allt sem að sést á skjánum er upprunalega teiknað upp á pappír. Þetta tekur allt mikinn tíma, en þetta er eitthvað sem að okkur finnst gefa leiknum sjarma sem annars er erfitt að skapa.
Hvernig myndu þið lýsa leiknum fyrir öðrum? Út á hvað gengur leikurinn og hvernig er hann spilaður?
Jóhann Ingi: Aaru’s Awakening er handteiknaður, 2D platformer. Helsta aðgreining leiksins frá öðrum platformerum er sú að spilarar verða að nýta sér „teleportation“ hæfileika Aaru til að ljúka borðum. Aaru skýtur sál sinni úr líkama sínum og birtist svo á þeim stað sem hún er á.
Söguþráðurinn er snýr að því að jafnvægi Lumenox heimsins – sem er byggt upp af tímum sólarhringsins; Dawn, Day, Dusk & Night – er í hættu. Night, guð nætur, hefur í hyggju að eyðileggja þetta jafnvægi og taka yfir heiminum. Það er hlutverk Aaru, meistara Dawn guðsins, að ferðast í gegnum heim Lumenox og sigra Night.
Aðalkarakterinn í leiknum er með heldur sérkennilegt útlit. Hver er hann/hún og hver er baksaga hans/hennar?
Jóhann Ingi: Aaru er blanda af hana og górillu. Hann er „Champion of Dawn“ eða Meistari Dögunar, sem er guð í leiknum. Ágúst Freyr Kristinsson, sem fékk hugmyndina af Aaru, vildi nota dýr sem hægt væri að tengja við dögun. Það er augljósast að tengja hana við þann part dags, en það þykir kannski ekkert hrikalega töff að spila sem hani sem er að bjarga heiminum. Hann ákvað því að „stera“ hann aðeins upp og þannig kom út þessa skemmtilega blanda af górillu og hana.
Hvað hefur leikurinn verið lengi í vinnslu og hvaða forrit og forritunarmál hafið þið helst verið að nota við gerð hans?
Jóhann Ingi: Leikurinn hefur verið í vinnslu í rétt rúmlega ár núna, hann er unninn í Unity 3D vélinni og er skrifaður í C#.
Hafið þið komið áður að tölvuleikjagerð? Myndu þið segja að það sé flókið að búa til tölvuleik í dag?
Jóhann Ingi: Burkni J Óskarsson kom að Stafakörlunum í gamla daga, en annars er þetta nokkurn veginn frumtilraun allra í tölvuleikjasmíði. Með því að nota Unity 3D vélina er þetta mun einfaldara en þetta gæti verið. Það er samt gríðarlega mikil vinna sem fer í þetta, en það gæti haft mikið með fullkomnunaráráttu okkar að gera.
Nú hafið þið eflaust spilað marga mismunandi tölvuleiki í gegnum ævina. Sóttu þið innblástur frá öðrum leik? Hvaðan kom hugmyndin að leiknum?
Jóhann Ingi: Upprunalega var Aaru’s Awakening kallaður Relocator. Það voru tveir af stofnendum Lumenox Games sem að hönnuðu leikinn, með verkefni í huga sem að ætti að ljúka á nokkrum vikum og nýta í að stofna tölvuleikjafyrirtæki.
Grunnhugmyndin kom frá vopni í Unreal Tournament, Translocator, sem að skaut í kúlum sem gerði spilaranum kleift að teleporta sig á stað hennar. Þaðan kom hugmyndin um að Aaru gæti skotið sálinni úr líkama sínum og birst á þeim stað sem hún lendir.
Relocator verkefnið tók á rás þegar leikurinn vann Game Creator verðlaunin hérlendis, sem að gaf strákunum styrk til að stofna fyrirtækið. Eftir að fyrirtækið var stofnað var svo fundið hæfileikaríkan starfskraft og hafist handar á Aaru’s Awakening verkefninu.
Hvenær gerið þið ráð fyrir að leikurinn verði tilbúinn og fáanlegur í verslunum?
Jóhann Ingi: Framleiðslu ætti að ljúka mjög bráðlega og ætlum við að gefa hann út á Steam á fjórða ársfjórðungi þessa árs. Út frá því ætlum við að vinna að því að koma honum út á öðrum kerfum, eins og PlayStation, Xbox, Wii, iOS, Android og fleira.
Að lokum, einhver ráð til þeirra sem vilja búa til tölvuleiki, eða jafnvel stofna sitt eigið leikjafyrirtæki, en vita ekki hvar er best að byrja?
Jóhann Ingi: Prepare not to sleep………
Við þökkum Jóhanni Inga fyrir viðtalið og verður spennandi að fylgjast með þróun leiksins á komandi mánuðum.
Til gamans má geta að þá verður Aaru’s Awakening til sýnis í Hörpu á Menningarnótt þar sem áhugasamir geta fengið að prófa leikinn. Við bendum einnig á að hægt er að fylgjast með öllu því nýjasta tengt leiknum hér á Facebook síðu Aaru’s Awakening og hér á nýju Greenlight síðu leiksins.
Höfundur er Bjarki Þór Jónsson,
ritstjóri Nörd Norðursins.