Fréttir

Birt þann 6. júní, 2023 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Apple kynnir nýjan búnað fyrir blandaðan veruleika

Apple kynnti nýjan búnað í gær á hinni árlegu WWDC ráðstefnu fyrirtækisins. Búnaðurinn er fyrir blandaðan veruleika (MR, einnig kallað Spatial Computing) og ber nafnið Vision Pro. Það má segja að blandaður veruleiki sé einskonar framhald af þeirri þróun sem hefur átt sér stað undanfarin ár á sviði sýndarveruleika (VR) og gagnaukins veruleika (AR) þar sem blandaður veruleiki býður upp á að blanda hinum raunverulega heimi við þann stafræna. Þannig getur notandinn sem dæmi sest niður og sett upp stafræna vinnuaðstöðu (skjái, öpp og fleira) án þess að loka sig frá umhverfinu í kringum sig, líkt og sýndarveruleiki yfirleitt gerir.

Það má segja að blandaður veruleiki sé einskonar framhald af þeirri þróun sem hefur átt sér stað undanfarin ár á sviði sýndarveruleika (VR) og gagnaukins veruleika (AR) þar sem blandaður veruleiki býður upp á að blanda hinum raunverulega heimi við þann stafræna.

Vision Pro er einstaklega öflugur búnaður miðað við það sem sést hefur hingað til á almennum markaði. Tækið inniheldur háskerpumynd þar sem notast er við micro-OLED skjá sem inniheldur 23 milljónir pixla og býður upp á yfir 4K upplausn fyrir hvort auga fyrir sig. Hægt er að ná augnsambandi við notendur búnaðurins ólíkt hefðbundnum sýndarveruleikabúnaði sem lokar alveg á slíkt. Óljóst er hvort búnaðurinn sé að hluta til gegnsær þannig að augun eru sýnileg eða hvort myndavélar sem staðsettar eru inni í búnaðnum mynda augu notandans og birta á skjá sem eru þá utan á gleraugunum. Vision Pro inniheldur einnig innbyggð heyrnartól, tvo kraftmikla örgjörva (M2 og R1) og myndavélar og skanna sem skynja umhverfið í þrívídd ásamt því að skynja svipbrigði notandans, sem er hægt að tengja við sinn gengil (avatar) sem sýnir sömu svipbrigði.

Vestrahorn kemur fyrir í Vision Pro kynningarmyndbandinu frá Apple

Vision Pro kemur á markað á næsta ári og mun kosta 3.499 Bandaríkjadali, eða í kringum hálfa milljón íslenskra króna.

Nokkur dæmi voru tekin um hvernig hægt er að nota búnaðinn. Til dæmis er hægt að nota búnaðinn til að skoða myndir, myndbönd, kvikmyndir, vinnuaðstöðu og til að kúpla sig úr raunveruleikanum til dæmis með því að gera nokkrar slökunaræfingar. Einnig er hægt að dást af fallegum myndum, líkt og kom fram í kynningarmyndbandinu þar sem Vestrahorn (við Stokksnes) var notað sem dæmi.

Vision Pro kemur á markað á næsta ári og mun kosta 3.499 Bandaríkjadali, eða í kringum hálfa milljón íslenskra króna. Verðmiðinn þykir mjög hár en á sama tíma hefur jafn fjölbreyttur og öflugur VR/AR búnaður ekki verið fáanlegur á almennum mörkuðum til þessa.

Mynd: Skjáskot úr Vision Pro kynningarmyndbandinu (Apple á YouTube)

Deila efni

Tögg: , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑