Birt þann 27. maí, 2017 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson
Nördismi í Costco á Íslandi
Við tókum rúnt í gegnum nýju Costco verslunina í Garðabæ til að skoða vöruúrval og verð á nördalegum varningi. Vonbrigðin urðu nokkur þegar í ljós kom að lítið var í boði fyrir nördana; engar leikjatölvur, engir tölvuleikir og engin sérstök deild fyrir spil eða safnhluti. Aftur á móti í miðri verslun er að finna flott úrval af bókum sem lesendur hafa eflaust áhuga á að skoða betur. Verðið er sanngjarnt og til dæmis kostar Harry Potter and the Cursed Child 1.849 kr. í Costco en 3.599 kr. í Pennanum Eymundsson. Í Costco er hægt að kaupa seríuna A Song of Ice and Fire í heild sinni á 5.999 kr, í versluninni er einnig að finna Star Wars bækur, Marvel bækur og fleiri Harry Potter bækur svo eitthvað sé nefnt.
Costco verður með breytilegt vöruúrval og þar af leiðandi aldrei að vita hvort fleiri áhugaverðir hlutir eigi eftir að birtast í hillunum hjá þeim í Garðabænum.