Bækur og blöð

Birt þann 21. desember, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Bókarýni: Opinberun eftir Hugleik Dagsson

Opinberun er ný 60 blaðsíðna teiknimyndasaga eftir Hugleik Dagsson. Hugleikur Dagsson er einn af betri teiknimyndassagnahöfundum Íslands og dansar skemmtilega óvarlega meðfram línu kaldhæðninnar. Myndasögur hans eru þekktar fyrir að sjokkera, vekja umræðu og kynna lesendum fyrir grófum bröndurum. Ekkert er bannað. Allt er leyfilegt.

Í sögunni er sagt frá því þegar geimverur komast í upplýsingar sem við mannfólkið sendum út í geim. Gögnin voru sett á geisladisk og send frá jörðinni (eða „mold“ eins og geimverurnar kalla jörðina) árið 1988 og innihélt diskurinn mynd af forseta Bandaríkjanna, vinsælasta popplagi jarðar og Biblíuna, eða réttara sagt hluta úr henni. Þar sem það var ekki nógu mikið pláss á geisladisknum völdu þeir einungis „besta“ kaflann úr Biblíunni; Opinberunarbókina. Þegar geimverurnar finna gögnin fara þau að pússla hlutunum saman og er útkoman sannkallað súrealískt meistaraverk.

Sagan byggir að stórum hluta á raunverulegum texta úr Opinberunarbókinni, en kaflar úr henni fylgja einmitt með sem viðauki. Opinberun er listræn kristinfræði með húmor, eða eins og stendur aftan á bókinni:

Hefurðu heyrt um Biblíuna? Það er svona lífsstílsbók sem kennir manni að það er ljótt að stela og drepa og girnast nágranna sinn. Hún er líka full af alls kyns ævintýrum um fljótandi dýragarða, uppvakning með göt í lófunum og allsbert fólk sem talar við snáka. Sumt í Biblíunni er meira að segja svo geðveikt að það er ekki kennt í kristinfræði.

Þessi bók er um besta partinn af Biblíunni. Endinn.

Plús geimverur.

Ég tel þessa bók alls ekki gera lítið úr kristinni trú, en hún bendir aftur á móti réttilega á hversu ruglað helsta trúarrit kristinna er. Þarna er rauður dreki með sjö höfuð, hestar með ljónshöfuð og snákahala,  kona sem situr á dýri með sjö höfuð og tíu horn og önnur eins vitleysa. Það er góður leikur hjá Hugleiki að fá geimverurnar með í þetta, því þá þurfa jarðabúar að útskýra flest allt úr Biblíunni fyrir þeim (og lesandanum í leiðinni), sem gengur upp og niður.

Verk Hugleiks ná yfirleitt að kítla hláturtaugarnar í manni með súrelískri kaldhæðni sinni og piss-og-kúk húmor. Þrátt fyrir að vera opinn fyrir ýmiskonar bröndurum finnst mér Hugleikur einstaka sinnum fara yfir strikið, enda eiga verk Hugleiks að vera umdeild, það er eitt af því sem gerir þau enn skemmtilegri og áhugaverðari. Í Opinberun fannst mér hann þó aldrei ganga „of“ langt, en bókin býður upp á góða blöndu af hárbeittum húmor og uppfyllir auðveldlega þær kröfur sem lesendur setja til verka Hugleiks.

Það er ekki bara húmorinn sem heillar heldur er það einnig teiknistíll hans, sem er ótrúlega mínimalískur og saklaus. Þessi minna-er-meira stíll Hugleiks hentar mjög vel í kaldhæðnislega húmor hans þar sem lesandinn fær efnið beint í æð. Í Opinberun er mun meira um myndskreytingar en t.d. í Fermið okkur, Drepið okkur og Íslensk dægurlög en höfundurinn yfirgefur þó aldrei teiknistíl sinn sem minnir stundum á Cyanide & Happiness.

Það er skemmtileg tilbreyting að fá að lesa sögu eftir Hugleik, en eftir hann liggja margar bækur með engri sögu heldur frekar samansafni af sjálfstæðum bröndurum og fyndnum teikningum eða setningum. Í Opinberun fær lesandinn heilstæða sögu í hendurnar sem er ótrúlega fyndin og vel heppnuð. Það er gott flæði í sögunni sem er auðlesin og ekki ýkja djúp.

Í stuttu máli býður Opinberun upp á hágæða Hugleik. Eftir margar vel heppnaðar Okkur-bækur og stutta hnitmiðaða brandara kemur Hugleikur með nýja teiknimyndasögu sem inniheldur heildstæða sögu sem er bæði skemmtileg og fyndin. Í bókinni er horft kímnisfullum gagnrýnisaugum á Biblíuna og mannfólkið. Opinberun er klárlega ein af betri bókum Hugleiks og mæli ég hiklaust með þessari snilld. Ég meina, bókin inniheldur dópandi Jesú, sjö höfða skrímsli, geimverur og rass! Maður getur varla beðið um meira.

 

Myndir: Úr Opinberun / Hugleikur Dagsson á Facebook.

Tengt efni: Viðtal við Hugleik Dagsson á Rúv.is.

 

Höfundur er Bjarki Þór Jónsson,
ritstjóri Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑