Fréttir

Birt þann 11. maí, 2016 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Spilaðu sem „Dabbi kóngur“ í nýjum Pac-Man leik

Undanfarna daga og vikur hefur ansi margt gengið á í tengslum við forsetakosningarnar í sumar. Ólafur hætti við að hætta við, en hætti svo aftur við meðal annars vegna þess að Davíð Oddsson ákvað að bjóða sig fram til forseta.

Í leiknum á Davíð að safna atkvæðum (punktum) og forðast að snerta mótframbjóðendurna…

Nú hefur skapandi leikjahönnuður búið til tölvuleik í anda Pac-Man þar sem spilarinn stjórnar Davíði Oddssyni, ritstjóra Morgunblaðsins og fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins. Leikurinn heitir „Dabbi kóngur“ (sem er tilvísun í þekkt atriði úr áramótaskaupinu frá árinu 2001) og í honum stjórnar spilarinn Davíði með svipuðum hætti og Pac-Man í samnefndum leik. Í leiknum á Davíð að safna atkvæðum (punktum) og forðast að snerta mótframbjóðendurna Guðna Th, Andra Snæ, Höllu Tómasdóttur og Ástþór Magnússon. Davíð getur svo fengið svokallað „ofuratkvæði“, en þá getur Davíð snúið leiknum við og borðað andstæðinga sína. Eftir að hafa safnað öllum atkvæðum í borðinu birtast skilaboðin „ÞVÍLÍKUR FORSETI“ og spilarinn fer í næsta borð. Þegar leikmaður hefur lokið leik gefst honum kostur á að skrá skor sitt og reyna að komast í efsta sæti yfir flest atkvæði.

Í leiðbeiningum leiksins koma eftirfarandi upplýsingar fram:

Hjálpaðu Davíð að safna atkvæðum. Farðu samt varlega því fjöldinn allur af öðrum frambjóðendum eru á eftir honum. Ef þú nælir í ofuratkvæði þá færðu tækifæri til að sýna þeim hvar Davíð keypti ölið.

ATH!
Þessi leikur er til skemmtunar og tengist engum forsetaframbjóðendum að neinu leyti.

Leikinn er hægt að spila á slóðinni www.dabbikongur.is og er spilanlegur í vafra, bæði í tölvu og snjallsíma.

Til gamans má geta hafa pólitískir tölvuleikir á Íslandi orðið nokkuð áberandi upp á síðkastið. Fyrir stuttu datt leikurinn Happy Iceland inn á netið sem tæklar Wintris-málið með pólitískum hætti og svo má ekki gleyma Leka Trouble sem fjallar um lekamálið fræga frá árinu 2013.

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑