Greinar

Birt þann 5. desember, 2021 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Vilhelm Smári heimsótti Super Nintendo World og hitti Mario og Luigi – „Algjörlega heimsóknarinnar virði“

Vilhelm Smári Ísleifsson, verkefnastjóri hjá tölvuleikjafyrirtækinu Capcom í Japan, heimsótti á dögunum Super Nintendo World skemmtigarðinn með fjölskyldu sinni. Hann deildi nokkrum skemmtilegum myndum frá heimsókninni á Nintendo Ísland á Facebook og í framhaldinu settum við okkur í samband við Vilhelm og spurðum hann nánar út í ferð sína í skemmtigarðinn.

Það má því segja að Super Nintendo World sé einskonar Disney World Nintendo-spilarans. Þess má geta að þá tók Shigeru Miyamoto, skapari Marios, þátt í því að hanna Super Nintendo World skemmtigarðinn.

Super Nintendo World er fyrsti skemmtigarður sinnar tegundar en áform eru um að opna fleiri staði á næstu árum, þar á meðal í Singapore, Los Angeles og Orlando í Bandaríkjunum. Í Super Nintendo World eiga Nintendo-spilarar eftir að sjá kunnugleg andlit úr tölvuleikjaheimi Nintendo, þar á meðal bræðurnar Mario og Luigi, hinn vinalega Yoshi og sveppinn Toad. Í garðinum er einnig að finna skemmtitæki, verslanir og veitingar sem er svo tvinnað saman við töfrandi tölvuleikjaheim Nintendo. Það má því segja að Super Nintendo World sé einskonar Disney World Nintendo-spilarans, nema minna. Þess má geta að þá tók Shigeru Miyamoto, skapari Marios, þátt í því að hanna Super Nintendo World skemmtigarðinn.

En hvað kom til að þú ákvaðst að skella þér?

Þar sem eldri sonur minn er nú rúmlega tveggja ára og við höfum verið að hýrast heima síðan yngri sonurinn fæddist ákváðum við að skella okkur í stutt „staycation“ og kíkja í garðinn.

Vilhelm: Ég hef búið í og í kringum Osaka í næstum því áratug og Universal Studios Japan er hérna í borginni. Super Nintendo World opnaði í garðinum í mars (febrúar fyrir þá sem hafa árspassa) og ég hafði alltaf stefnt á að kíkja á svæðið, en vegna kórónuvírussins sem og óléttu konunnar minnar þá gat ég einfaldlega ekki komist fyrr. Þar sem eldri sonur minn er nú rúmlega tveggja ára og við höfum verið að hýrast heima síðan yngri sonurinn fæddist ákváðum við að skella okkur í stutt „staycation“ og kíkja í garðinn.

Hvernig er stemningin þarna?

Vilhelm: Ég myndi segja að stemmningin væri bara frekar góð miðað við að þetta er vinsæll skemmtigarður sem fær 10 þúsund gesti á hverjum degi. Þar sem Super Nintendo World er tiltölulega nýtt svæði í garðinum þá er það einnig það vinsælasta. Að fara þangað eftir klukkan 9 um morguninn (sem er „opinber“ opnunartími garðsins, en hann er oftast opnaður 30-60 mínútum fyrr), þá þarftu að taka miða og bíða eftir að geta komist á svæðið. Við vorum frekar snemma á ferðinni, um kl. 8:30 fyrir hádegi, svo við komumst inn á svæðið vandræðalaust, en það var nú þegar frekar þéttsetið.

Hönnun svæðisins tekur eftir borðum úr Super Mario leikjunum. Maður byrjar á að fara í gegnum grænt rör og á enda þess er maður staddur í forstofu kastala Peach prinsessu,

Hönnun svæðisins tekur eftir borðum úr Super Mario leikjunum. Maður byrjar á að fara í gegnum grænt rör og á enda þess er maður staddur í forstofu kastala Peach prinsessu, en tvö portrett sem allir Mario aðdáendur ættu að þekkja eru á öðrum hvorum veggnum þar. Þegar maður fer út mætir manni svo svæðið sjálft þar sem kastali óþokkans Bowser, alls konar hæðir með koopas og goombas þar á ferð og svo auðvitað Mario fánapóll á hæstu hæðinni.

Hægt er að kaupa armband sem gerir þér kleift að safna peningum og klára þrautir í kringum svæðið. Þá er hægt að hitta þekktar persónur eins og bræðurna Mario og Luigi, Peach prinsessu og Toad ef maður er heppinn.

Í Super Nintendo World eru tvö skemmtitæki, annars vegar Mario Kart sem er „augmented reality“ skemmtitæki á teinum, og hins vegar Yoshi’s Adventure þar sem fólk getur sest á Yoshi og farið í smá ævintýraferð fyrir Toad kaftein sem tekur mann í stutta ferð í kringum garðinn.

Í Super Nintendo World eru tvö skemmtitæki, annars vegar Mario Kart sem er „augmented reality“ skemmtitæki á teinum, og hins vegar Yoshi’s Adventure þar sem fólk getur sest á Yoshi og farið í smá ævintýraferð fyrir Toad kaftein sem tekur mann í stutta ferð í kringum garðinn. Yfirleitt eru 60-120 mínútna bið í tækin, en þar sem við vorum snemma á ferðinni og þar sem þetta var fyrsta ferðin með fjölskylduna í Universal Studios Japan þá tók ég eldri strákinn minn í sitt fyrsta skemmtitæki, Yoshi’s Adventure. Mario Kart verður að bíða betri tíma.

Einnig eru minjagripaverslanir og veitingastaður á svæðinu fyrir þá sem nenna að bíða og vilja eyða nokkrum þúsundköllum í mat sem ætti að vera öllum skemmtigarðsgestum þekktir… litlir og hugsanlega góðir réttir fyrir hátt verð. Það er rosalega gaman að skoða svæðið og taka allt inn í sig, en á endanum er þetta skemmtigarður með öllum sínum plúsum og mínusum. Ég hafði gaman að, en á mínum aldri er ég frekar að kíkja þangað fyrir krakkana mína frekar en fyrir sjálfan mig.

Hvað stóð upp úr?

Vilhelm: Líklega þegar við fengum að hitta og taka mynd með Mario og Luigi. Eldri sonur minn þekkir Mario, en þetta voru hans fyrstu kynni af Luigi og einhverra hluta vegna varð hann rosalega heillaður af honum við myndatökuna. Ég hlakka til að kíkja inn á svæðið aftur í framtíðinni og skapa fleiri góðar minningar.

Ég hlakka til að kíkja inn á svæðið aftur í framtíðinni og skapa fleiri góðar minningar.

Er þetta dýr staður?

Vilhelm: Dagpassi inn í garðinn kostar um 8.200 yen (ca. 9.400 kr.) fyrir fullorðna og 5.600 yen (ca. 6.400 kr.) fyrir börn á aldrinum 4-12 ára. Það kostar ekkert aukalega inn á Super Nintendo World svæðið, en þeir sem vilja eiga minningar eins og myndir með hetjunum sínum eða flott úr þurfa að vera duglegir að opna veskið og helst hafa jafn mikinn pening og þeir borguðu inn í garðinn til þess að njóta garðsins til fulls. Fyrir þá sem vilja minnka raðirnar, sem geta verið allt að 3ja tíma langar, er hægt að kaupa express-passa en hann kostar aukalega og kostar ódýrasti passinn rúmlega 5.000 kr.

Mælir þú með skemmtigarðium fyrir aðra?

Eins og með svipaða skemmtigarða í kringum heiminn þá gerir hann gat á veskið, en maður er að borga fyrir upplifunina og fyrsta heimsókn á nýtt svæði er eitthvað sem er rosalega spennandi upplifun.

Vilhelm: Ég mæli sterklega með skemmtigarðinum fyrir ungt fólk og fólk með börn, sem myndi líklega dekka ágætis hluta þeirra sem að almennt myndu ferðast alla leiðina frá Íslandi til Japan. Eins og með svipaða skemmtigarða í kringum heiminn þá gerir hann gat á veskið, en maður er að borga fyrir upplifunina og fyrsta heimsókn á nýtt svæði er eitthvað sem er rosalega spennandi upplifun. Algjörlega heimsóknarinnar virði.

Við þökkum Vilhelm kærlega fyrir viðtalið. Áhugasamir geta kynnt sér Super Nintendo World nánar á heimasíðu skemmtigarðsins.

Forsíðumynd (myndblanda): YouTube og Vilhelm Smári
Myndir úr Super Nintendo World: Úr einkasafni VSÍ

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑