Leikjarýni

Birt þann 9. desember, 2020 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson

Goð og fjölskyldudrama

Goð og fjölskyldudrama Sveinn A. Gunnarsson

Samantekt: Fenyx nær að skapa sinn eigin stíl í skemmtilegu ævintýri á meðan fá lánað úr ýmsum áttum.

3.5

Zelda klón?


Einkunn lesenda: 2.5 (1 atkvæði)

Hvað myndi gerast ef að Assassin’s Creed serían frá Ubisoft og The Legend of Zelda frá Nintendo myndu sameinast í einum  tölvuleik? Það er ekki ólíklegt að útkoman yrði eitthvað svipað og Immortals: Fenyx Rising.

IFR, eins og ég mun nota framvegis í textanum, er leikur sem spratt upp úr vinnu Ubisoft Quebec við AC Odyssey fyrir nokkrum árum síðan. Leikurinn var fyrst kynntur á E3 2019 ráðstefnunni sem Gods and Monsters en fékk ári síðar nafnið  Immortals: Fenyx Rising. Ubisoft sagði að breytingin væri til að undirstrika áherslu á Fenyx persónuna sem hetju leiksins en það er líklegt að kvörtun frá orkudrykkja framleiðandanum Monster hafi líklega eitthvað haft að segja líklega með þetta.

Hvernig leikur er svo IFR? Það er ljóst að fólk hjá Ubisoft eru miklir aðdáendur The Legend of Zelda: Breath of the Wild leiksins sem kom út árið 2017 fyrir Nintendo Switch og Wii U. Áhrif þessa leiks er að finna í heimi IFR  og í spiluninni.

Eitt af því fyrsta sem fólk tekur eftir með IFR  er hnitmiðaðri saga með meiri áherslu á hefðbundna sögu og spilun í stað þess frelsis og áherslu á könnun heimsins sem var í BotW. Báðir leikirnir gerast í stórum opnum heimi en IFR  er meira að vísa þér í rétta átt en hinn, það er þó hægt að fara í hvaða átt sem þú vilt í byrjun en spurningin er hvernig það mun enda fyrir þig. Lokabardaginn er óaðgengilegur þangað til að þú hefur fengið hjálp guðanna á móti títaninum Typhon.

Goðafræðin og flóknar fjölskyldur

Sögusviðið er dularfull eyja þar sem persónu þína rekur upp á land eftir skipbrot gríska flotans sem þú ert hluti af. Fenyx er lágt sett/ur (ég spilaði sem kona) skjaldberi sem hefur hingað til ekki fengið mikil tækifæri til hetjudáða en bróður þinn Ligyron, sem er stereótýpísk hetja úr goðsögunum, fær alla athyglina. Þegar Fenyx rankar við sér á gullnu eyju Eyjahafsins þá eru allir bandamenn hennar orðnir af steini og þessi dularfulla eyju er full af skrímslum úr goðsögum sem hún hefur bara lesið um hingað til. Fenyx rekst fljótlega á guðinn Hermes sem er einn af fáum grískum guðum eftir á svæðinu. Títaninn Typhon hefur sloppið úr árþúsunda lanri prísund sinni, hlekkjaður undir fjalli af Seifi sjálfum. Typhon náði fljótt að aðskilja guðina frá kjarna þeirra og skildi við þá sem brot af sjálfum sér og án flestra krafta þeirra. Það verður fljótt verkefni Fenyx að reyna að hjálpa fjórum guðum; Afródítu, Ares, Hefæstos og Aþenu að endurheimta kraft sinn svo þau geti barist við Typhon og bjargað heiminum frá eyðileggingu.

Prómeþeifur segir Seifi söguna um Fenyx

Þeir sem þekkja eitthvað til Grískrar goðafræði ættu að vita hvers konar rugl og drama er að finna þar. Blessaði Seifur og framhjáhöld hans og ótal lausaleiks börn hafa haft mikil áhrif á heiminn  bæði góðan og slæman hátt fyrir mannkynið. Fjölskylda guðanna er eins og versta fjölskylduboð sem þú getur mætt í, afinn fullur út í horni, ógeðslegi frændinn að segja sögur við matarborðið, mamman að gagnrýna tengdadótturina fyrir uppeldi barnanna og svo mætti áfram telja. Þessar deilur guðanna þróast eins og við má búast og Fenyx er í miðjunni á öllu þessu.

Eitt af því sem mér fannst leikurinn gera skemmtilega er að sagan er sögð í gegnum samtöl Seifs og Prómeþeifs (raddaður af Elias Toufexis; Adam Fenix í Deus Ex) á klettinum sem Seifur batt hann við eftir að sá síðarnefndi stal eldi til að gefa mönnunum. Sem refsing kemur örn og étur lifrina úr honum sem vex aftur og þetta endurtekur sig daglega. Seifur og Prómeþeifur rökræða og rífast á meðan þú ert að spila leikinn og er gaman að sjá Prómeþeif stundum breyta því hvað hann er að segja eftir því hvað þú ert að gera í leiknum. Saga leiksins er engin bylting en hún er þó skemmtileg áheyrnar, sérstaklega ef þú hefur gaman af goðafræði.

Það eru sjö svæði til að kanna á eyju guðanna

Heimurinn og dýflissur Tartarus

Það sem minnir mest á  BotW eru Tartarus dýflissur leiksins samanber skrínin í Zelda leiknum. Það eru misstór borð þar sem þú þarf að leysa vissar þrautir til að komast í gegn og fá hluti til að leysa verkefni í leiknum eða fá hluti til að uppfæra þig til að verða sterkari. Kraftar þínir frá guðunum eru notaðir til að leysa þessar þrautir sem eru mismunandi erfiðar. Sumar fannst mér smá pirrandi en aldrei of erfiðar eða ósanngjarnar. Það er talsverður fjöldi af þessum dýflissum á sjö svæðum eyjunnar og ótal óvinir eru í kringum þær.

Eins og algengt er í svo mörgum Ubisoft leikjum þá þarftu að vinna að því að fylla kortið þitt. Til þess þarftu yfirleitt að klifra upp á styttur af guðunum til að sjá meira af heiminum og fjarlægja þannig  þokuna á kortinu þínu. Með að halda inni hægri pinnanum á fjarstýringunni þá geturðu skannað yfir heiminn og opinberað inn  á kortið þegar Dualsense pinninn hristist  í hendinni á þér. Þetta er auðvitað ólíkt því  sem maður gerði í BotW en ég kvarta ekki yfir að þurfa ekki að kanna hvert skúmaskot borðsins til að finna viss svæði eða hluti. Þetta er auðvitað ekki nauðsynlegt og er lítið mál að kanna heiminn á þann hátt sem þú vilt. Þú getur klifrar upp næstum því hvað sem er í heiminum svo lengi sem að úthaldið þitt er nógu mikið. Hægt er síðan að borða vissa ávexti á meðan þú ert að klifra til að bæta við þolið ef þigvantar smá til að komast upp á fjallstindinn.

Sjö svæði leiksins eru sæmilega fjölbreytt; allt frá grænum skógum, snjólendi, eyðimörk eða strandsvæðum. Þau eru passlega stór svo það tekur ekki of langan tíma að ferðast um þau. Hægt er að hlaupa um, svífa eða notast við þau dýr sem þú getur tamið sem fararskjóta þinn. Sá sem ég notaði líklega mest var blár einhyrningur sem var með ótrúlega mikið úthald  sem leyfði mér að fara hratt yfir. Það er síðan hægt að kanna vötn eða sjávarsvæði leiksins í leit af fjársjóðum.

Hall of the Gods er heimastöð þín og þangað ferðu reglulega til að bæta hæfileika þína, uppfæra vopn, tala við guðina og þar fram eftir götunum 

Bardagar og vopn

Vængir Dadelusar hjálpa þér að svífa um heiminn og á milli vissra hluta borðanna og eru eitt af því fyrsta sem Fenyx fær við komuna á eyjuna. Síðar færðu sverð og exi sem þú getur uppfært ásamt ótal brynjum og búningum. Auðvelt er að sérsníða þetta að spilastíl þínum þar sem auðvelt er að breyta útliti vopna eða brynju án þess að missa bónusa þeirra.

Bardagakerfi leiksins er kunnuglegt fyrir þá sem hafa spilað síðustu Assassin’s Creed leikina. Það er hægt að hoppa snöggt til hliðar með að ýta á kassann á fjarstýringunni og fá þá tækifæri til að berja á óvininum á meðan tíminn er aðeins hægari. Þú notast við sverðið sem létta vopnið og öxina sem kraftmeiri árás ásamt boganum sem þú ert með. Kraftarnir koma síðan við sögu og er t.d. hægt að grípa steina eða tré sem stærri óvinir kasta í átt að þér gegn þeim. Fuglinn Fosfór er líklega besta vopnið sem þú hefur og er hægt að láta hann gera vissar árásir á óvinina til að draga athygli þeirra eða skemma varnir þeirra. Auðvelt er að fara í valmynd leiksins og breyta árás hans í eitthvað sem hentar betur óvinunum sem þú ert að eiga við.

Það eru mörg skrímsli og dýr sem þú þarft að berjast gegn

Hæfileikatré leiksins er sæmilega djúpt og leyfir þér að velja þann leikstíl sem hentar þér best.

Það eru 6 erfiðleikastillingar í boði frá Story yfir í Nightmare svo allir ættu að finna sína stillingu. Það er síðan auðvelt að breyta þessu hvenær sem þú vilt ef þér finnst leikurinn of auðveldur eða erfiður. Þetta á einnig við þrautir leiksins og er stilling í valmynd leiksins til að aðstoða með það ef þér finnst þær of ergjandi. 

Útlit og grafík

Heimur leiksins er stílfærð útgáfa af grískri goðafræði bæði í útliti persóna og útliti heimsins. Persónur hafa stærri augu en eðlilegt er og minnir það pínu á japanskan Anime stíl án þess að halla sér of langt í þá átt. Leikurinn keyrir á Anvil Next grafíkvél Ubisoft, þeirri sömu og nýjustu AC leikirnir keyra einnig á. Allir litir eru bjartari og litríkari eitthvað og poppar heimurinn á skjánum, hvað þá ef þú ert að spila hann á sjónvarpi eða tölvuskjá sem styður HDR litatæknina.

Leikurinn keyrði mjög vel á PlayStation 4 og PlayStation 5 ásamt þeim Xbox vélum sem ég prufaði hann á.  Það er meira flæði í spilun leiksins á PS5 þar sem fps hraði leiksins er hærri og gerði það bardagana oft betri fannst mér. En það er langt frá því að vera eitthvað slakt á PS4. Meginatriðið og það sem mun einkenna marga leiki á nýju kynslóðum leikjavélanna er hleðslutími borða með SSD tækni nýju vélanna. Það tekur andartak að fara úr Tartarus dýflissunum yfir í heiminn á meðan á eldri vélum þarftu að staldra við og horfa á hleðsluskjá í u.þ.b. 30 sek.

Það eru fínir möguleikar á að sérsníða persónuna ykkar.

Ending 

Það tók mig um 25 tíma að klára sögu leiksins sem er bara fínt í nútímaleik. Ég hafði þá opnað öll svæði leiksins og hjálpað guðunum. Það var þó nóg enn eftir að gera og býst ég alveg við jafn miklum tíma í að klára allt í leiknum. Þegar þú kemur af lokahluta leiksins varar hann þig við og býður þér að vista leikinn. Það er síðan new game+ möguleiki í boði sem leyfir þér að byrja nýjan leik með alla þá hæfileika og vopn sem þú varst búin að vinna þér inn.

Ubisoft er síðan búið að vera duglegt að auglýsa það niðurhalsefni sem þeir eru að vinna fyrir leikinn og kallast pakkarnir þrír sem fylgja Season Pass, A New God, Myths of the Eastern Realm og The Lost Gods. Myths pakkinn er sérstaklega spennandi þar sem hann gerist í Asíu.

Það er margt gott að finna í Immortals: Fenyx Rising og annað sem tekst misvel að mínu mati. Sagan er engin bylting og húmor leiksins hefur þann möguleika að pirra suma og falla flatt hjá öðrum. Þetta er skemmtilegur og opinn leikur í anda Breath of the Wild og Genshin Impact með slettu af Asssassin’s Creed (spurning hvort að BotW verður einn daginn innblástur leikja eins og Souls-bourne leikir eru í dag)? Ég held að ég væri alveg til í það og sjá önnur fyrirtæki tækla þessa leikjategund og reyna að koma með nýjungar.

Frí uppfærsla er í boði fyrir leikinn frá PS4 til PS5 og Xbox One til Xbox Series X/S ef þú átt leikinn á disk eða stafrænu formi.

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑