Birt þann 17. júní, 2022 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson
0Bethesda óskar Íslendingum til hamingju með þjóðhátíðardaginn
Tölvuleikjafyrirtækið Bethesda birti í dag færslu á Facebook þar sem þeir fagna þjóðhátíðardegi Íslendinga.
Tölvuleikjafyrirtækið Bethesda birti í dag færslu á Facebook þar sem þeir fagna þjóðhátíðardegi Íslendinga. Með færslunni fylgir mynd af Colt, Julianna og Aleksis úr tölvuleiknum Deathloop þar sem þær slappa af og njóta lífsins í Bláa lóninu á Íslandi. Himininn er þakinn björtum norðurljósum og mynda litirnir íslenska fánann.
Myndin er eftir sænsku listakonuna Petru Brandström og ákváðum við að heyra aðeins í henni og spyrja hana nánar út í myndina og verkin hennar. Petra býr í Gautaborg í Svíþjóð og starfar þar sem listamaður og teiknari. Um þessar mundir er hún aðallega að búa til verk sem tengjast tölvuleikjum fyrir Bethesda Nordic og er einnig að taka að sér verkefni fyrir útgefendur hlutverkaspila í Svíþjóð.
Petra heimsótti Ísland með fjölskyldu sinni árið 2006 og segist hafa heillast af landinu. Við spurðum Petru hvað hefði staðið upp úr í ferðinni. „Við fórum í reiðtúr þar sem við sáum stórbrotið landslag og böðuðum okkur í náttúrulaugum. Mér fannst bæði náttúran og fólkið vera mjög tilkomumikið og mér leið mjög vel á Íslandi. Eitt af því allra besta þó.. af hreinni tilviljun, þá vorum við í Reykjavík þegar Sigur Rós voru með tónleika þar, þannig ég fékk að sjá eina af mínum uppáhalds hljómsveitum spila á heimavelli. Það var epískt.“
Hún málaði myndir að tilefni 10 ára afmælis Skyrims þar er ein mynd þar sem sést í vígalegan Flame Atronachs og er eldgosið í Geldingadölum í bakgrunni og íslenski fáninn dreginn að húni.
Petra hefur áður gert verk þar sem Ísland kemur fyrir sjónir. Hún málaði myndir að tilefni 10 ára afmælis Skyrims þar er ein mynd þar sem sést í vígalegan Flame Atronachs og er eldgosið í Geldingadölum í bakgrunni og íslenski fáninn dreginn að húni. Fleiri myndir er að finna á heimasíðu Petru þar sem hún hefur málað verur úr Skyrim sem eru að heimsækja raunverulega staði á Norðurlöndunum. „Ég er svakalegur sæfæ og fantasíu aðdáandi, svo flestir staðir sem ég teikna eða mála eru skáldaðir upp. Það hefur verið mjög skemmtileg tilbreyting að færa sig nær raunveruleikanum, að bæta tölvuleikjapersónum við raunverulega staði.“
Hægt er að skoða fleiri verk á heimasíðu Petru, á Facebook, Instagram og Twitter. „Verkin mín eru afar fjölbreytt, en ég togast yfirleitt í átt að fantasíu og sæfæ, sögur og þjóðsögur. Og ég elska að mála dreka.“
Petra endar viðtalið á hinum fögru orðum „Happy gaming, and happy Þjóðhátíðardagurinn!“