Fréttir

Birt þann 11. júní, 2017 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Stofnaði hóp fyrir kvenkyns tölvuleikjaspilara – „Móttökurnar hafa verið frábærar!“

Stofnaður hefur verið hópur á Facebook sérstaklega fyrir kvenkyns spilara. Hópurinn kallast GG | Girl Gamers og var nýlega stofnaður af Melínu Kolku. Hún vakti athygli á hópnum á Facebook-hópnum Tölvuleikjasamfélagið og segir að viðbrögðin hafa verið gríðarlega jákvæð. Ætlunin með nýja hópnum sé ekki að ýta karlmönnum í burt, heldur einfaldlega að gefa stelpum tækifæri á að tengjast.

„Móttökurnar hafa verið frábærar! Bæði frá strákum og stelpum. Það kom mér á óvart hversu margir strákar hafa sent mér skilaboð um hvað þetta sé „flott framtak“ og fleiri jákvæða hluti. Svo er þessi grúppa líka að stækka svo hratt sem er snilld! Þegar ég bjó hana til var ég að búast við kannski 10 stelpum en á tveimur dögum voru 100 stelpur komnar í hana sem er snilld!“

Melína segist hafa stofnað hópinn bæði til að kynnast öðrum stelpum sem hafa sömu áhugamál og hún og vildi hún auk þess búa til gott umhverfi fyrir stelpur sem að spila tölvuleiki til að tala saman.

„Stelpurnar sem eru í henni eru á fullu að post-a spurningum, ráðum og það sem er best að leita eftir öðrum stelpum til að spila með. Ég hef nú þegar kynnst helling af flottum og áhugaverðum stelpum sem hafa sömu áhugamál sem er æðislegt.“

Melína Kolka starfa á Gzero netcafé og ákvað að halda sérstakt „ladies night“ á Gzero að tilefni stofnunar Facebook-hópsins og var þetta í fyrsta sinn sem slíkt kvöld var haldið á Gzero. „Og mætingin var mjög góð! Við náðum að fylla heilan sal hjá okkur af stelpum sem að voru að spila saman og spjalla og kynnast eina kvöldstund.” segir Melína.

Að lokum spurðum við Melínu hvaða leiki hún væri helst að spila

… ég [er] sjálf helst að spila Hearthstone, Overwatch, League of Legends og CS:GO. Þetta eru leikirnir sem ég spila mest en tek svona tímabil í hverjum þeirra. Eins og er er ég mest í Overwatch þar sem að flestar stelpurnar í grúppunni eru að spila hann.

Nörd Norðursins fagnar þessu flotta framtaki hjá Melínu! Við hvetjum kvenkyns spilara á öllum aldri til að kynna sér GG | Girl Gamers hópinn á Facebook en nú þegar inniheldur hópurinn í kringum 130 meðlimi.

 

LADIES NIGHT Á GZERO

 

Myndir: Melína Kolka / FB / Overwatch / Ladies Night á Gzero (birt með leyfi höf.)

Deila efni

Tögg: , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑