Leikjarýni

Birt þann 8. mars, 2017 | Höfundur: Steinar Logi

Leikjarýni: Nioh – „Meira en Dark Souls eftirherma“

Leikjarýni: Nioh – „Meira en Dark Souls eftirherma“ Steinar Logi

Samantekt: Meira en Dark Souls eftirherma. Ef þú vilt áskorun þá ætti þessi að uppfylla þínar þarfir.

4

Góður!


Einkunn lesenda: 4.8 (1 atkvæði)

Nioh er hasar-hlutverkaleikur (action RPG) þróaður af Team Ninja og gefinn út af Koei Tecmo fyrir SOE. Ef eitthvað kvakar eins og önd og labbar eins og önd þá er það líklega önd semsagt þetta er algerlega Dark Souls eftirherma þó að einhverjir þræti fyrir það. Það eru bara of margir hlutir sem eru greinilega fengnir að láni frá Dark Souls og sérstaklega Bloodborne.

En Team Ninja stendur sig vel í að byggja á þessari tegund leikja og bæta einhverju nýju við. Lords of the Fallen reyndi að gera það sama árið 2014 en náði ekki vinna sig upp úr að vera bara Dark Souls eftirherma en það gerir Nioh hins vegar. Það eru þrír þættir að mínu mati sem skera Nioh frá Dark Souls / Bloodborne en þeir eru bardagakerfið, verndarandarnir (Guardian Spirits) og listræna umgjörðin (Nioh gerist í Japan í kringum 1600 og er því í allt öðru umhverfi en til að mynda Bloodborne).

Í byrjun getur Nioh verið yfirþyrmandi því að það er svo mikið sem maður þarf að læra. Ein af ástæðunum er bardagakerfið. Vopnin eru fimm: sverð, tvö sverð (dual swords), öxi, spjót og Kusarigama sem er sigð og málmkúla fest við keðju. Allt eru þetta skemmtileg vopn sem hafa sína kosti og galla en leikurinn hvetur þig til að prófa öll vopnin og þú getur haft tvö á þér. Maður eyðir þróunarstigum fyrir hvert vopn í samsvarandi hæfileikatré (skill tree) ásamt galdri og ninjakúnstum. Það er hægt að þróa mismunandi týpur s.s. sterkan gaur í fullum herklæðnaði með öxi og galdra að vopni eða ninju sem er létt á fæti og sérhæfir sig í að komast fyrir aftan óvininn og allt þar á milli.

Í byrjun getur Nioh verið yfirþyrmandi því að það er svo mikið sem maður þarf að læra

Auk þungra og hraðari högga þá getur maður valið há-stöðu fyrir þungmestu sóknina og minnstu vörnina, lág-stöðu fyrir betri vörn en veikari en jafnframt sneggri högg og mið-stöðu þar á milli. Þetta getur maður gert hvenær sem er og reyndar getur það verið taktískt að skipta á milli í miðjum stórbardaga. Maður þarf að passa upp á þolið sem kallast Ki hér (sb. stamina í Dark Souls) því að óvinurinn getur náð virkilega góðu höggi á þig ef þú klárar þolið (og í stórbardögum kostar þetta oft dauða) en það skemmtilega við Nioh er að það sama gildir um óvininn. Þetta þýðir að maður er ekki bara að meiða óvininn heldur stundum hamra á vörninni þar til hann klárar þolið (að því gefnu að þú sért ekki sjálfur búinn með það!)

Maður sankar smátt og smátt að sér verndaröndum sem byggjast oft á einhverjum dýrum eins og leðurblökum, björnum og úlfum en líka öðrum verum. Í sögunni þá hefur karakterinn okkar, hinn bláeygði og ljóshærði samurai sérstaka tengingu við verndarandana. Þeir eru ekki bara til sýnis því að smátt og smátt fyllir maður kraft hjá þeim og þegar maður leysir hann úr læðingi þá er maður ósnertanlegur í smá tíma og meiðir óvinina meira með tilheyrandi flugeldasýningu.

Það er hægt að þróa mismunandi týpur s.s. sterkan gaur í fullum herklæðnaði með öxi og galdra að vopni eða Ninju sem er létt á fæti og sérhæfir sig í að komast fyrir aftan óvininn og allt þar á milli

Niðurstaðan er að allt sem viðkemur bardaga í leiknum er til fyrirmyndar og er ástæða þess að ég og margir eru enn að spila eftir að hafa klárað en hann býður líka upp á endurspilun. Japanska umgjörðin er mjög sannfærandi og ég er viss um að það er fullt af tilvísunum sem maður er ekki að ná. Sagan er samt ekki alveg að grípa mann, kannski sem vestrænn gaur þá er erfitt að muna öll þessi japönsku nöfn (nær allt tal er á japönsku) og það eru hreinlega ekki það athyglisverðir hlutir í gangi þó að óneitanlega sé grafíkin í myndskeiðunum mjög góð, sérstaklega andlitin.

allt sem viðkemur bardaga í leiknum er til fyrirmyndar

Borðin eru eins og maður hefur vanist frá Dark Souls leikjunum; maður vinnur sig áfram í gegnum svæði krökkt af óvinum og gildrum og í stað þess að stöðva við bálkesti þá eru hér litlir bænastallar (shrines). Síðan endar svæðið í stórbardaga (boss) sem eru margir hverjir mjög flottir en það sem dregur svæðin niður er að venjulegu óvinirnir eru of einhæfir og maður berst aftur og aftur við sömu óvinina. Svæðin eru óneitanlega flott en eru ekki alveg eins vel samansett og í Dark Souls leikjunum og það vantar þessi “vá” augnablik sem þeir leikir hafa. Svæðin eru reyndar frekar einhæf til lengdar. Kannski er það ósanngjarnt að bera allt saman en ef þú byggir augljóslega á einhverju þá er erfitt að gera það ekki. Leikurinn er langur, fyrir mitt leyti aðeins of langur og ég hef einstaklega gaman af svona leikjum. Einnig er þreytandi í upphafi hversu oft maður þarf að selja eða fórna öllum þeim aragrúa af hlutum sem maður sankar að sér en þeir sem eru vanir Diablo 3 ættu að vera eins og heima hjá sér, semsagt þetta venst og það er hægt að velja marga hluti í einu.

Ninja Theory standa sig vel í að lengja líftíma leiksins eftir að sagan er búin þ.e.a.s. eftir að maður hefur klárað hann einu sinni. Það bætist við ný tegund hluta, svokölluð guðdómleg (divine) vopn og klæðnaður. Einnig verða óvinirnir mun sterkari en verðlaunin mun meiri eins og vera ber. Það eiga að bætast við fleiri spilari-móti-spilara möguleikar í framtíðinni en það er þegar skemmtilegt kerfi til staðar tengt því. Þar sem spilarar hafa drepist eru grafir (sb. blóðslettur í Dark Souls leikjunum) en ef þú smellir á þessar grafir þá geturðu barist við spilarann sem dó og unnið eitthvað af hans græjum. Það er tölvan sem stýrir þessum óvini en hann er nákvæmlega eins í útliti og hæfileikum og spilarinn sem dó og ef þessi spilari átti einhvern sjaldgæfan hlut geturðu unnið kópíu af honum.

Ninja Theory standa sig vel í að lengja líftíma leiksins eftir að sagan er búin

Leikurinn er fullunnin vara sem er bara alls ekki svo algengt á þessum dögum þegar leikir fara iðulega of snemma á markaðinn. Undirritaður hefur ekki lent í neinum tæknilegum vandræðum sem er alveg nóg af í öðrum svona leikjum. Tekið skal fram að leikurinn var spilaður á venjulega PS4 en ekki á PS4 Pro og tengt því þá hægðist aðeins á leiknum á örfáum svæðum á gömlu vélinni minni. Þrátt fyrir gallana sem teknir voru fram að ofan þá er þetta stórgóð skemmtun fyrir þá sem hafa gaman af svona leikjum. Kostirnir yfirvinna gallana og ef þú vilt áskorun þá ætti þessi að uppfylla það. Varðandi erfiðleikastigið þá myndi ég telja að hann væri erfiðari en Dark Souls II en auðveldari en Dark Souls en sumir aukabardagarnir undir lokin minna á gömlu vinina Ornstein og Smough.

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑