Birt þann 3. nóvember, 2022 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson
0Lítil skref, í rétta átt
Samantekt: Góð framistaða en fáar stórar breytingar
4
Lítið stökk
Eins reglulegt það er að haust fylgi sumri, þá er hægt að treysta á það að nýr Football Manager komi út þegar er liðið á nýtt fótboltatímabil á haustin. Þetta ár er auðvitað engin undantekning. Football Manager 2023 kemur út þann 8. nóvember á PC/Mac. Leikurinn kemur einnig út fyrir PlayStation 5 og Xbox Series X|S ásamt síma og spjaldtölvur.
Við munum einblína á PC útgáfuna og hinar seinna. Þessi gagnrýni byggir á betu leiksins sem er búin að vera í gangi síðustu vikurnar fyrir pressuna og þá sem forpöntuðu leikinn.
Það er auðveldast að byrja á hvað er nýtt í FM 23. Gervigreind leiksins í spilun og hreyfingar leikmanna hafa fengið stóra uppfærslu og talar SI Games framleiðandi leiksins um að gervigreind tölvustjórnaða stjóra leiksins hafi verið endurskrifuð frá grunni til að líkja meira eftir hegðun og þeirra. Hvernig lið spila án boltans hefur verið endurbætt líka og er kafað dýpra í þær stillingar í leiknum og hvernig er best að stilla upp liðinu og bregðast við spilun mótherjanna. Ekki er lengur bara hægt að nota rangstæðugildru stillinguna og vona það besta. Markmenn hafa fengið uppfærslu í ár og hegða sér raunverulegra í hvernig þeir höndla boltann og verja hann.
Squad Planner í ný viðbót við leikinn og hjálpar þér að skipuleggja þig í framtíðinni og hvernig plön þín fyrir leikmenn, eldri og yngri, eiga að vera yfir nokkur tímabil. Ungi leikmaðurinn sem þú fékkst frá Brasilíu er kannski ekki tilbúinn í aðaliðið á fyrsta tímabilinu en þú kannski notar skipulagið til að aðlaga hann að hægt í liðið, nota hann af bekknum á öðru tímabili og kannski ógna eldri leikmönnum og stöðum þeirra á því þriðja.
Experience Matrix er önnur viðbót sem hjálpar þér að sjá hvaða leikmenn er upprennandi stjörnur, hverjir eru stjörnur liðsins núna, og hverjir eru góðir reynsluboltar til að kenna þeim yngri, og síðan hverja á að selja.
Eitt af því sem gleður líklega unnendur fótboltans mikið er að leikurinn er nú með opinber leyfi frá UEFA knattspyrnusambandinu til að nota, merki, nöfn keppna, myndefni og tónlist í Meistaradeildinni og Evrópu keppnunum.
Þetta ásamt útliti og viðmóti keppnanna hjálpa til að skapa þetta eftirminnilega andrúmsloft sem myndast oft þegar að stærstu félagslið Evrópu mætast á vellinum. Þegar leikmenn eru komnir á þriðja tímabil leiksins þá mun nýja keppnisfyrirkomulag meistaradeildarinnar koma til leiks.
Í stað riðlakeppnanna sem fólk kannast við þá er þetta líkara deildarkeppni þar sem liðin mæta hverju öðru ákveðið oft áður en riðlakeppni tekur við fyrir þau efstu. Það tekur smá tíma að venjast þessum breytingum og verður forvitnilegt að sjá hvernig þetta kemur út fyrir liðin í leiknum og í raunveruleikanum eftir nokkur ár.
Með Supporters Confidence er nú auðveldara að sjá hvernig stuðningsmenn klúbbsins taka kaupum þínum og sölum á leikmönnum, úrslitum á vellinum og auðvitað hvort að þú ert að ná að skila titlum í hús. Það er nú hægt að sjá hvernig aðdáendur liðsins sem þú stjórnar skiptast niður, t.d hve margir eru harðir stuðningsmenn, hverjir eru fjölskyldufólk ofl. Þetta getur oft munað miklu á milli stórra klúbba eins og Liverpool sem er með stuðningsmenn um allan heim eða Bromley sem er í neðri deildum Englands og treystir meira á heimafólk og þá tekjuminni til að mæta á leiki þess.
Helstu breytingar á liðum, reglum og skipulagi víðs vegar um heiminn er að finna í leiknum, þar á meðal uppfærðu innskiptingarregluna í Englandi. Nú er hægt að skipta inn á 5 leikmönnum í stað þeirra 3 sem hefur lengi verið við lýði.
Það skortir ekki tölfræðiflóðið í leiknum, enda hefurr serían lengi verið þekkt fyrir að vera „Excel fótboltans“ þar sem tölurnar flæða um skjáinn og leikmenn þurfa oft að ímynda sér vissa hluti í stað þess að sjá þá.
Skemmtileg viðbót í ár er Manager timeline sem sýnir alla þá velgengni þú vinnur þér inn, helstu kaupin, sigra og töp, verðlaun og titla í lok hvers tímabils. Það er gaman að skoða þetta og sjá hvað hefur staðið upp úr hjá manni í og hvað má auðvitað gera betur, ef að allt fór á versta veg.
Gagnrýnin við flesta íþróttaleiki sem á við FM 23 líka, er að þegar við erum að fá árlega leiki þá er oft erfitt að koma með stórar og rótækar breytingar á leikjunum. Oft eru þetta í stað smærri breytingar sem oft koma ekki fullkomlega í ljós fyrr en maður hefur sökkt tugum ef ekki hundruðum tímum í leikinn. Það getur stundum verið strembið að sjá mikinn mun á milli ára í svona leikjum og það er margt sem pirraði mig við eldri FM leiki sem er enn til staðar í þeim nýjasta. Ég hef lengi verið að vonast eftir að þrívíddar grafíkvél leiksins fái aðeins meiri uppfærslu. Það er enginn að ætlast til þess að FM serían skyndilega líti út eins og FIFA leikir EA Sports en það væri þó gaman að sjá aðeins raunverulegri útlit leikmanna, vallanna og slíks til að draga mann en meira inn í þessa upplifun.
Eitt af því sem ég var að vonast til að yrði í FM 23 var kvennafótboltinn og maður gæti stjórnað þeim félagsliðum í Englandi og annar staðar. Því miður er það ekki þetta árið en margt bendir til að leikurinn á næsta ári verði sá fyrsti til að innihalda þá spilun. FIFA 23 er með smávegis af þessu í ár, en ekki mikið þó. Uppgangur kvennafótboltans síðustu árin hefur verið mikill og var Evrópukeppnin í ár gríðarlega vinsæl og hefur einnig orðið mikið stökk í áhorfendatölum á völlum Englands sem og áhorf í sjónvarpi. Það er víst alltaf FM 24 til að kynna þetta til leiks og vonandi kemur það vel út.
Football Manager 2023 er ekki leikur fyrir alla, það er fljótlega ljóst þegar er horft yfir hafsjó tölfræði á skjánum, tugþúsunda nafna leikmanna um allan heim og að reyna að átta sig á hvernig er best að slípa taktík leiksins svo að liðið þitt hættir að láta leka inn mörkum. Þetta er líka ákveðinn sjarmi seríunnar og það sem fær mann til að sökkva ótal tímunum í spilun leiksins t.d. í að kynna sér næsta Messi í 3. deildinni í Póllandi sem maður verður að vera snöggur að kaupa og byggja liðið sitt í kringum. Taka lið frá botni spænsku deildarinnar yfir í lið sem ógnar stórveldi Real Madrid og Barcelona eða kannski taka við heimaliðinu manns og reyna að gera eitthvað skemmtilegt með það. Hæðir og lægðir fótboltans er einmitt ein stærsta ástæðan að maður spilar þessa leiki.
Mér er ekki ætlað að vinna Liverpool í vító
FM 23 er ekki bylting þetta árið en þetta er góður grunnur sem vonandi leiðir til enn meira spennandi leiks á næsta ári. Fyrir þá sem vilja einfaldari spilun þá er FM 23 Console útgáfan eða síma- og spjaldtölvuútgáfurnar líklega fínar að hoppa á fyrir þá sem hafa ekki jafn mikinn tíma að sökkva í svona leiki.
Hafið mig afsakaðan, ég þarf að reyna að koma Bromley liðinu mínu úr Vanarama deildinni, á meðan ég vonast eftir að KF úr Fjallabyggð ná að komast í Inkasso deildina einn daginn.
Eintak var í boði útgefanda