Leikjarýni

Birt þann 7. desember, 2022 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson

0

Heilalaus hasar

Heilalaus hasar Sveinn A. Gunnarsson

Samantekt: Heilalaus hasar sem skilur ekki mikið eftir en ánægjuna og það er nóg.

3.5

Blóðugt fjör


Þegar er litið á Evil West þá fær maður það á tilfinninguna að leikirnir Bulletstorm, Gears of War, God of War og Damnation hafi eignast afkvæmi í formi leiks sem myndi hæfa sér vel á PlayStation 2 á sínum tíma.

Það er ljóst að pólska fyrirtækið Flying Wild Hog (Hard Reset, Shadow Warrior) var með hugann við eldri leiki og einfaldari spilun sem horfði minna til risa hæfileika-trjáa, opins heims og ótal aukaverkefna. Í staðinn er bara hasar, blóð, skrímsli og sletta af Steam Punk tækninni.

Sagan gerist í Bandaríkjunum í lok 19. aldar þar sem tækninni fleygir ört fram og villta vestrið er á undanhaldi. Í þessum heimi fara leikmenn í fótspor Jesse Rentier sem vinnur fyrir Rentier stofnunina sem faðir hans leiðir. Hún verndar Bandaríkin fyrir yfirnáttúrulegum öflum og ógnandi skrímslum. Varúlfar, vampírur og önnur skrímsli eru elt uppi og tortímt á sem blóðugastan hátt.

Auðvitað fara hlutirnir fljótt úrskeiðis og Jesse þarf, ásamt vinum sínum, að stöðva þá ógn sem er í gangi áður en öll Bandaríkin og að lokum allur heimurinn  verða undir henni

Sagan minnir mann á B-mynd en það á vel við viðfangsefnið. Persónur leiksins eru að mestu klisjur sem maður hefur séð oft áður sem virkar þó fyrir leikinn.

Sagan vinnur engin verðlaun en hún þarf þess heldur ekki enda verkfæri til að skila hasarnum áfram og það er kjarni leiksins.

Leikurinn er þriðju persónu hasar  með slagsmálakerfi þar sem Jesse notast við Rentier hanskana til að berja á óvinunum. Þú getur síðan uppfært þá þegar líður á leikinn. Eins og í God of War leikjunum þá sveiflast persóna þín á milli óvinanna og skilur eftir sig blóðpollana og líkamsleifarnar af skrímslunum. Það eru síðan nokkur vopn sem þú hefur aðgang að s.s. skammbyssa, rifill, haglabyssa, eldvarpa o.fl. sem er einnig hægt að uppfæra.

Ég bjóst í fyrstu við að þetta væri meira skotleikur en í stað þess var maður að berja skrímslin í klessu. Heppilega er þetta  andskoti gaman og þegar þú ert búinn að uppfæra þig aðeins þá eykst skemmtanagildið.

Bardagar leiksins eru þó ekkert auðveldir, sérstaklega í síðari hluta leiksins og er leikurinn að horfa aðeins til eldri leikja með slíkt. Heppilegt er að það er fínt „auto-save“ kerfi í leiknum. Best er auðvitað að spila leikinn með öðrum í co-op enda mesta fjörið. Leikurinn er þó vel stilltur upp á erfiðleika ef maður vill spila í gegnum hann ein/n.

Leikurinn kom út fyrir PlayStation 4, PlayStation 5, Xbox One, Xbox Series X/S ásamt PC þar sem ég spilaði í gegnum leikinn á Steam. Leikurinn keyrir á Unreal Engine 4 grafíkvélinni og lítur að mestu vel út. Sum borð leiksins eru stór og flott að sjá en það þarf ekki að spila  lengi heldur til að sjá annmarka leiksins í útliti. 

Hann keyrði fínt að mestu á Nvidia Geforce 3080Ti korti í 4K upplausn og hélt 60fps frekar vel en það var þó eitthvað smá um hökt og leikurinn hrundi alveg 1-2 hjá mér.

Borð leiksins eru hæfilega fjölbreytt, allt frá eyðilögðum vestraþorpum fullum af skrímslum, olíu vinnusvæðis, náma til drungalegra rústa og snævi þakinna rannsóknarstöðva. Þau eru passlega löng svo maður er ekki kominn með leið á þeim áður en þú kemur að næsta svæði. Á sumum þeirra er endakall sem þú þarft að eiga við til að komast áfram og sumir eru pínu flottir að sjá. Það eru stundum litlar umhverfis þrautir sem þarf að leysa en þær eru sjaldan eitthvað flóknar. Helstu tilfellin eru að færa þarf einhvern hlut til að komast áfram eða leiða rafmagn áfram til að opna hurð.

Fyrir þá sem eru viðkvæmir fyrir pöddum og kóngulóm þá er stilling í leiknum sem slekkur á því versta. Því miður er ekkert slíkt í boði fyrir þá sem hata að sjá slímugar pöddur og orma. Það er yfirdrifið nóg af þeim í leiknum

Það tekur um 8-12 tíma fyrir flesta að klára leikinn og við tekur New Game+ ef þér langar að halda áfram að spila og reyna að finna það litla auka dót sem er í boði.

Það sem stóð upp úr að mínu mati í leiknum voru bardagar hans og engin óþarfa „fluff“ eða aukadót til að lengja leikinn. Meira er ekki endilega alltaf betra að mínu mati.

Fyrir mér er Evil West svona „dumb-fun“ leikur, eitthvað sem þú getur sest niður við og spilað í nokkra tíma einn eða með öðrum í co-op og fengið smá útrás. Stundum er það einmitt það sem maður þarf til að losa um og slaka á.

Það hjálpar líka til að leikurinn er aðeins ódýrari og kostar um 7-8 þúsund krónur eftir því hvort að þú kaupir á leikjavélum Sony og Microsoft eða á PC. Hvað þá ef að hann dettur á útsölu. Hann er ekki endilega fyrir alla, en þeir sem vilja slaka á, hvíla heilann og kála skrímslum þá er Evil West góð skemmtun.

Eintak var í boði útgefanda 

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Comments are closed.

Efst upp ↑