Birt þann 10. apríl, 2017 | Höfundur: Nörd Norðursins
EVE Fanfest 2017: Samantekt
BJARKI ÞÓR OG STEINAR LOGI SKRIFA:
Dagana 6.-8. apríl var EVE Fanfest hátíðin haldin í Hörpu en Eve Online er enn vinsæll fjölspilunarleikur þrátt fyrir að hafa komið út árið 2003. Tvær af megin ástæðum fyrir langlífi leiksins voru augljósar á hátíðinni; stór hópur af harðkjarna aðdáendum sem mynda sterka heild (þrátt fyrir einstaka rýtingssstungur í bakið í leiknum sjálfum) og áhersla CCP á því að halda leiknum við og uppfæra hann reglulega ásamt því að koma með reglulegar viðbætur.
NÝIR SPILARAR
Mikil áhersla er lögð á nýja spilara og hvernig hægt er að gera lífið auðveldara fyrir þá í verkefni sem kallast „Inception: The new player experience“. Fjölmargir hafa prófað þetta kerfi og viðbrögðin hafa verið mun betri en fyrir fyrra kennslukerfið. Samhliða þessu frumsýndu CCP nýtt kynningarmyndband fyrir Eve Online sem hægt er að horfa á hér fyrir neðan.
SÝNDARVERULEIKI
CCP heldur áfram að leggja mikla áherslu á VR tæknina og þrátt fyrir engar stórar tilkynningar í ár þá er fyrirtækið með margt í bígerð. Undanfarið ár hefur CCP gefið út nokkra VR titla: EVE Valkyrie, Gunjack, Gunjack 2 og síðar á þessu ári er Sparc væntanlegur frá fyrirtækinu, sem er fyrsti leikurinn sem CCP sendir frá sér sem tengist ekki EVE heiminum. Hilmar Veigar minntist á að rætur CCP teygja sig aftur til OZ fyrirtækisins á Íslandi sem tengdist á sínum tíma þróun á sviði sýndarveruleika, og þess vegna kannski ekki skrítið að CCP sýni VR tækninni svona mikinn áhuga. CCP mun halda áfram að horfa til þróunar á svæði VR og byggja á þeirri þekkingu sem fyrirtækið hefur á því sviði.
NÝ EVE VALKYRIE UPPFÆRSLA
Groundrush viðbótin var kynnt til sögunnar á EVE Fanfest. Í þessari viðbót er að finna nýtt svæði (map) sem heitir Solitude. Nýja svæðið er sérstakt að því leitinu til að það er fyrsta svæðið í leiknum sem gerist á plánetu en ekki úti í geimi. Spilun leiksins helst þó óbreytt frá fyrri svæðum og mun þyngdarafl plánetunnar ekki hafa nein áhrif á hegðun geimskipanna eða spilun leiksins almennt. Við nördarnir prófuðum nýju uppfærsluna og nýja svæðið á Fanfestinu og það var skemmtileg tilbreyting frá öðrum svæðum í EVE Valkyrie. Viðbótin kemur út þann 11. apríl og er ókeypis fyrir eigendur EVE Valkyrie.
PERMABAND Í ROCK BAND 4
Tilkynnt var að tvö til þrjú lög með innanhúsbandi CCP, Permaband, eru væntanleg á lagalista Guitar Hero 4 í sumar, þar á meðal verður hittarinn Wrecking Machine. Hljómsveitin nýtur talsverðar vinsældar meðal EVE spilara og tengjast lagatextar þeirra oftar en ekki EVE heiminum.
REGLULEGAR UPPFÆRSLUR OG FRÍR Í SPILUN
CCP hætti fyrir nokkru að gefa út stórar uppfærslur fyrir EVE Online og ákváðu þess í stað að bjóða upp á smærri uppfærslur með reglulegu millibili. Undanfarið ár hefur fyrirtækið bætt marga hluti í EVE Online, þar á meðal sprengingar, útlitið á geimskipum, fatnað fyrir karaktera, og ýmsum brellum (effects) hefur verið bætt við svo eitthvað sé nefnt. Á EVE Fanfest býður CCP uppá umræður milli leikjahönnuða og spilara leiksins og geta þessi samtöl haft áhrif á framtíðaruppfærslur fyrir leikinn þar sem leikjahönnuðir vilja heyra frá spilurum um hvað mætti gera betur. CCP hefur einnig lagt aukna áherslu á að taka betur á móti nýjum spilurum meðal annars með því að útbúa nýjar og betri leiðbeiningar (tutorial) sem spilarar fá í byrjun leiks. Undanfarið hafa nýir hópar bæst við EVE Online leikinn eftir að CCP ákvað að yfirgefa mánaðarlegt áskriftargjald og bjóða uppá leikinn spilurum að kostnaðarlausu (free to play).
MYNDIR FRÁ EVE FANFEST 2017