Leikjarýni

Birt þann 23. september, 2020 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Frumlegur þrautaleikur fullur af sjónblekkingum

Frumlegur þrautaleikur fullur af sjónblekkingum Bjarki Þór Jónsson

Samantekt: Superliminal er fyrir þrautaleikjaspilara sem þyrstir í eitthvað nýtt og frumlegt.

3.5

Áhugaverður


Þrautaleikurinn Superliminal, frá bandaríska indístúdíóinu Pillow Castle, var fyrst gefinn út í nóvember í fyrra og þá eingöngu fyrir PC.

Í júlí fékk leikurinn svo uppfærslu fyrir leikjatölvur og var gefinn út fyrir PlayStation 4, Xbox One og Nintendo Switch. Superliminal var um sex ár í framleiðslu og er jafnframt fyrsti fullkláraði leikur fyrirtækisins.

Í leiknum stjórnar spilarinn ónefndri persónu sem er þátttakandi í draumameðferð Dr. Glenn Pierce. Snemma í leiknum kemur í ljóst að eitthvað virðist hafa farið úrskeiðis og festist persónan þín í furðulegum draumaheimi þar sem lögmál raunveruleikans eru ekki algild. Sem dæmi getur þú stækkað og minnkað hluta með því að draga þá nær eða fjær auga spilarans, gengið inn í myndir sem hanga upp á vegg og fleira sem tengist sjónblekkingum.

Superliminal er fyrstu persónu þrautaleikur þar sem sjónblekkingar eru notaðar til að leysa þrautir.

Superliminal er fyrstu persónu þrautaleikur þar sem sjónblekkingar eru notaðar til að leysa þrautir. Þetta er frumleg nálgun hjá Pillow Castle og býður upp á áhugaverða möguleika og nýjunga í spilun. Leikurinn gengur þó að mestu leyti út á að stækka og minnka hluti og verða þrautirnar því á köflum frekar einhæfar þar sem endurtekningin er of mikil á köflum. Í leiknum er að finna fjölmargar þrautir sem eru sniðugar en lausnin of oft augljós. Inn á milli leynast þó gullmolar fyrir þrautaþyrsta spilara sem elska fátt fleira en að klóra sér í hausnum.

Niðurstaðan er sú að leikurinn býður upp á skemmtilegar nýjungar en aðeins of fáar góðar þrautir til að halda leiknum áhugaverðum út þá tvo til fjóra klukkutíma sem tekur að klára leikinn. Sjónbrellurnar eru þó áhugaverðar og geta verið skemmtilega ruglingslegar. Superliminal er fyrir þrautaleikjaspilara sem þyrstir í eitthvað nýtt og frumlegt.

Deila efni

Tögg: ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑