Bíó og TV

Birt þann 2. júlí, 2017 | Höfundur: Steinar Logi

Sjónvarpsþáttarýni: American Gods

Sjónvarpsþáttarýni: American Gods Steinar Logi

Samantekt: Þættir um yfirvofandi stríð milli gamalla og nýrra guða

4

Guðastríð


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

Sjónvarpsþættirnir American Gods eru byggðir á samnefndri bókaseríu Neil Gaiman sem er einnig þekktur fyrir Sandman teiknimyndasögurnar og bókina / myndina Coraline. Í stuttu máli þá fjallar serían um yfirvofandi stríð milli gömlu, blóðþyrstu guðanna sem allir eru hættir að tilbiðja, og nýju guðanna sem eru tilbeðnir á nútímalegri hátt. Enginn af okkur mannlegu verunum veit samt af þeim, alla vega í fyrstu, því að þeir eru undir yfirborðinu og líta út eins og allir aðrir. Við kynnumst þessum heimi í gegnum Shadow, fyrrverandi fanga sem byrjar að starfa fyrir dularfullan karakter sem kallar sig Wednesday.

American Gods leggja mikinn áhuga á frásagnarlist og hið sjónræna og áhrif Neil Gaiman eru því mjög sterk. Í þáttunum eru stundum atburðir úr fortíð einhvers guðs, sem brjóta skemmtilega upp söguþráðinn sjálfan, og auk þess að þjóna sem kynning á gömlu guðunum í sögulegu samhengi þá eru þeir oft það eftirminnilegasta við þættina vegna þess hve mikið er lagt í það sjónræna. Þættirnir eru nokkurs konar sambland af ferðalagsmynd („road movie“) og drama skreytt með smá hryllingi, ofbeldi og kynlífi ásamt því að skarta einu bestu intró-i sem maður hefur séð síðan True Blood (sem byrjuðu vel en enduðu þreyttir og útjaskaðir).

Leikararnir standa sig prýðilega en sumir standa sig betur en aðrir eins og Ian McShane sem leikur Wednesday og Pablo Schreiber sem leikur 2ja metra írskan álf („leprechaun“). En það eru aðrir mjög góðir sem væntanlega munu hafa stærra hlutverk í næstu seríu sem er líklegt að verði að veruleika eftir góða gagnrýni fyrstu seríunnar. Þetta eru leikarar sem nördar þekkja vel og helst ber að nefna goðsagnirnar Gillian Anderson og Crispin Glover ásamt Orlando Jones úr Evolution.

Þættirnir eru skemmtilegir og aðeins öðruvísi en flest það sem er í amerísku sjónvarpi núna (fyrir utan seríu 3 af Twin Peaks að sjálfsögðu sem er algjörlega klikk).

Þættirnir eru skemmtilegir og aðeins öðruvísi en flest það sem er í amerísku sjónvarpi núna (fyrir utan seríu 3 af Twin Peaks að sjálfsögðu sem er algjörlega klikk). Þeir eru ekki hræddir við að skjóta á bandarískt þjóðfélag og orð skáldsins Marilyn Manson „Do you love your guns, god, your government“ eiga stundum vel við, sérstaklega eftir þátt nr. 6 sem er einn sá besti í seríunni. Það er óhætt að mæla með American Gods þrátt fyrir að flæðið detti stundum niður vegna of hægra eða óspennandi atriða.

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑