Birt þann 1. maí, 2017 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson
Leikjarýni: Little Nightmares – „stuttur í spilun en býður upp á góða hryllingsupplifun“
Samantekt: Vandaður leikur sem er stuttur í spilun en býður upp á góða hryllingsupplifun og eftirminnilegan leikjaheim.
4
Góður!
Í seinustu viku lenti leikurinn Little Nightmares í verslunum á PC, PS4 og Xbox One leikjatölvurnar. Little Nightmares er hryllings-platformer frá sænska leikjastúdíóinu Tarsier Studios, en fyrirtækið kom meðal annars að gerð Tearaway Unfolded og LittleBig Planet 3 auk þess að hafa hannað ýmsa aukahluti (DLC) fyrir fyrstu tvo LittleBig Planet leikina.
Little Nightmares er eins manns tölvuleikur þar sem spilarinn stjórnar krakka sem er trúlega í kringum 10 ára að aldri. Heimurinn í Little Nightmares er einstaklega drungalegur og minnir helst á eitthvað eftir kvikmyndaleikstjórann Tim Burton, nema með dass af auka-hryllingi.
Leikurinn byrjar mjög snögglega. Ung stúlka, sem liggur ofan í stórri ferðatösku, vaknar snögglega upp við martröð í frekar ógeðslegu myrku herbergi. Eftir að hafa gengið stuttan spöl rekst hún strax á litlar furðuverur, ekki alveg viss hvort af þeim stafi hætta. Stúlkan gengur berfætt í gegnum langan skítugan gang í algjöru myrkri klæddur því eina bjarta á skjánum, skærgulri regnkápu, og gengur fram á mann sem hefur hengt sig. Umhverfið verður sífellt drungalegra og ógeðfelldara og þú ferð að sjá skuggalegar verur hreyfa sig. Leikurinn veitir spilaranum enga baksögu og engar upplýsingar eru veittar um stúlkuna eða hvaðan hún kemur, hvar hún er stödd eða hvert hún er að fara. Svöng, berfætt og klædd regnkápu heldur spilarinn ferðinni áfram inn í myrkrið, aðeins með lítinn kveikjara að vopni sem gefur takmarkaða lýsingu.
Fyrstu mínútur leiksins skynjar maður það mikla varnarleysi sem einkennir aðalpersónu leiksins. Að ráfa um þennan myrka ævintýraheim einn sem saklaus krakki getur verið virkilega óþægileg tilfinning. Hætturnar leynast víða og það eina sem þú getur gert er í raun að flýja og fela þig. Allt í kringum þig er svo stórt og þú svo lítill. Um leið og illmenni leiksins birtast upplifir maður þetta mikla varnarleysi að alvöru. Það þarf lítið til að deyja og hætturnar eru margar.
Little Nightmares nær að mynda virkilega drungalegt andrúmsloft með samblöndu af varnarlausri aðalpersónu, myrku umhverfi og stuðandi þungri bakgrunnstónlist.
Little Nightmares nær að mynda virkilega drungalegt andrúmsloft með samblöndu af varnarlausri aðalpersónu, myrku umhverfi og stuðandi þungri bakgrunnstónlist. Stíllinn í leiknum er líka mjög sérstakur og á köflum súrealískur. Eitt af því eftirminnilegasta við leikinn eru illmennin og þá sérstaklega handalangi blindi gangavörðurinn og tvíburakokkarnir. Ekki er það aðeins útlitið á þeim sem gefur manni hroll niður í rófubein, heldur hvað þeir gera, hvernig þeir hegða sér og hljóðin sem þeir gefa frá sér. Útlitið á þeim er mjög sérstakt og minnir svolítið á bráðnaða leirkalla sem gefur þeim einstaklega hryllingslegt útlit.
Flæðið í leiknum er gott. Spilarinn er stöðugt á hreyfingu og stoppar sjaldnast lengi á sama svæði. Þetta stöðuga flæði hefur aftur á móti þann ókost, ef svo má segja, að leikurinn verður ekkert erfiðari með tímanum heldur hafa leikjahönnuðir passað uppá að hafa allt saman “hæfilega” erfitt. Með þessu verður spilunin stundum svolítið línuleg og skortir hápunkta sem reyna meira á spilarann. Little Nightmares er aftur á móti heldur stuttur og tekur aðeins 3-4 klukkutíma að klára, en á móti er hann áberandi ódýr fyrir nýjan leik og kostar í kringum 15 bresk pund á bresku PSN vefversluninni.
Flæði sögunnar í leiknum heppnast mjög vel. Leikurinn er duglegur að henda fram spurningum í spilarann en gefur ekki mikið af svörum og er þar af leiðandi í höndum spilarans að fylla í eyðurnar eða túlka hlutina. Það má hugsa leikinn sem einskonar línulega upplifun hjá krakkanum. Þú stjórnar krakkanum í þessum ákveðna kafla en veist eða skilur ekkert endilega allt sem hefur gerst.
Spilun leiksins býður einnig upp á þetta góða flæði þar sem stjórntakkar eru fáir; labba, hoppa, kveikja á kveikjara, hlaupa henda hlut og ýta/toga/klifra. Leikurinn minnir án efa mikið á leikina frá Playdead, Limbo og Inside, að mörgu leyti. Það sem gerir Little Nightmares frábrugðinn þessum leikjum er að í honum er mun meiri fókus settur á hryllinginn, framvinda leiksins er töluvert hraðari og hann er spilaður í þrívíðu rými en ekki tvívíðu (eða 2.5D) rými líkt og Limbo og Inside.
Little Nightmares er virkilega vandaður leikur. Hann er stuttur í spilun en býður upp á góða hryllingsupplifun og eftirminnilegan leikjaheim.
Little Nightmares er virkilega vandaður leikur. Hann er stuttur í spilun en býður upp á góða hryllingsupplifun og eftirminnilegan leikjaheim. Leikurinn býður upp á takmarkaða endurspilun en hann er það góður en það er sjálfsagt að spila í gegnum hann aftur. Til gamans má geta þá er hægt að fræðast meira um leikjaheiminn og baksöguna á heimasíðu Little Nightmares (mæli með því að kíkja EFTIR að hafa klárað leikinn).