Birt þann 15. mars, 2017 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson
Myndband: Gerð The Legend of Zelda: Breath of the Wild
Nintendo hefur birt þrjá nýja þætti á YouTube þar sem fjallað er um gerð The Legend of Zelda: Breath of the Wild sem kom í verslanir í byrjun mánaðarins. Hver þáttur er um 10 mínútur að lengd og tekur fyrir valin atriði sem tengjast gerð leiksins. Hægt er að horfa á alla þrjá hlutina hér fyrir neðan.
1. UPPHAFIÐ
THE BEGINNING – Í fyrsta hlutanum er fjallað um leikjahugmyndina og vinnuferlið sem liggur að baki The Legend of Zelda: Breath of the Wild. Byrjað var að vinna í leiknum snemma árið 2013 sem þýðir að hann var í um fjögur ár í vinnslu. Hönnuðir leiksins vildu halda í ákveðnar hefðir sem tengjast Zelda-heiminum en á sama tíma bjóða upp á nýja upplifun. Sumar hugmyndir í leiknum voru útfærðar sem 2D prótótýpa til að byrja með og ef hugmyndirnar voru góðar voru þær útfærðar yfir í þrívíddarútgáfuna, lokaútgáfu leiksins.
2. OPINN HEIMUR
OPEN AIR CONCEPT – Eitt af megin einkennum Zelda-leikjanna er það frelsi sem spilaranum er gefið til að kanna svæði og skoða sig um. Hönnuðir vildu halda í þessa hugmynd þar sem spilarinn getur séð yfir stór svæði, en sömuleiðis kannað lítil afmörkuð svæði. Í þessum hluta er fjallað um hugmyndina á bakvið opna svæðið í leiknum og sömuleiðis er fjallað um eldamennskuna í leiknum, tónlist og hljóð.
3. SAGA OG KARAKTERAR
STORY AND CHARACTERS – Í þriðja og seinasta hlutanum er fjallað um þrjár helstu persónur leiksins; hetjuna Link, prinsessuna Zelda og illmennið Ganon. Aðeins er fjallað um söguþráð leiksins en það er mjög lítið og ekkert sem spillir fyrir þeim sem eiga eftir að spila leikinn.