Birt þann 12. október, 2016 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson
Íslenskir tölvuleikir með Game Boy þema á GBJAM
Fimm leikjahönnuðir frá Íslandi tóku þátt í GBJAM leikjadjamminu í ár með jafn marga leiki. Þetta eru leikirnir Pongpongpongpong eftir Jóhannes G. Þorsteinsson, Wild Goose Chase eftir Skúla Óskarsson, Void-Dogs eftir Charles Palmer, Let’s Make Games eftir Jóhannes Sigurðsson og Hell-Bent eftir Torfa Ásgeirsson.
Game Jam, eða leikjadjamm á óformlegri íslensku, er viðburður þar sem áhugafólk og fagfólk á sviði tölvuleikjahönnunar keppist við að búa til nýja tölvuleiki á mjög stuttum tíma og þá gjarnan út frá ákveðnum reglum eða völdu þema. Á GBJAM er Game Boy þema og þurftu leikirnir í ár að uppfylla fjögur skilyrði:
- Leikurinn verður að vera með Game Boy þema.
- Allir hlutir (assets) verða að vera búnir til á meðan leikjadjammi stendur.
- Halda sig við upprunlega skjáupplausn Game Boy, eða 160px x 144px.
- Nota aðeins 4 liti í leiknum.
Þátttakendur fengu 10 daga til að búa til leik frá grunni og stendur nú kosning yfir á heimasíðu GBJAM 5 þar sem spilarar geta gefið leikjunum stig. Kosningu lýkur þann 16. október og í framhaldinu verður tilkynnt hvaða leikur hlaut flest stig.
Við hvetjum lesendur til að tjékka á íslensku leikjunum. Hægt er að spila og nálgast nánari upplýsingar um leikina með því að smella á leikjatitlana hér fyrir neðan.
Pongpongpongpong eftir Jóhannes G. Þorsteinsson
Fjögurra manna PONG leikur. Klassík.
Wild Goose Chase eftir Skúla Óskarsson
Fangaðu gæsina. Minnir svolítið á Super Meat Boy í spilun.
Void-Dogs eftir Charles Palmer
Forðastu loftsteina til að safna stigum – og ekki deyja!
Let’s Make Games eftir Jóhannes Sigurðsson
Leikur um að búa til leik! Fangaðu rétt merki til að safna stigum og búa til leik.
Hell-Bent eftir Torfa Ásgeirsson
PLAFF! Doom klón fyrir Game Boy.