Birt þann 16. febrúar, 2018 | Höfundur: Nörd Norðursins
Tölvuleikjahönnunarnám í Nord háskólanum – „Námið hjálpar okkur að finna okkar áhugasvið og greina eigin styrkleika“
AÐSEND GREIN: HELGA DÍS ÍSFOLD,
DÓSENT VIÐ MYNDMIÐLUNARTÆKNISVIÐ NORD HÁSKÓLANN
Magnús Norðfjörð
„Ég útskrifaðist frá Nord háskólanum síðastliðið vor og fyrsti leikur fyrirtækisins kemur út á Steam í „early access“, þann 9. mars næstkomandi“ segir Magnús Norðfjörð. Hann rekur sjálfstæða leikjafyrirtækið Window Licker Games, ásamt fjórum fyrrum skólafélögum sínum, en þeir eru þessa dagana að leggja lokahönd á VR-leikinn oVRshot.
Námið sem þeir félagar luku er alþjóðlegt þriggja ára bachelornám í tölvuleikjahönnun sem allt fer fram á ensku. Nemendur fá talsvert frelsi – og stuðning – til að sérhæfa sig í ólíkum þáttum tölvuleikjahönnunar og –framleiðslu, svo sem forritun, listrænni hönnun, hljóðvinnslu og svo framvegis. „Ég fór persónulega inn í námið hugsandi að ég vildi verða forritari en síðan gæti ég ekki verið fjarri frá því í dag“, segir Magnús sem er forstjóri litla fyrirtækisins. „Hið sama gildir um annan forritarann okkar sem hélt hann vildi verða 3D artist. Námið hjálpar okkur að finna okkar áhugasvið og greina eigin styrkleika. Það mikilvægasta sem skilur á milli þessa náms og annars náms í leikjahönnun er að á hverri önn er áfangi sem heitir leikjasmiðja (e. game lab). Í honum þurfa nemendur að skipta sér í hópa og hanna leik frá grunni yfir önnina. Þessi áfangi reynist mjög vel í praktísku námi eins og þessu, þar sem færni til að vinna vel í liði vegur meira en sérhæfing í ákveðnum forritum.“
Katrín Birgisdóttir er á þriðja ári í tölvuleikjahönnun og stefnir á útskrift í vor. Eins og Magnús veðjar hún á sjálfstæðan atvinnurekstur og hún var að enda við að stofna eigið fyrirtæki – Northwood Games – ásamt 4 öðrum Íslendingum sem einnig ljúka námi í vor, einni bekkjarsystur og þremur bekkjarbræðrum. Þess má geta að um 20 – 25% nemenda við myndmiðlunartæknideild skólans eru frá Íslandi. „Við ætlum að halda áfram að vinna með leik sem við unnum í einni leikjasmiðjunni í skólanum, en hann heitir Dysthimia“ segir Katrín. Teymið á bak við Northwood Games hefur unnið saman í leikjasmiðjunni í nokkrar annir og skráðu m.a. 3 leiki í Norsku leikjaverðlaunakeppnina sem fram fer í Þrándheimi, 23. febrúar næstkomandi. Katrín hefur fulla ástæðu til bjartsýni, þar sem annað nemendafyrirtæki, Window Licker Games, með Magnús í broddi fylkingar, vann fyrstu verðlaun fyrir hönnun ársins fyrir leik sinn Blindventurers League í fyrra.
Katrín Birgisdóttir
„Ég tek undir með Magnúsi að leikjasmiðjan er eitt það besta við námið í Nord háskólanum, þar sem það veitir ómetanlegan undirbúning fyrir atvinnulífið. Við höfum þjálfast gríðarlega mikið í samskiptafærni og fengið dýrmætt tækifæri til að byrja að þróa og gefa út leiki“ segir Katrín, sem einbeitir sér að listrænu hliðinni í þróun leikjanna. „Skólinn hefur einnig reynst mér hjálplegur við að stofna faglegt tengslanet – sem og skólafélagarnir. Meðal annars hef ég verið með stúdentafyrirtæki sem ég hef fengið að nýta til að taka að mér verkefni fyrir sjálfstæðan framleiðanda gagnvirks kennsluuefnis, sem starfsfólk skólans kom mér í samband við.“
Katrín er stödd á Íslandi þessa dagana, en hún situr í stjórn tengslanets kvenna í myndmiðlunartæknigreinum Nord háskólans, Nord Girl Network. Í samstarfi við IGI (Icelandic Game Industry) og með stuðningi frá Community Fund stendur tengslanetið fyrir fyrir tengslanetskvöldinu viðburðinum Women in Games næsta fimmtudag, þann 22. Febrúar, kl. 18.00, í Innovation House, Eiðistorgi.
Katrín segist hlakka til að taka púlsinn á því sem er að gerast hjá konum í leikjaiðnaðinum á Íslandi, en með henni verða tvær aðrar konur úr Nord Girl Network, sem báðar eru á lokaári Sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslubrautar skólans. Að auki koma fram fulltrúar systurtengslanets þeirra, í Háskólanum í Reykjavík, Sys/tur, stofnandi TÍKur (Tölvuleikjasamfélags Íslenskra Kvenna) og stofnandi Parity.
Auk tölvuleikjahönnunar er skólinn með Sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslubraut og þrívíddarlista- og myndbrellubraut (3D animation & VFX). Þau sem vilja fræðast meira um alþjóðlega myndmiðlunartækninámið eru velkomin á opinn kynningarfund Nord háskólans í húsakynnum CCP, næstkomandi laugardag, kl. 13.00. Kynningin er í höndum kennara skólans, þar á meðal Óskarsverðlaunahafans Greg Curda, og nemenda. Vissara er að skrá sig á viðburðinn í gegnum Facebooksíðuna, til að tryggja að allir sem vilja komist að.
Forsíðumynd: Window Licker Games