Greinar

Birt þann 29. maí, 2017 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Fimm frábærir ferðaleikir

Góður leikur getur verið algjör bjargvættur í löngum ferðalögum. Það er aftur á móti ekki sjálfgefið að finna þessa gullmola og hef ég þess vegna ákveðið að taka saman lítinn lista yfir fimm slíka leiki. Athugið að hér verða biðraðaleikir ekki teknir með, heldur eingöngu ferðaleikir, sem bjóða uppá dýpri spilun en hinn hefðbundni biðraðaleikur (sbr. Candy Crush), eiga að geta haldið manni vel sáttum við skjáinn í a.m.k. 30-60 mínútur og eru aðgengilegir á snjallsíma eða spjaldtölvur.

BADLAND 2

Í Badland 2 stjórnar þú litlum krúttlegum svörtum verum sem geta flogið, köllum þá bara krúttlinga. Leiknum er skipt niður í fjölmörg borð sem spilarinn þarf að klára og er markmiðið alltaf það sama; að komast í gegnum borðið án þess að deyja. Í borðunum eru ýmsar hindranir sem krúttlingarnir þurfa að forðast og aukahlutir sem geta breytt hegðun krúttlinganna. Í borðunum er hægt (og oft nauðsynlegt) að safna fleiri krúttlingum og virka þeir eins og líf, þ.e.a.s. ef krúttlingur snertir sagblað eða annan hættulegan hlut þá drepst hann. En það getur verið í góðu lagi að drepa nokkra krúttlinga á leiðinni þar sem nóg er að koma einum krúttlingi á leiðarenda. Umhverfið í leiknum er ótrúlega fallegt svo þetta er leikur sem nýtur sín betur á spjaldtölvu frekar en snjallsíma. Hljóðin í leiknum eru líka vel gerð svo heyrnartól eru alveg málið þegar þessi er spilaður.

Ef þér líkar vel við Badland 2 er óhætt að mæla líka með fyrri Badland leiknum.

App Store ($3,99)| Google Play (ókeypis)

FTL: FASTER THAN LIGHT

Faster Than Light er síbreytilegur geimleikur. Þú byrjar á því að velja þér geimskip og áhöfn og leggur svo á vit ævintýranna. Markmið leiksins er að ferðast um geiminn og komast á leiðarenda, sem er alls ekki svo auðvelt. Leikurinn snýst meira um ferðlagið sjálft þar sem umhverfi og aðstæður eru síbreytilegar og krefjast þess að spilarinn taki ákvarðanir sem geta haft mikil áhrif á hvernig framhald leiksins spilast. Það er ólíklegt að þú endir á lokaáfangastaðnum á byrjunarstigi leiksins og er leikurinn hugsaður sem svo að það er í raun eðlilegt að deyja og klára ekki leikinn. Á leiðinni gætir þú orðið fyrir árás, þú gætir þurft að berjast við geimverur sem hafa brotist inn í geimskipið þitt eða þú gætir fundið verðmæta hluti á leiðinni svo eitthvað sé nefnt. Ekki er eingöngu nóg að koma sér á milli staða heldur þarftu auk þess að passa uppá geimskipið þitt og áhöfnina. Frábær leikur fyrir sæfæ nördana.

App Store ($9,99)

REIGNS

Einfaldur kortaleikur þar sem þú ferð með hlutverk konungs sem þarf að taka erfiðar (og auðveldar) ákvarðanir og um leið gæta jafnvægis milli kirkjunnar, almennings, hersins og fjármagns. Nauðsynlegt er að halda þessum fjórum þáttum í jafnvægi til að halda völdum. Hver liður er með súlu sem má ekki falla niður í botn eða ná hámarki. Til dæmis ef völd hersins ná hámarki þýðir það að herinn er orðinn OF sterkur og geta þá steypt þér af stóli og tekið þig af lífi, en ef völd hersins falla niður í botn þýðir það að herinn er orðinn of aumur og þá geta óvinir ráðist á konungsríki þitt án mótspyrnu hersins. Ákvarðanir hafa mismunandi áhrif á þessa fjóra þætti og hækka og lækka eftir því hvaða ákvarðanir þú tekur.

Einfaldur kortaleikur þar sem þú ferð með hlutverk konungs sem þarf að taka erfiðar (og auðveldar) ákvarðanir og um leið gæta jafnvægis milli kirkjunnar, almennings, hersins og fjármagns.

Spilun leiksins er mjög einföld. Á skjánum birtist persóna sem kemur með spurningu og fær spilarinn tvo valkosti til að velja á milli og velur þá með því að draga spilið til hægri eða vinstri, eftir því hvað hentar honum. Stundum er nauðsynlegt að taka ákvarðanir sem fara algjörlega gegn manns eigin samvisku, eingöngu til missa ekki völdin. Á endanum deyr konungurinn alltaf og þá tekur nýr við og þannig heldur leikurinn áfram. Leikurinn er settur upp sem kortaleikur þar sem hvert kort krefst ákvörðunartöku konungs. Ný kort detta svo inn í stokkinn með reglulegu millibili sem gerir leikinn fjölbreyttan, og ekki skemmir fyrir að leikjahöfundar leiksins hafa góðan húmor sem skín í gegn.

App Store ($2,99) | Google Play (€2,7)

THERE IS NO GAME

Stutt leikjaupplifun sem er troðfull af frumleika og húmor.

Stutt leikjaupplifun sem er troðfull af frumleika og húmor. Hér er nauðsynlegt að hafa hljóðið á og hlusta á það sem kynnirinn hefur að segja. Hann byrjar á því að segja þér að þetta sé ekki leikur og að engan leik sé að finna hér, en það er þitt hlutverk að komast að öðru og… já, ætli það sé ekki bara best að stoppa hér, því minna sem þú veist því skemmtilegri verður leikurinn. Hann er þó heldur stuttur og býður upp á litla endurspilun, en á móti er hann ókeypis.

Google Play (ókeypis)

TWOFOLD INC.

Þessi þrautaleikur er mjög notendavænn, með frekar einfaldar leikreglur, en krefst þess að spilarinn hugsi fram í tímann.

Twofold Inc. er þrautaleikur sem hlaut Nordic Game Awards verðlaunin í ár í flokknum GOTY – Small screen. Þessi þrautaleikur er mjög notendavænn, með frekar einfaldar leikreglur, en krefst þess að spilarinn hugsi fram í tímann. Borðin í Twofold Inc. samanstanda af punktum í ýmsum litum og með því að tengja tvo punkta saman í sama lit þá tvöfaldast stigatalan, þannig að ef tveir punktar eru tengdir saman gera það 2 stig, 3 punktar 4 stig, 4 punktar 8 stig, svo 16, 32, o.s.frv. Í hverju borði fær spilarinn sendingu sem hann þarf að klára með því að safna ákveðið mörgum stigum með takmörkuðum fjölda hreyfinga. Við fyrstu sýn virðist þetta vera biðraðaleikur en fljótlega áttar maður sig á því að leikurinn krefst þess að þú hugsir og spáir í hlutunum áður en þú tengir punktana saman. Þetta er leikur án sögu og eina markmiðið er í rauninn að safna sem flestum stigum.

App Store ($3,99) | Google Play (€3,9)

Vantar leiki á listann?

Hvaða leikjum mælir þú með fyrir ferðalagið?

Láttu okkur vita í kommentakerfinu hér fyrir neðan!

Mynd: Reigns

Deila efni

Tögg: , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑