Birt þann 9. mars, 2022 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson
Risastór tölvuleikjapakki til styrktar Úkraínumönnum
Tölvuleikjahönnuðir hafa snúið bökum saman vegna innrásar Rússa í Úkraínu og hafa hrint af stað hjálparsöfnun. Um er að ræða sérsmíðaðan tölvuleikjapakka sem inniheldur alls 992 tölvuleikjatitla sem er andvirði í kringum 860.000 kr. Þessi tæplæega þúsund titla leikjapakki fæst nú á 1.400 kr, eða 10 Bandaríkjadali, en kaupendur geta keypt pakkann á dýrara verði óski þeir eftir því að veita samtökunum hærri styrk.
Ágóði sölunnar rennur til samtakanna International Medical Corps sem veitir Úkraínumönnum læknisaðtoð og Voices of Children sem aðstöðar börn við að ráða við ýmiskonar áföll sem þau verða fyrir vegna stríðsins.
Nú þegar hafa safnast yfir tvær milljónir dala en stefnt er á að ná fjórum milljónum, eða um 530 milljónum íslenskra króna (miðað við núverandi gengi). Í leikjapakkanum er að finna titla á borð við GoNNER, SUPERHOT, Baba Is You, Celeste, Jotun, Hidden Folks, Cloud Gardens, Backbone og Skatebird. Allir leikirnir eru aðgengilegir á itch.io og lýkur söfnunnni föstudaginn 18. mars.