Birt þann 28. júní, 2017 | Höfundur: Nörd Norðursins
Mussila Planets – Nýr íslenskur leikur frá Rosamosi
Síðastliðinn mánudag lenti Mussila Planet frá íslenska leikjafyrirtækinu Rosamosi í App Store og Google Play. Mussila Planets er fjórði leikurinn í Mussila seríu Rosamosa, hinir þrír eru Mussila Musical Monster Adventure, Mussila DJ og Mussila DJ Christmas. Mussila leikirnir eru ætlaðir börnum og þjálfa tóneyrað í gegnum skapandi leiki.
Í Mussila Planets ferðast spilarinn um framandi plánetur – allt frá stjörnuskreyttum himingeimi niður í forvitnileg undirdjúpin. Á leið sinni tekst spilarinn á við tónlistarlegar áskoranir af ýmsu tagi, nælir í nótur og spilar laglínur, forðast slæmar nótur, safnar stigum og keppist við að komast í efsta sæti með aðstoð frá svífandi bleikum höfrungum og píranafiskum svo fátt eitt sé nefnt.
Fyrirtækið Rosamosi var stofnað árið 2015 af tónlistarkonunni Margréti Júlíönu Sigurðardóttur og tölvuverkfræðingnum Hilmari Þór Birgissyni með það að markmiði að þróa tölvuleiki fyrir börn þar sem leikjamódelið, ævintýri og skapandi leikur yrðu nýtt til þess að kenna börnum grunnatriði í tónlist á aðgengilegan og skemmtilegan hátt. Í dag starfa fimm manns daglega hjá fyrirtækinu.
Fyrsti leikur seríunnar, Mussila Musical Monster Adventure, var gefinn út í fyrra og var leikurinn meðal annars tilnefndur til Nordic Game Awards í flokknum Best Fun for Everyone. Leikurinn hefur verið notaður í tónlistarkennslu bæði hér á Íslandi og á Eistlandi, en þar fór nýverið fram rannsókn sem styrkt var af Nord Plus Horizontal þar sem mátti sjá mælanlegan árangur hjá nemendum sem nýttu sér leikinn í tónlistarkennslu. Niðurstöður rannsóknarinnar verða birtar í haust.