Birt þann 28. apríl, 2016 | Höfundur: Jósef Karl Gunnarsson
Fimm frábær frumsamin tölvuleikjatónverk
Flestir geta ekki hugsað sér að fara í gegnum daginn án þess að hlusta á tónlist og margir hlusta á útvarpið í vinnunni. Það geri ég ekki en hef lítinn iShuffle með mér sem ég fylli á af og til með hjálp forritsins SharePod því ég neita að nota iTunes. Oftast er ég með raftónlist, oftar en ekki, frá níunda áratugnum á græjunni minni. Undanfarið hef ég verið með tónlist úr tölvuleikjum í gangi og ákvað því að deila með lesendum Nörd Norðursins hvað ég hef verið að hlusta á. Í þessu tilfelli er ég að tala um frumsamin tónverk sem spanna allan leikinn.
5. GRAND THEFT AUTO
Craig Conner átti í meira en helmingnum af lögunum sem heyrðust í fyrsta Grand Theft Auto. Ég veit ekki hvort fólk átti sig á því að lögin í fyrstu 2 leikjunum voru frumsamin fyrir leikinn. Það breyttist algjörlega þegar GTA 3 kom út. Allskonar tónlistarstefnur koma fram og ég tek þetta fram yfir topp 40 poppið sem er ofspilað í útvarpinu nú til dags.
4. THE ANGRY VIDEO GAME NERD ADVENTURES
Það er fátt sem kemur manni í eins gott skap og gott tölvupopp og lögin eftir Distant eru skuggalega ávanabindandi. Sérstaklega Beat It & Eat It sem eru í anda vinsælustu laganna sem voru uppi á tíunda áratugnum.
3. CASTLEVANIA CHRONICLES (X68000 útgáfan)
Snillingarnir Kinuyo Yamashita og Satoe Terashima sömdu lögin í fyrsta Castlevania leiknum. Til eru margar útgáfur af leiknum og tónlistin hljómar öðruvísi eftir því hvaða tölva er notuð. Árið 1993 kom út Castlevania Chronicles sem var hálfgerð endurgerð af upprunalega leiknum og var gefin út á SHARP X68000 heimilstölvuna sem var einungis til í Japan. Flestir kannast þó við PlayStation útgáfuna. Hins vegar eru ný lög og/eða uppfærð lög sem voru samin af Shin-chan, Keizo Nakamura og Hiroshi. Á PlayStation útgáfunni var einnig hægt að heyra nýja útgáfu samda af Sota Fujimoiri.
2. HOTLINE MIAMI
Níu listamenn komu að gerð tónlistarinnar sem heyrðist í Hotline Miami. Æðislegur óður til níunda áratugarins. Það er varla hægt að gera upp á milli, allt klikkað góð lög.
1. MARATHON
Þegar ég heyri Bungie nefnt þá hugsa ég um Marathon. Alexander Seropian gerði tónlistina fyrir þann leik. Hér mun ég svindla aðeins því ég hef verið að hlusta á endurhljóðblandaðar útgáfur af upprunalegu lögunum og ég hef verið með þetta fast á spilaranum mínum í að nálgast eitt ár. Það er hægt að nálgast Marathon leikina ókeypis á löglegan hátt og þar er að finna nýjar útgáfur af lögunum.
Svona til þess að gefa ykkur hugmynd um hvernig lög geta breyst eftir því sem tækninni fleytir fram þá er hér sama lagið í mismunandi útgáfum.
Upprunalega lagið, Landing, eins og það hljómaði á Macintosh:
Síðan var víst til einhver geisladiskur í takmörkuðu upplagi þar sem öðruvísi búnaður var notaður:
Og ég dýrka flestar endurhljóðblöndurnar sem komu út í gegnum spes útgáfuna. Margir komu að henni og einn þeirra er Craig Hardgrove.
Svo væri gaman að heyra hvaða leikjatónlist lesendur mæla með og við hvaða tilefni þau lög eru spiluð.
Mynd: Hotline Miami 2