Birt þann 11. október, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins
0RIFF spjall: Dario Argento
Fyrir þá sem misstu af tækifærinu að sjá og heyra í hryllingsmyndaleikstjóranum Dario Argento á RIFF kvikmyndahátíðinni er ég með smá sárabót. Ég náði einungis að vera viðstaddur á tveimur spurt og svarað sýningum, á Dracula 3D og Suspiria, og tók það upp á hljóðrænu formi. Þar sem Dario Argento er ekki sleipur í enskunni var erfitt að sjá heildarmyndina sem hann var að reyna að skýra fyrir okkur. Það var nokkuð um endurtekningar milli atburðanna og mun ég því stikla á því markverðasta sem kom fram á þessum sýningum ásamt öðrum almennum fróðleik um leikstjórann.
Hvað varðar Dracula 3D sagði Argento að hann hafði alltaf mikinn áhuga á sögunni um Dracula. Eftir að hann sá Hugo eftir Martin Scorsese og lært aðeins um tæknina varð hann sannfærður um að þetta gæti passað vel saman, Dracula og þrívíddartæknin. Honum fannst mjög gaman að taka myndina upp í þrívídd en veit þó að þrívíddin hentar ekki öllum myndum. Hann sagði að allar myndir í þrívídd væru áhugaverðar en engin meiri en Dial M for Murder eftir Alfred Hitchcock. Hann var staddur á hryllingsmyndaráðstefnu og þar voru sýndar gamlar myndir í þrívídd, þar á meðal sú mynd. Þessi mynd var tekin upp í þrívídd en aðeins sýnd í tvívídd þar sem það voru miklir erfiðleikar við að sýna myndir í þrívídd á þeim tíma. Þar sá hann þrívíddina notaða til að sýna dýpt frá vissum sjónarhornum en ekki þessa klisju sem einkennir þrívíddarmyndir í dag þar sem öllu mögulegu er kastað í áttina að myndavélinni og líkti hann því við brandara fyrir börn. Aðspurður hvar myndin hefði verið tekin sagði hann hana tekna upp að mestu leyti í Ungverjalandi og kastalinn og sitthvað annað í fjöllum norður Ítalíu. Hann fór tvisvar sinnum til Transylvaníu í Rúmeníu en þar voru kastalar annað hvort ónothæfir vegna skemmda eða ferðamannavæðingar. Hann kveðst hvorki trúa á vampírur né nornir en hefur gaman af sögunum, hjátrúnni og menningunni sem tengist þeim.
Eftir að Suspiria var sýnd spurði áhorfandi hvort litirnir væru réttir, þ.e.a.s. eins og þegar myndin kom út. Argento sagði að þetta væri nálægt en ekki alveg eins, litirnir hafa breyst í gegnum tíðina þegar myndin hefur verið gefin út á DVD og Blu-ray og nefndi að við höfðum verið að horfa á Blu-ray. Myndin var tekin uppá Kodak filmu, ASA 40, og þurfti hann að leita í Bandaríkjunum eftir henni þar sem hún var af skornum skammti enda hafði framleiðslu á filmunni verið nýhætt. Einnig var hætt að framkalla filmur með Technicolor tækninni og það var aðeins ein slík vél til í Róm á Ítalíu. Kostnaðurinn og framköllunartíminn á bakvið þessa tækni var ástæðan fyrir því að hætt var með Technicolor. Þeir grátbáðu þá um að halda í hana á meðan þeir voru að taka upp myndina. Um leið og þeir kláruðu myndina var vélin tekin í sundur og seld til Kína. Vegna þess að þeir voru með svo lítið af filmunni voru senurnar æfðar mörgum sinnum og aðeins teknar upp einu sinni, í sumum tilfellum tvisvar en aldrei meira en það. Litirnir í gömlu Disney teiknimyndinni Mjallhvít og dvergarnir sjö voru kveikjan að litagleðinni í Suspiria en sú mynd notaði Technicolor tæknina.
Litirnir í gömlu Disney teiknimyndinni Mjallhvít og dvergarnir sjö voru kveikjan að litagleðinni í Suspiria en sú mynd notaði Technicolor tæknina.
Upphaflega í handritinu voru stelpurnar í skólanum á bilinu níu til tólf ára en framleiðendur og dreifiaðilar voru á öðru máli og vildu hafa þær eldri. Samt sem áður breytti Argento ekki handritinu og hélt í þessa barnalegu hegðun hjá stelpunum eins og þegar ein stelpan rekur út úr sér tunguna í átt að annarri stelpu. Einnig staðsetti hann hurðarhúna í höfuðhæð svo þær litu út fyrir að vera minni. Ormarnir sem duttu frá loftinu í einu atriði voru hrísgrjón. Myndin var að mestu leyti talsett eftirá sem var vaninn við tökur á ítölskum myndum og því voru ekki allir sem töluðu ensku á mynd.
Ein kona spurði Argento hvers vegna aðalhetjurnar væru oftast konur í myndum hans og hans svar útaf því að þær eru heillandi. Hann smitaðist af þessari kvennhrifningu frá móður sinni frá unga aldri, en hún var ljósmyndari og var oft að taka myndir af leikkonum og fyrirsætum. Eftir skóla kom hann heim og oft var verið að taka myndir þegar hann kom í þennan undraheim kvenna. Andlitið á honum varð rautt ansi oft þegar þær voru að fara úr fötunum fyrir framan hann en þær kipptu sér lítið upp við það. Hann byrjaði að meta vinnu móður sinnar á þessum fallegu konum í gegnum lýsingu og förðun þar sem fegurðin og persónuleikinn hjá þessum konum skein í gegn.
Hann var spurður að því hverjir væru áhrifavaldarnir og hvaðan hann fengi innblástur. Á meðal leikstjóra nefndi hann Alfred Hitchcock og Ingmar Bergman og einnig nefndi hann breska kvikmyndaframleiðslufyritækið Hammer Films sem er hvað þekktast fyrir gothneskar hryllingsmyndir frá sjötta til áttunda áratugnum. Einnig hefur þýskur expressjónismi, sálgreiningar Sigmundar Freud og sögur eftir Edgar Allan Poe og H.P. Lovecraft. Frá unga aldri hefur hann alltaf verið með þessa dökku hlið, hann var mjög mikið einn, las sögur Poe og Lovecraft og horfði á gamlar hryllingsmyndir. Það er eitthvað heillandi við þetta allt saman, andrúmsloftið, myrkrið og illskan. Þegar hann skrifar handrit fyrir mynd er hann oft við gluggann að horfa út og finnst allt drungalegt útaf myrkrinu, vindinum og trjánum. Þrátt fyrir að vera inni í birtunni í ósköp venjulegu herbergi getur hann opnað sig, horft inn og skrifað frá dökku hliðinni.
Það barst tal um bandarísku endurgerðina af Suspiria sem er í bígerð og Argento er allt annað en sáttur við þær fréttir. Yfir höfuð er hann ekki hrifinn af þessari stefnu sem er allsráðandi í bandarískri kvikmyndagerð nú til dags þar sem allt snýst um peninga. Núna eru kvikmyndir ekkert nema fjárfestingar og listrænu gildi er hent útum gluggann. Hann er mun hrifnari af hryllingsmyndum sem eru að koma út í Frakklandi og Spáni uppá síðkastið. Einnig hefur hann mikið dálæti af asískum hryllingsmyndum sem eru oft sterkar og einfaldar draugasögur sem einblína á sálrænan hrylling.
Höfundur er Jósef Karl Gunnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.