Leikjarýni

Birt þann 8. nóvember, 2020 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson

Öryggi á kostnað hvers?

Öryggi á kostnað hvers? Sveinn A. Gunnarsson

Samantekt: WD: Legion er ný nálgun fyrir seríuna með nýjungar í spilun, en aðeins veikari sögu.

3.5

Góð skemmtun


Einkunn lesenda: 3.5 (1 atkvæði)

Hvenær víkja þægindi og öryggistilfinning fyrir persónulegt frelsi? Það er spurningin sem er hægt að leiða eftir að hafa spilað nýjasta leikinn í Watch Dogs seríunni. Fyrsti leikurinn kom út árið 2014 og spannaði bæði eldri og nýrri kynslóð leikjavélanna með útgáfu á PS3, PS4 og Xbox 360, Xbox One. Watch Dogs: Legion fylgir sömu leið með að koma út fyrir PS4, PS5 og Xbox One, Xbox Series X/S.

Í fyrsta Watch Dogs leiknum var sögusviðið Chicago-borg í Bandaríkjunum þar sem tæknifyrirtækið Blume hafði komið upp eftirlitskerfinu CtOS sem var hluti af öllu lífi borgarbúa og virðist gera töluvert meira en hann átti að gera. Leikmenn spiluðu sem andhetjan og hakkarinn Aiden Pearce sem byrjar á hefndar herferð á Blume eftir dauða frænku sinnar. Árið 2016 kom síðan út Watch Dogs 2 sem færði sögusviðið til San Francisco borgar og kynnti til leiks Marcus Halloway sem var refsað af CtOS 2.0 kerfinu fyrir glæp sem hann framdi ekki og gengur hann til liðs við hakkarahópinn DedSec. 

Watch Dogs: Legion færir hasarinn til framtíðar útgáfu af borginni London í Bretlandi einhvern tímann um eða eftir árið 2030 þó að það sé aldrei beint sagt hvenær leikurinn gerist. Eftir hræðilega hryðjuverkaárás á borgina og íbúa hennar, sem Dedsec er kennt um, hefur málaliða fyrirtækinu Albion verið veitt ótakmarkað vald til að koma á röð og reglu í landinu.

Hérna er hægt að sjá myndbrot úr byrjun leiksins sem við spiluðum í gegnum.

London sem sögusvið er mjög góð viðbót í seríuna. Þetta er borg með aldagamla sögu og kennileiti sem er auðvelt að þekkja. Þó að borgin sé auðvitað þjöppuð í smærri mynd fyrir leikinn, dregur það ekki úr þeirri tilfinningunni að þú sért að fara um götur og stræti borgarinnar. Eða vera eins og ég og gleyma því endalaust að það er vinstri umferð í Bretlandi og valda ótal árekstrum.

Zero Day hópurinn kemur sök á DedSec hópinn fyrir árás á London.

Það sem gerir WD: Legion öðruvísi en hina leikina í seríunni er að þú munt ekki spila sem nein ákveðin sögupersóna. Þú ert ekki fastur með ein persónu heldur geturðu skipt á milli þegar þér hentar eða þegar þú ert í stuði fyrir það.

Það sem gerir WD: Legion öðruvísi en hina leikina í seríunni er að þú munt ekki spila sem nein ákveðin sögupersóna. Þú ert ekki fastur með ein persónu heldur geturðu skipt á milli þegar þér hentar eða þegar þú ert í stuði fyrir það. Allir íbúar Lundúna (eða nálægt því) eru nefnilega mögulegir liðsmenn DedSec. Fyrir suma er nóg að skanna það með símanum þínum og gera lítið verkefni fyrir það, fyrir aðra þarftu að gera meira til að fá þau til liðs við þig, sérstaklega ef þeim er illa við DedSec eða þú t.d. barið á þeim í nýjasta verkefni þínu gegn Albion samtökunum. Það skrítna við þessar persónur að útlit þeirra virðist hafa verið rúllað í gegnum handahófskenndan hátt og passar oft litarfar og raddir persóna ekki saman. Það eru nefnilega bara svo margar raddir í leiknum og almennt eru þær nýttar á góðan hátt en þó stundum með spaugilegum hætti t.d. þegar gömul kona talar með þykkum breskum karlmanns hreimi. Það er þó mjög sjaldgæft og líklega villa í leiknum.

Þetta var svona áður en ég kom fyrir hornið.

Sumar persónur eins og Albion-verðirnir, lögreglan, byggingarverkamenn o.fl. hafa búninga sem hjálpa þeim að komast inn á lokuð svæði án þess að fara inn með byssurnar á lofti. Þetta hjálpaði oft til að gera sum verkefnin talsvert auðveldari og auðleysanlegri. Búningurinn er þó ekki algild lausn og stundum er nauðsynlegt að laumast um smá og hylja slóð sína fyrir óvinum. Önnur verkefni er hægt að leysa með drónum eða litlum vélmennum og ekki hætta sér sjálfur inn þar sem óvinirnir eru.

Það er hægt að spila sen nærri hvaða persóna sem er.

Hver einasta persóna sem þú færð til liðs við DedSec hefur sína kosti og galla í formi ýmissa hæfileika. Sumir eru betri að hakka sig inn í tölvukerfi, aðrir betri með vopn, það er hægt að ráða njósnara, löggur, sjúkraliða, viðskiptafólk gamalt og ungt fólk. Það er kannski ekki gáfulegt að fá njósnara til liðs við sig sem hikstar eða rekur við á verstu augnablikum eða áttræðan hakkara sem er hægur í förum.

Einnig er leikurinn góður að benda þér á sérstakar persónur merktar með grænum punkti á kortinu. Þessar hafa vanalega betri hæfileika sem nýtast vel. Einnig færðu persónur fyrir að frelsa viss hverfi borgarinnar (hljómar mjög Ubisoft-legt), og að auki er hreinlega hægt að kaupa þær í búð leiksins fyrir alvöru peninga.

Þetta kerfi er handahófskennt og geta orðið að frekar skrítnum blöndum ásamt mjög góðum.

Tónlist leiksins er allt í lagi, en seint eftirminnileg, það eru þó lög eftir Gorillaz, Lily Allen, Muse, Blur, Fatboy Slim, Block Party,  Metrik, ásamt útvarpsrás með klassískri tónlist. Það eru síðan verkefni í leiknum tengd breska rapparanum Stormzy og auðvitað tónlist með honum í leiknum. Eitt af því forvitnilegra á útvarpsstöðvunum voru hlaðvörp (podcast) eins og  þátturinn The Bug sem inniheldur marga góða kafla og eru kynntir af grínistunum Andy Zaltzman og Alice Fraiser. En líklega margir fara á mis við það þar sem þeir eyða oft ekki löngum tíma í farartækjum leiksins.

Rapparinn Stormzy er í leiknum og er verkefni tengt honum.

Saga leiksins hefur vissar hægðir og lægðir og er veikleiki hennar einmitt að það er ekki sterk aðalsögupersóna fyrir leikmenn að spila. Fyrir vikið er aðeins erfiðara að finna þig í baráttu þessa fólks gegn Albion og öðrum samtökum sem herja á London borg. Sagan fer almennt ekki neinar byltingarkenndar leiðir en skilar af sér ágætri sögu og nokkrum óvæntum glaðningum inn á milli. Líklega er besta persónan í leiknum, að mínu mati, gervigreindin Bagley og hans saga.

Einn af algengari ferðamátum mínum í leiknum.

Verkefni leiksins skiptast í það að bjarga fólki úr gíslingu, leysa glæpi, hakka sig í gegnum tölvukerfi til að finna tækni eða upplýsingar, ráðast gegn Albion og hjálpa fólki sem verður undir hæl þeirra og stöðva ógeðfellt mannsal og þrælkun. Hvernig þú leysir þessi verkefni er líklega það sem hentar þínum leikstíl.

… þú getur tekið smá Rambó á þetta og farið inn með sprengjur og byssur eða notast við óbanvæn vopn og farið inn og út án þess að óvinirnir verði nokkurn tímann varir við þig.

Þú getur laumast um og drepið óvini ekki ólíkt í Hitman leikjunum; þú getur tekið smá Rambó á þetta og farið inn með sprengjur og byssur eða notast við óbanvæn vopn og farið inn og út án þess að óvinirnir verði nokkurn tímann varir við þig. Það er núna betra bardagakerfi en áður sem býður upp á fleiri möguleika fyrir þá sem vilja gera hasarinn aðeins persónulegri. Ég nýtti mér oft að hakka mig inn á stóra byggingadróna og nota þá til að ferðast um heiminn og komast þannig á staði hátt uppi án þess að óvinirnir sæju mig fyrr en of seint.

Auðvelt er að missa uppáhalds persónur i Permadeath.

Nýtt í WD: Legion er Permadeath eða varanlegur dauði. Ef þú velur að hafa þann möguleika á þá getur hvaða persóna sem þú spilað dáið varanlega og þú missir hana og þeirra hæfileika og þarft að finna nýja persónu til að fylla upp í skarðið. Þetta gerir spilunina aðein meira taugatrekkjandi , sérstaklega ef þið eruð að spila leikinn í erfiðari stillingu. Ég spilaði með þetta í nokkra tíma og missti einn af betri karakterunum mínum sem ég var búinn að nota í þó nokkurn tíma. Þetta er forvitnileg viðbót en ekki nauðsynleg.

Að nýta sér vopn óvinana kemur að góðum notum oft.

Vandinn sem ég fann helst við að spila leikinn var að hann virkaði á köflum eins og hann yrði betri upplifun á t.d. PlayStation 5. tundum varð hökt þegar leikurinn var að reyna að hlaða inn gögnum sem tók langan tíma. Stundum tók ég eftir því að heimurinn virtist ekki vera búinn að hlaðast allur inn og þurfti maður iðulega að staldra við og bíða. Mig grunar að hröðu SSD diskar nýju vélanna hjálpi mikið til þar að draga mikið úr þessu og leiða til  betra flæðis í streymi leiksins. Það voru síðan nokkrir klassískir gallar sem einkenna svona opinn leikjaheim eins og Legion er, en ekkert sem hindraði spilun, nema að ég þurfti að endurræsa eitt eða tvö verkefni aftur og leikurinn hrundi í líklega tvö skipti.

Það tók mig líklega um rétt yfir 25 tíma að klára aðalsögu leiksins og hluta af auka verkefnum hans þ.e.a.s. að frelsa öll hverfi borgarinnar. Það eru þó ennþá hlutir sem hægt er  að gera og síðan fjölspilunarviðbót hans sem Ubisoft hefur staðfest að muni koma út þann 3. desember næstkomandi. Það að auki verður auka niðurhalsefni (dlc) gefið út á næstum mánuðum sem bætir við persónum úr eldri leikjum og úr öðrum titlum eins og Assassin’s Creed seríunni. New Game Plus verður síðan eitt af fríum viðbótum leiksins á næsta ári.

Nigel Cass yfirmaður Albion málaliðanna sem ráða yfir London.

Margir sem horfa til WD: Legion eru líklega að hugsa til nýju kynslóðar leikjavélanna sem koma út núna í nóvember og hvernig leikurinn mun koma út á þeim. Því miður höfum við skiljanlega ekki náð að prufa það eins og er en stefnum á að vera með nánari umfjöllun um leikinn og þær viðbætur og breytingar sem hann nýtur góðs af við þetta stökk.

Leikurinn er fín viðbót í Watch Dogs seríuna sem vonandi verður enn betri á nýjum leikjavélum þrátt fyrir aðeins veikari sögu.

Leikurinn er fín viðbót í Watch Dogs seríuna sem vonandi verður enn betri á nýjum leikjavélum þrátt fyrir aðeins veikari sögu. Helsta ástæða þess er að það eru  ótal persónur en engin nógu sannfærandi sem aðalpersóna. Það hefði kannski verið betra að hafa 10-20 persónur að velja á milli og gera þær athyglisverðari  persónur með betri baksögu og persónuleika. Það er vísir af góðum hugmyndum hérna eins og útgáfa Ubisoft af Nemesis óvinakerfinu í Middle Earth leikjunum fyrir nokkrum árum.

Við mælum með leiknum, og enn frekar ef þið stefnið að nýta ykkur fría uppfærslu yfir á PlayStation 5 eða Xbox Series X/S eða auðvitað á PC.

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑