Birt þann 17. júní, 2023 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson
0Sýnishorn úr Island of Winds á Xbox leikjakynningu
Undanfarin ár hefur íslenska tölvuleikjafyrirtækið Parity unnið að gerð ævintýra- og þrautaleiksins Island of Winds sem sækir innblástur meðal annars til íslenskrar náttúru og þjóðsagna. Fyrr í vikunni var sýnishorn úr leiknum sýnt á Xbox Games Showcase Extended leikjakynningunni (01:20:00) þar sem Island of Winds er einn þeirra leikja sem tengist Xbox Developer Acceleration Program en markmið Xbox Developer Acceleration Program er að auka samstarf og samvinnu við minni leikjafyrirtæki og framleiðslu indíleikja.
Parity lýsir Island of Winds með eftirfarandi hætti í viðtali við Xbox Wire:
„Island of Winds er ævintýra- og þrautaleikur sem gerist í töfrandi opnum heimi sem er fullur af verum úr íslenskum goð- og þjóðsögum. Ferðalag Brynhildar leiðir hana áfram í leit að lærimeistara sínum, Hrymja, og ferðast hún í gegnum stórbrotin landsvæði sem byggja á náttúrulegri fegurð íslenskrar náttúru. Brynhildur mun ferðast um fjölbreytt svæði, þar á meðal um hin logandi „Lava of Skjól“ til „Jökla lagoon“ og „Obsidian Shore“. Brynhildur hittir merkar verur á ferðalagi sínu, þar á meðal hina kraftmiklu og tignarlegu Hafgúu, eða „Bear King“ – verndara sjósins. Spilun Island of Winds byggir að miklu leyti á fundi þessara vera í leiknum, og er settur fókust á söguríka upplifun, fróðleik, og áhugaverðar þrautir. Galdrar, bardaga- og sérstakur samúðar-möguleiki verða aðgengilegir spilaranum þar sem hann þarf að vera fljótur að ákveða hvort málin eiga að vera leyst með ofbeldisfullum eða friðsamlegum hætti.“
Parity eru afar jákvæð með samstarf sitt við Xbox Developer Acceleration Program sem hafi fyrst og fremst tengst stuðningi Xbox við smærri fyrirtæki og aðstoðað við að gera leiki þeirra sýnilegri fyrir spilurum. Framundan eru spennandi tímar fyrir Parity þar sem Island of Winds verður á Steam Nest Fest síðar í júní og verður útgáfudagur leiksins tilkynntur fljótlega eftir það. Auk þess kemur fram í viðtali Parity við Xbox að Þjóðminjasafnið í samstarfi við Parity sé að vinna að uppsetningu sýningar á listaverkum og munum sem er að finna í leiknum.
Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni á heimasíðu Xbox Wire.