Menning

Birt þann 3. apríl, 2017 | Höfundur: Nörd Norðursins

Styttist í EVE Fanfest!

Næstkomandi fimmtudag, þann 6. apríl, hefst hin árlega EVE Fanfest í Hörpunni og stendur yfir í þrjá daga. Það er íslenska tölvuleikjafyrirtækið CCP sem stendur á bakvið hátíðina en þar mæta spilarar og starfsmenn CCP til að ræða saman um EVE heiminn og fleira. CCP mun bjóða upp á fjölbreytta dagskrá þar sem EVE spilarar eiga að finna eitthvað við sitt hæfi. Undanfarin ár hafa fleiri en bara EVE spilarar sótt ráðstefnuna. meðal annars spilarar VR-leiksins EVE Valkyrie sem er í dag fáanlegur fyrir allar vinsælustu gerðir sýndarveruleikagleraugna (HTC Vive, Oculus Rift og PSVR) og var meðal annars keppt í leiknum á seinasta Fanfesti.

Fyrirtækið hefur undanfarin ár fært út kvíarnar og fókusað sérstaklega á möguleika sýndarveruleikatækninnar, auk EVE Valkyrie hefur CCP gefið út VR-leikina Gunjack eitt og tvö. Nýlega kynnti fyrirtækið svo nýjan sýndarveruleikaíþróttaleik (vSport) til sögunnar sem kallast Sparc, en gestir gátu prófað snemmbúna útgáfu af leiknum á Fanfestinu í fyrra.

Á lokakvöldi Fanfest, laugardaginn 8. apríl, verður risapartý að venju í Hörpu sem kallast Party at the top of the world frá kl. 20:00 til 01:00. Þar mun DJ Kristian Nairn (a.k.a. Hodor úr Game of Thrones) sjá um tónlistina. Auk Hodors mun innanhúsband CCP, Permaband, og Hermigervill sjá um að halda stuðinu uppi.

Hægt er að kaupa miða á EVE Fanfest á Tix.is og kostar miðinn 10.900 kr. og gildir alla þrjá dagana. Einnig er hægt að kaupa sér miða eingöngu á Party at the top of the world sem kostar 3.900 kr. á Tix.is.

Við nördarnir munum að sjálfsögðu fylgjast með viðurðinum líkt og við höfum gert undanfarin ár.

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Efst upp ↑