Birt þann 2. júní, 2023 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson
Joy-Con fjarstýringar væntanlegar í pastel litum
Klassíska parið af Joy-Con fjarstýringunum sem fylgir hefðbundnu útgáfunni af Nintendo Switch leikjatölvunni samanstendur af einni rauðri og einni blárri fjarstýringu. Hægt er að kaupa fjarstýringarnar í öðrum litum sem sækja gjarnan innblástur úr þemu tölvuleikja eða mismunandi litasamsetningum. Nintendo tilkynnti fyrir stuttu að ný litasamsetning væri væntanleg á Joy-Con fjarstýringarnar nú í sumar. Nýja útlitið samanstendur af tveim pörum, eða alls fjórum fjarstýringum, í mismunandi pastel litum. Fyrri pakkinn inniheldur eina pastel bleika vinstri fjarstýringu og aðra pastel gula hægri fjarstýringu. Seinni pakkinn inniheldur pastel fjólubláa vinstri fjarstýringu og pastel græna hægri fjarstýringu.
Pastel útgáfurnar eru væntanlegar í verslanir þann 30. júní en eru nú þegar uppseldar á My Nintendo Store vefversluninni. Verðið á pastel fjarstýringunum er það sama og á hefðbundnum Joy-Con fjarstýringum erlendis, eða 79,99 Bandaríkjadalir, en á Íslandi er parið af fjarstýringum að kosta í kringum 15.000 kr.
Mynd: Nintendo