Leikjarýni

Birt þann 27. ágúst, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: Watch Dogs

Watch Dogs var fyrsti leikurinn á nýju tölvurnar sem ég var spenntur fyrir, virkaði mjög skemmtilegur sandkassaleikur og leit mjög vel út í öllu sem ég hafði séð af leiknum áður en hann kom út.

Ég er löngu búinn að komast að því að söguþræðir í Ubisoft leikjum eru ekki eitthvað til að hrópa húrra yfir og flestar sögupersónur þeirra eru nákvæmlega eins. Söguþráðurinn í þessum leik er eins og eftir formúlu: Hakkarinn Aiden Pearce kemst á radarinn hjá röngu fólki og þeir ráða leigumorðingja til að drepa hann. En litla frænka hans deyr í bílslysi af þeirra völdum og þá verður Aiden mjög bitur og leitar hefnda. Mögulega leiðinlegasti parturinn af leiknum er einmitt aðalpersónan þar sem hann er allt of týpískur og tilfinningaríkur og tekur nánast alltaf rangar og bara heimskulegar ákvarðanir. Kvenhetjan sem hjálpar manni í leiknum er einmitt líka rosa týpískt „the Girl with the Dragon Tattoo“ karakter. Enn og aftur fá svertingjar það skemmtilega hlutverk að vera heimsku vondu kallarnir í leik frá Ubisoft (í Far Cry 3 voru þeir allir frumbyggjar og í helstu Assassin’s Creed leikjunum voru þeir….. ekki til? Það finnst mér svolítið skrítið þar sem leikurinn gerist í Chicago þar sem að u.þ.b. þriðjungur borgarbúa er svartur.

Watch_Dogs_01

Leikurinn spilast eins og flestir sandkassaleikir (t.d. GTA): Maður keyrir um borgina, finnur og leysir verkefni. Það er fullt af litlum aukaverkefnum sem verða frekar þreytandi þar sem maður er í raun og veru bara að gera sama hlutinn aftur og aftur. Reyndar eru drykkjuleikirnir frekar skemmtilegir og einnig krefjandi þar sem það reynir á samhæfingu beggja handa. Hakkaraleikurinn getur verið skemmtilegur þar sem spilarinn þarf aðeins að hugsa þegar hann er að því, en í leik þar sem spilarinn leikur ofurhakkara gerist það allt of sjaldan. Spilarinn hakkar aðallega bara til þess að njósna um fólk sem hefur engin áhrif á söguþráðinn og græðir bara smá pening á því, sem nýtist nánast ekkert. Aksturshlutinn í þessum leik er sæmilegur, en að taka beygjur getur verið svolítið erfitt. Það sem mér fannst skemmtilegast í þessum leik eru skotbardagarnir, þar sem hægt er t.d. að hakka handsprengjur sem hanga á óvinunum til þess að springa. Það er mjög auðvelt að miða og skotbardagarnir flæða vel. Einnig er óvinagervigreindin ágætlega sterk, og skemmtilega erfið á köflum. Stundum býður leikurinn upp á verkefni sem hægt er að leysa á tvo mismunandi vegi, s.s. skjóta allt í klessu eða læðast um og drepa einn og einn óvin í einu. Sem hefur samt engin áhrif á leikinn. Það sést líka hvar Ubisoft tók t.d. Parkour-kefið úr Assassin’s Creed leikjunum og öll auka missionin úr Far Cry 3.

Watch_Dogs_02

Ég viðurkenni það að ég prófaði ekki flest það sem fjölspilun hafði upp á að bjóða þar sem ég nennti ekki að vera að borga meiri pening til að spila leik sem ég hafði ekkert svakalegt gaman af. Þar sem ég hélt að þessi leikur hefði aðallega átt að vera um söguna meira en fjölspilunina.

Hægt er að hakka sig inn í bankareikninga flestra saklausra í kringum sig en stundum ef maður hakkar fólk sem vinnur fyrir stóra vondu kalla fyrirtækið Blume þá verður maður fyrir því að aðrir spilarar fá samning upp á að hakka þig. Það tók mig smá tíma að fatta það að hakka þetta ákveðna fólk setti fjölspilunina í gang þannig að ég var búinn að vera að klifra mikið um þök og frekar flókna leið þá datt þetta í gang og þá gat ég ekki lengur gert verkefnið sem ég hafði verið að klifra alla þessa leið fyrir. Sem var mjög pirrandi.

Watch_Dogs_03

Grafíkin er svo sem fín, sem er vandamál. Þar sem þessi leikur kemur út á glænýju Xbox og PlayStation-vélunum þá varð ég fyrir miklum vonbrigðum með grafíkina. Mér finnst svolítið eins og að UbiSoft hafi verið að flýta sér að gefa út leikinn svo hann gæti komið út á sama tíma og vélarnar. Tónlistin er líka frekar léleg, þá á ég við að flest lögin í útvarpinu voru ekki minn tebolli. Á meðan að ég var að keyra á milli staða var ég oftast bara að hlusta á eitthvað í símanum mínum frekar en leikinn. Þeir eru þó með C.R.E.A.M. með Wu-Tang Clan sem gladdi mig þegar það fór í gang.

Watch Dogs er ágætur en óspennandi hakkaraleikur þar sem skotbardagarnir eru betri en hakkið. Grafík og hljóð standa ekki uppúr og aðalsöguhetjan með mest óspennandi persónum sem ég man eftir. Allt í allt frekar mikil vonbrigði. Það verður samt örugglega gerður Watch Dogs 2, þó verður þetta væntanlega ekki sería sem ég eyði miklum tíma í.

 

Höfundur er Elmar Víðir Másson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑