Leikjarýni

Birt þann 22. september, 2018 | Höfundur: Steinar Logi

0

Leikjarýni: NBA2K19 „Góður en gráðugur“

Leikjarýni: NBA2K19 „Góður en gráðugur“ Steinar Logi

Samantekt: Góður körfuboltaleikur en græðgin og staðnaður nethluti dregur hann niður

3.5

2K snýr aftur


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

Fyrst smá formáli þar sem við lítum yfir síðustu ár greinarhöfunds með NBA2K seríuna. NBA2K16 pirraði mig hrikalega og þar með fjölskyldu mína þegar ég var gargandi á sjónvarpið seint á kvöldin. En ég spilaði hann því að ég hef gaman af körfuboltaleikjum og hann var ekki alslæmur þrátt fyrir pirrandi galla. NBA2K17 fannst manni stökk framávið í spilun. Smágreiðslur eða “microtransactions” hafa lengi verið hluti af seríunni en það truflaði mig ekki, ég gat plumað mig áfram og þróun leikmanna og liða var ásættanleg. Þangað til núna.

Ég spilaði ekki NBA2K18 en hef heyrt að hann sé jafnvel verri en 2K19 að þessu leyti og hönnuðir höfðu lofað því að draga úr þessu (sb. “klipping kostar þig slatta – fíaskóið”) en þetta er áfram slæmt; þeir eru bara búnir að fela þetta betur á sumum stöðum og auka á öðrum. Kannski eru þolmörkin líka lægri eftir Battlefront 2 og fleira. Sem gagnrýnandi ákvað ég að kaupa ekki neitt VC (Virtual Currency) því að maður er jú að gagnrýna leik sem kostar 10 þúsund en ekki 20 eða 30 þúsund eða hvað það kostar núna að þurfa ekki að berja hausnum upp við vegg.

Aðalvandamálið hjá mér er að ein uppáhalds leiktegundin mín (MyTeam) er óþarflega erfið að vinna sig í gegnum ef maður eyðir ekki pening eða hefur fáránlega mikla þolinmæði og aukatíma. Það er eins og 2K Sports hafi líka ákveðið að hafa allt gróðaógeðið í þessum hluta.

Í MyTeam þarf maður núna að vinna tvo leiki á netinu til að fá aðgang að uppboðshúsi (auction house). Fyrir leik sem hefur leiðinlegan og veikan nethluta þá er þetta fáránlegur hringur til að hoppa í gegnum. Til þess að vinna sig í gegnum “Domination” hlutann, þar sem maður keppir á móti núverandi og sögufrægum liðum, þá þarf helst maður aðgang að uppboðshúsinu til að fá réttu leikmennina þegar kemur að erfiðustu liðunum. Ég hef alltaf klárað þennan hluta án þess að eyða pening en núna er ég farinn að efast um ég geti það. Sem er auðvitað hlægilegt fyrir leik sem maður borgar fullt verð fyrir og að “Domination” er ekki spilaður yfir netið, heldur á móti tölvunni.

MyTeam er óþarflega erfið að vinna sig í gegnum ef maður eyðir ekki pening eða hefur fáránlega mikla þolinmæði og aukatíma

í bjartsýniskasti þá prófaði ég að uppfylla þessi skilyrði með mína nær óþekktu spilara í þeirri trú að leikurinn myndi para mig upp með sambærilegu liði. Ekki aldeilis því að við mér blasa Steph Curry, Jayson Tatum og Giannis Ante-K.O. Næst fékk ég Marc Gasol og Donovan Mitchell. Augljóst að flestir eru að stuðla að þessu viðskiptamódeli 2K, en það sem er algerlega óskiljanlegt er af hverju 2K Sports er að para mig á móti þessum sem velja “pay-to-win”. Ég hætti í bæði skiptin og þá fæ ég svartan skjá þar sem mér er hótað refsingu fyrir að hætta og kallaður slæmur tapari (seinna kom í ljós að þessi refsing var að geta ekki spilað á netinu í 15 mínútur). Þar að auki tapaði ég samningum fyrir spilarana mína sem er enn ein fáránlega arfleifðin í NBA2K seríunni því að þú átt í raun ekki spilarana þína, þeir þurfa endalaust að ganga fyrir samningum. Loks eftir margar tilraunir þá vann ég fyrri leikinn en þá þurfti ég að klára 5 á móti 5 leik. Fyrsti leikurinn var á móti spilara sem var búinn að sanka að sér súperstjörnum og ekki bara það heldur var hann með Diamond Michael Finley sem viðkomandi hefur fengið fyrir að vinna 12 netleiki í röð (hann er óeðlilega góður og hittir úr nær öllum þristum). Ég í mínum fyrsta leik var semsagt paraður á móti þessum spilara. I rest my case.

Það er hugsanlegt að ég geti klárað “Domination” án uppboðshús því að maður fær “tokens” fyrir að klára áskoranir í leiknum sem maður getur valið í að kaupa betri spilara en auðvitað spilar það líka inná VC því að “pay-to-win” spilarar eiga mun auðveldara með að fá þessi “token”. Niðurstaðan var sú að ég þurfti að spila á netinu meira en ég vildi og þá kynnist maður líka göllum leiksins því að ef það er einhver leið til að “plata” leikinn (cheese) þá sést það þar. Núna notfæra margir sér að það er auðveldara að stela boltanum en áður, sérstaklega ef maður fer í sendingarleiðirnar. Einnig er hægt að ýta leikmönnum útaf vellinum þegar tækifæri gefst og fá ekki á sig villu. Það að hnoðast undir körfu með miðherjahreyfingar er líka að gefa betur en áður. En þetta er kannski ekki alger ostur, ekki eins og oft áður, og 2K Sports mun líklega jafna þetta út í uppfærslum.

Annars skilur maður ekki af hverju maður er að sjá sömu tæknilegu vandamálin aftur og aftur þegar maður spilar NBA2K leik yfir netið, það er eins og þeir séu að spara á miðlurum. Þeir gætu gert svo margt til að laga nethlutann en þeir gera voða lítið hvert einasta ár heldur einblína á grafík og jú, spilun líka sem er gott. En það sárlega vantar betri lausnir eins og að leyfa spilurum að koma inn í miðja leiki; hver kannast ekki við að spila leik með fullt lið yfir netið og svo hætta allir einn af einum þangað til að maður er annað hvort að spila einn á móti einum plús tölvustýrðir leikmenn eða leiknum er hætt því að það eru of fáir. Þetta er að gerast alltof oft.

maður er að sjá sömu tæknilegu vandamálin aftur og aftur þegar maður spilar NBA2K leik yfir netið

The Neighborhood sem hét áður MyPark er annar hluti þar sem smáborganir ráða ríkjum. Þar finnur maður leikmenn með háa einkunn og í flottum fötum rétt eftir að leikurinn kemur út sem gætu allt eins verið með bol merktan “I paid to win”. Síðan þarf maður að bíða á hliðarlínum eftir að fá að spila á móti þessum gaurum í sínum eigin ljótu fötum og það er greinilegt að leikurinn er að sárbiðja þig um að kaupa VC. Það er nefnilega ekki hægt að spila götubolta með því að smella á hnapp, nei, maður þarf að standa þarna og horfa á leik klárast. Ekki bara það þá þurfa tveir aðrir spilarar að velja að spila með þér. Ég reyndi í yfir hálftíma að komast í leik en það vildi enginn spila með mér því að ég var með “ranking” 67 sem tók mig samt nokkra tíma í MyCareer að ná í. Maður fær semsagt ekki einu sinni séns til að spila í The Neighborhood nema að eyða pening eða mæta þarna löngu seinna með betra spilara. Þetta er ekki nýtt í NBA2K leik en þetta er algerlega glórulaust og heldur áfram. Eina leiðin til að komast framhjá þessu er að eiga tvo vini og þriggja manna lið fá forgang og hoppa fram yfir í röðina.

Tölum núna um það jákvæða í leiknum og það er alveg af einhverju að taka þar líka. Það er t.d. ekki lengur hægt að hlaupa framúr varnarmönnum með einhvern John Wall gaur ef varnarmaður heldur sig fyrir framan og leikurinn hvetur því meira til “screena” og leikplans. Andlit og hreyfingar hafa tekið stökk til hins betra hér og það var alveg greinilegt eftir að ég tók NBA2K17 úr skúffunni og bar saman.

Andlit og hreyfingar hafa tekið stökk til hins betra hér

MyCareer er sem fyrr vinsælasta leiktegundin og eitthvað sem ég hef spilað mikið. Sagan í byrjun er ein sú besta sem ég hef spilað í 2K leik. Söguhetjan er þokkalega viðkunnanleg þrátt fyrir að vera hrokagikkur, en sagan fjallar um það hvernig hann þarf að læra auðmýkt sem nýtist honum svo í ferlinum sínum. Hérna eru frægir leikarar eins og “I see dead people” strákurinn sem er orðinn fullorðinn sem minnir mann á hvað maður er orðinn gamall og Anthony Mackie úr Avengers. Eftir um 5 tíma þá byrjar leikurinn sjálfur þegar þú loksins kemst inn í NBA eftir mikla rússíbanasögu.

Það er eitthvað í gangi bak við tjöldin því að á ákveðnum tímapunktum þá eykst jafnt og þétt áhugi NBA liða á þér. Ég og félagi minn enduðum með sömu tvö líðin í rest þ.e.a.s. Lakers og Suns. Ég valdi Suns og auðvitað meiddist Devin Booker stuttu seinna. Þannig að nú varð ég, leikmaður með einkunn uppá 65 að halda uppi liðinu því að hinir voru alls ekki að gera neinar rósir. Þróun á leikmanninum án þess að borga fyrir er ekki alslæm, en frekar hæg (Skv. Reddit o.fl. þá tekur það 30-50 tíma að vinna sig upp í 85 miðað við núverandi ástand, sem er talsvert). Maður er fljótur að vinna sig upp í mínútum og ef maður spilar þokkalega jafnt og þétt þá kemst maður í byrjunarliðið. En þegar maður er að vinna sig upp þá tekur leikurinn skrýtnar ákvarðanir og góð frammistaða manns í jöfnum leik gefur mann ekki fleiri mínútur. Nokkrum sinnum var ég sá sem hélt liðinu uppi en var kippt út síðustu þrjár mínútur leiks eða svo og þar með hvarf 10 stiga forskot og liðið mitt tapaði. Annað er að AI í MyTeam virðist hægara en annars staðar og í fyrri leikjum, leikmenn eru mjög hikandi og sleppa stundum auðveldum skotum eða að nýta sér góð screen.

MyCareer refsar manni líka óeðlilega mikið fyrir mistök, ég tók fram NBA2K17 og bar þetta saman og það var eins og himinn og haf. Það að gera villur, reyna að blokka á þann hátt sem tölvan telur heimskulegt og missa af manninum sínum hefur hlutfallslega meiri mínus heldur en að skora eða stela bolta. Stundum er óumflýjanlegt að fá mínus þegar tölvan vill að þú dekkir tvo leikmenn í einu, þú velur annan og þá er hinn frír og þú færð feitan mínus. Ég man eftir sambærilegu í eldri NBA2K leik sem sýnir að hlutirnar fara endalaust upp og niður í þessari seríu. Þetta veldur því að það tekur meiri tíma að vinna upp spilarann sinn og samsærisgaurinn í manni finnst að þetta sé enn ein leiðin til að fá mann til að kaupa VC.

Allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi

Öll umgjörðin er mjög flott; grafíkin eins og var nefnt áður er mjög flott, bæði hreyfingar og andlit. Allt sjónræna í leiknum er glæsilegt en af einhverjum ástæðum þá kaupi ég ekki alveg ennþá Ernie, Shaq og Kenny, það er ennþá eitthvað vélrænt við þá. Á vellinum þá finnst manni maður vera á leik, það er upphitun, leikmenn kynntir með pompi og prakt, það eru hljóð í áhorfendum, viðtöl við þjálfara og leikmenn og þetta er bara alvöru leikjastemmning. Sjálfur hef ég ekki gaman af tónlistinni í NBA2K19, það eru örfá lög sem manni finnst skemmtileg og of mikið af “Soundcloud” röppurum. Þeir eru búnir að taka viðtölin við leikmanninn þinn í gegn; núna er þau stutt og einföld og það er sýnt hve mikið þú bætir liðsmóralinn eða aðdáendatöluna eftir hvert viðtal.

NBA2K leikirnir eru orðnir svo stórt fyrirbæri að það ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Sumum er líka alveg sama um smágreiðslur og þeir skemmta sér stórvel. Fyrir mitt leyti þá draga þær leikinn niður og með það burt og betri netspilun þá væri þetta frábær leikur. Ég mun samt halda áfram að spila hann eitthvað því að þrátt fyrir allt mitt væl þá er hægt að hafa gaman af honum. Næstu ár verða spennandi því að NBA Live serían er að byggja sig upp smátt og smátt og samkeppni er af því góða fyrir neytandann.

Deila efni

Tögg: , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:Comments are closed.

Efst upp ↑