Leikjarýni

Birt þann 24. ágúst, 2017 | Höfundur: Steinar Logi

Leikjarýni: Hellblade: Senua’s Sacrifice – Upplifun sem heltekur mann

Leikjarýni: Hellblade: Senua’s Sacrifice – Upplifun sem heltekur mann Steinar Logi

Samantekt: Ninja Theory svíkur ekki

4.5

Truflaður leikur


Einkunn lesenda: 4.6 (1 atkvæði)

Ninja Theory er leikjafyrirtækið á bak við Heavenly Sword, Enslaved: Odyssey to the West, DmC: Devil May Cry, Disney Infinity og núna Hellblade: Senua’s Sacrifice. Fyrir undirritaðan þá er Heavenly Sword á PS3 alger klassík og einn eftirminnilegasti leikur sem ég hef nokkurn tímann spilað. Það sem gerði hann svo góðan er ekki spilunin, sem var fín, heldur ógleymanlegir karakterar og góð saga. Andy Serkis ljáir vonda gaurnum rödd sína og líkamleg tjáning hans er merki um hvað koma skyldi hjá honum en flestir aðrir standa sig vel líka. Það eru mörg líkindi með Heavenly Sword og Hellblade og Ninja Theory eru klárlega að nýta það sem þau lærðu þá.

Hellblade virkar eins og stórleikur þ.e.a.s. AAA leikur en hann er styttri og því var valið að rukka 30 dollara / 25 pund fyrir hann. Fyrir mig tók hann 8-10 tíma en fyrir ykkur ungu krakkana þá er hann líklega 6-8 tímar. Vonandi verður þetta kveikir af nýjum tegundum leikja svo þannig að það séu leikir sem líta út og spila eins og AAA leikir en hafa ekki alltaf fjölspilun, þúsundir safnhluta og alls konar aukadót til að lengja spilatímann. Þannig væri hægt að fínpússa sterkustu þættina sem eru hérna grafíkin, leikurinn (þ.e.a.s. leikararnir sem ljá raddir sínar og líkamlega tjáningu í gegnum “motion capture”) og sagan. Spilunin er yfir meðallag, ekki meira en það, en það er upplifunin sem heldur manni föngnum.

Spilunin er yfir meðallag, ekki meira en það, en það er upplifunin sem heldur manni föngnum.

Sagan er sú að Senua, keltneskur stríðsmaður (reyndar Pikti), sem þjáist að geðrofa leitar leiða til að endurlífga stóru ástina sína og er bókstaflega tilbúin til að ganga í gegnum helvíti til þess. Hún ferðast í gegnum heim sem er blandaður áhrifum frá keltneskri og norrænni goðafræði og það eru ófáar tilvísanir sem íslendingar þekkja t.d. úr Hávamálum. Geðrofinn spilar stóran þátt í leiknum, Senua heyrir margar raddir og upplifun hennar litast af hennar veikindum og því vitum við ekki hvað er raunverulegt og hvað ekki. Leikkonan fyrir Senua heitir Melina Juergens og hún stendur sig alveg frábærlega. Leikurinn minnir á leikrit, eins konar eins-leikara leikrit (það koma samt aðrir leikarar við sögu en allt er í gegnum skynjun Senua) í stað bíómyndar eins og margir aðrir leikir. Ninja Theory talaði við marga sérfræðinga í geðrænum vandamálum og leikurinn tekur mið af því. Andrúmsloftið í leiknum er oft á við góða hryllingsleiki og því innsýn í hvernig veröld svona sjúklinga getur verið.

Grafíkin er algerlega stórkostleg og áhersla á smáatriði er með því besta sem ég hef séð. Eitt af mínum eftirminnilegustu augnablikum var ekki tengt spilun sjálfri, ég stóð á enda bryggju og horfði út á hafið með kvöldsólina fyrir aftan mig og ekki bara var lýsingin ótrúlega vel gerð heldur tók maður eftir að skuggarnir lengdust því að sólin var lágt á lofti. Stefnan hjá undirrituðum er að kaupa 4K sjónvarp seint á þessu ári og fyrsti leikurinn sem verður prófaður á PS4 Pro verður Hellblade (en næstu verða Uncharted 4 og væntanlega Uncharted: Lost Legacy).

Grafíkin er algerlega stórkostleg og áhersla á smáatriði er með því besta sem ég hef séð

Veiki punkturinn í Hellblade er spilunin og þá helst þrautirnar sem maður þarf að gera. Það eru ófáar þrautir þannig að maður þarf að finna eitthvað ákveðið tákn í landslaginu í kringum sig (þetta er rúnir sem við íslendingar þekkjum https://en.wikipedia.org/wiki/Runes) og fókusa á það til að opna hurð. Þetta getur verið eins og að leita af nál í heystakki þrátt fyrir að vita staðinn sem maður þarf að standa á. Það að berjast er fyrir ofan meðallag og þó að það sé ekki fjölbreytt, þá finnur maður fyrir ógninni, sérstaklega á móti stórskrímslunum (bosses) sem eru sum mjög skemmtilega útfærð (en þau eru ekki mörg enda er þessi hluti ekki fókus leiksins).

Semsagt ef þú vilt kyngimagnaða sögu og leik með góðri grafík og vilt áherslu á upplifun í stað spilunar þá er þetta einn sá besti núna og svíkur ekki fyrir þetta verð þ.e.a.s í kringum þrjú þúsund íslenskar en leikurinn er bara á stafrænu formi.

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑