Birt þann 12. júní, 2018 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson
E3 2018: Uppvakningar og sæfæ í Resident Evil 2 og Control
Heldur fáar nýjar kynningar komu fram á E3-kynningu Sony þetta árið og má segja að kynningin þeirra hafi verið heldur slöpp ef miðað er við þann metnað sem fyrirtækið hefur sýnt undanfarin ár. Á kynningu fyrirtækisins var meðal annars sýnd kitla fyrir Control, nýjan sæfæ-leik frá Remedy leikjafyrirtækinu en Remedy er fyrirtækið á bakvið Quantum Break og Alan Wake tölvuleikina.
Kitlan segir okkur ekki ýkja mikið. Við sjáum þó að kvenhetja fer með aðalhlutverkið í þessum leik og að hún sé vopnuð byssu sem er gædd þeim eiginleikum að geta breytt um form. Sömuleiðis virðist aðalhetjan getað notað sérstaka krafta til að draga til sín og hrinda frá sér hlutum með miklu afli. Umhverfið í leiknum er áhugavert og verður spennandi að fá að vita meira um söguna í leiknum þegar nær dregur að útgáfu leiksins einhvertímann á næsta ári.
Sýnishorn úr endurgerð Resident Evil 2 var sömuleiðis birt á kynningunni. Útkoman lítur mjög vel út og lofar góðu fyrir aðdáendur RES leikjaseríunnar. Upprunalegi leikurinn er frá árinu 1998 og var gefinn út fyrir fyrstu kynslóð PlayStation leikjatölvunnar. Endurgerðin er væntanleg í verslanir 25. janúar 2019.