Leikjarýni

Birt þann 25. apríl, 2016 | Höfundur: Steinar Logi

Leikjarýni: Dark Souls III – „Tæknilega betri en forverarnir en engar nýjar hugmyndir“

Leikjarýni: Dark Souls III – „Tæknilega betri en forverarnir en engar nýjar hugmyndir“ Steinar Logi

Samantekt: Tæknilega betri en forverarnir en engar nýjar hugmyndir

4.5

Heillandi


Einkunn lesenda: 4 (1 atkvæði)

Þá er nýr Dark Souls leikur kominn út aðeins ári eftir Bloodborne og greinilega nóg að gera hjá meistara Hidetaka Miyazaki. Hann var ekki við stjórnvölinn í síðasta Dark Souls leik og maður fann það. Þrátt fyrir að Dark Souls II hafi verið fínn leikur þá bjóst maður við meiri fjölbreytileika hvað varðar óvini, betri leikjaupplifun og heilstæðari leikjaveröld. Snilli Miyazaki felst nefnilega meðal annars í því hversu góður hann er að búa til sannfærandi veröld sem hefur uppá að bjóða heillandi en jafnframt þrúgandi andrúmsloft. Gerir hann þetta fyrir Dark Souls III? Já og nei, en að mestum hluta já.

ds3_2_okÞrátt fyrir vöntun á frumleika og betri baksögu þá er leikurinn sjálfur hrein snilld. Dark Souls III hefur svo marga góða hluti sem virka

Dark Souls III byggir aðeins of mikið á forverum sínum fyrir okkur sem hafa spilað alla FromSoftware leikina. Þetta virðist vera einn grautur af tilvísunum í þá alla þ.e.a.s. Dark Souls, Dark Souls II, Demon’s Souls og jafnvel Bloodborne. “Ef það er ekki bilað, til hvers að laga það” hefur verið mottóið við gerð leikjarins og margt er endurnýtt, allt frá hugmyndum til heilla staðsetninga. Það góða er að tæknilega séð er þetta sá besti; hann lítur stórkostlega vel út og bardagakerfið er mjög vel útfært. Núna höfum við hraðann sem kom inn með Bloodborne og andstæðingarnir eru fjölbreytilegir, hættulegir og AI er betrumbætt (með undantekningum). Stórskrímslin eru áskorun, sérstaklega þegar líður á leikinn og eru þau vel hönnuð að flestu leyti. Í anda Souls leikjanna þá er hreinn aragrúi af vopnum, klæðnaði, göldrum og öðrum hlutum til að sanka að sér. Það er mikið um leynileg svæði og falda fjársjóði og er það vel nema að einstaka sinnum er of mikið af litlum aukasvæðum sem þjóna litlum sem engum tilgangi nema til að stækka heiminn.

Dark_Souls_3_03

Snilli Miyazaki felst nefnilega meðal annars í því hversu góður hann er að búa til sannfærandi veröld sem hefur uppá að bjóða heillandi en jafnframt þrúgandi andrúmsloft. Gerir hann þetta fyrir Dark Souls III? Já og nei, en að mestum hluta já.

Maður hafði vonast eftir meiri frumleika eftir að Bloodborne kom okkur á óvart á því sviði. Hugsanlega hefur þessi leikur ekki endilega verið hugsaður fyrir reynda spilara, heldur eru þeir að fá inn nýtt fólk með því að nota það sem reynst hefur vel áður og miðað við sölutölur þá er það að ganga. Fólk spilar samt þessa leiki af mismunandi ástæðum og leikurinn er í heildinni það sterkur að maður getur litið framhjá ýmsum veikleikum (rétt eins og hjá fyrri leikjum). Sjálfur hef ég alltaf haft gaman af baksögu þessara leikja en núna finn ég ekkert bitastætt og það hefur áhrif á spilaupplifun. Persónurnar í leiknum eru ekki að gefa mikið af sér og aðalpersónur endurtaka sig of oft þrátt fyrir að ýmislegt í heiminum hafi breyst. Hugsanlega kemur eitthvað í ljós seinna, rétt eins og það var fyrir upprunalega Dark Souls en eins og er þá virðist ekki hafa verið lögð mikil vinna í söguna sjálfa.

Stutt um erfiðleikastigið; það virðist halla aðeins á þá sem nota galdra sem hefur stundum verið óvenju öflugt í fyrri leikjum. Óvinirnir eru það hraðir að oft hefur maður ekki tíma til að galdra fram sálar-örvar eða álíka. Sem betur fer er hægt að þróa karakterinn sinn í ýmsar áttir því að eins og áður skiptir ekki það miklu máli hvaða hetjugerð maður velur í byrjun og galdranotandi getur vel þróast í einhvern sem er góður með sverð og styrkt það með galdri. En barátta í návígi virðist í flestum tilfellum vera málið í þessum Souls leik því að áhersla er lögð á „parry“ og „backstab“ eiginleika og hér getur maður verið með sverð eða hnífa í hvorri hendi. En það er alltaf hægt að kalla á aðra spilara til að hjálpa sér og undirritaður var ekki feiminn við að nota það fyrir suma stórbardagana. Það skal tekið fram að undirritaður hefur ekki prófað mikið „Pvp“ eða spilarar á móti spilurum en það hefur alltaf verið mjög vinsæll hluti þessara leikja. Ef litið er á spjallþræði þarf FromSoftware aðeins að jafna nokkra hluti út í þeim efnum.

Þrátt fyrir vöntun á frumleika og betri baksögu þá er leikurinn sjálfur hrein snilld. Dark Souls III hefur svo marga góða hluti sem virka og undirritaður á líklega eftir að spila hann mun meira í framtíðinni. Það sem gerir hann svo góðan er ekki endilega erfiðleikastigið heldur heimurinn sjálfur og hvernig maður vill sökkva sér í hann. Það eru mörg stórkostleg augnablik þar sem maður fær allt í einu yfirsýn yfir tvö eða þrjú svæði sem maður var áður á og næsta svæði sem maður er að fara á. Þennan hluta má ekki vanmeta eins og sannaðist á Dark Souls II þar sem þetta vantaði að miklu leyti. Tónlistin og hljóð er líka til fyrirmyndar og hjálpar til að skapa þessa einkennandi stemmningu Dark Souls veraldarinnar.

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑