Birt þann 17. mars, 2016 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Gombri – ný myndasaga eftir Elínu Eddu
Þann 1. apríl (ekki aprílgabb!) kl. 20:00 mun Elín Edda opna sýningu á myndasögunni Gombra í Ekkisens, Bergstaðastræti 25B í Reykjavík. Á sama tíma verður bókin gefin út sem er tæplega 200 blaðsíður að lengd og verður gefinn út í jafnmörgum eintökum.
Gombri er ný myndasaga eftir Elínu Eddu. Sagan fjallar um Gombra sem er orðinn leiður á drunganum sem umkringir hann og ákveður því að yfirgefa heimili sitt, Garðinn. Hann leggur af stað í langt ferðalag — staðráðinn í að snúa ekki aftur. Helstu umfjöllunarefni sögunnar eru náttúran, sannleikurinn og tilveran.
Elín Edda er 20 ára nemi á fyrsta ári í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands. Hún hefur fengist við teikningu og skriftir frá því hún man eftir sér. Hún notar helst vatnsliti og blek — eins og í Gombra. Elínu Eddu finnst einlægni mikilvægust fyrir flæði textans og teikningarinnar. Í flæðinu verða oft óvæntar uppákomur. Teikningin á fyrst og fremst að vera frjáls og mistök eru leyfileg. Helst vill Elín Edda gera aðlaðandi myndir og texta sem gefur lesendum nýja sýn á einhvern hátt. Árið 2014 gaf hún út myndasöguna Plöntuna á ganginum í samstarfi við Elísabetu Rún.
Sýningin opnar kl. 20:00 föstudaginn 1. apríl og stendur yfir laugardag og sunnudag frá 14–20.
Á opnuninni flytur tónlistamaðurinn Kaðlín ný verk sín.
SÝNISHORN
Heimild: Fréttatilkynning
Höfundur er Bjarki Þór Jónsson